15 ágúst 2008

Þriðji frídagurinn, þar sem sögumaður okkar fer í Kringluna

Nú sit ég á kaffihúsi í Kringlunni, og gæti náttúrulega verið að gera ýmislegt annað, en ég kýs að gera þetta akkúrat núna. Drekk grænt te, las moggann áðan, kíki á netið. Maður er hálflamaður án internetsins heima. Hérna er allstaðar fólk með kerrur og í kerrunum eru staflar af pappakössum, það er endalaust verið að bera draslið inn í búðirnar sem selja draslið.

Ég er eitthvað slappur, líklega er það bara eftir gærdaginn. Best væri að koma sér heim og leggjast í nokkrar mínútur.

Það eru einhverjir satans gaurar að vinna í húsinu þarsem ég bý, að setja upp nýjar þakrennur og ég veit ekki hvað. Þeir byrja klukkan átta níu á morgnana.

Nú er ég loksins búinn að hitta alla þá sem búa í húsinu. Þetta er indælis fólk. Kona á fimmtugsaldri á fyrstu hæð og dóttir hennar, sem er í söngnámi. Ungt par í kjallaranum, þau eiga litla stelpu og kettling (sem mér skilst að heiti Kisulóra). Og lögreglumaðurinn Eiríkur á loftinu, en hann er frá Egilsstöðum. Eiríkur sagnfræðinemi, sem ég leigði með á stúdentagörðum, hann var líka frá Egilsstöðum. En þessir tveir menn eru ekki sami maðurinn.

Ég er ánægður með hvað sturtan er góð í nýju íbúðinni. Og að maður geti fengið volgt vatn úr eldhúskrananum, ekki bara heitt og kalt.

Afgreiðslufólkið hérna lætur einsog ég sé fyrir því. Það vill líklega að ég eyði meiri peningum.

Mig hálflangar að kíkja á Selfoss en það er langt komið á föstudag og ég þarf að vera hérna á morgun og ég á enn eftir að raða uppí hillurnar. Í gluggasyllunni eru staflar af bókum sem byrgja mér sýn. Ég blindast!

Krakkar eru fyndnir en þeir eru líka hálfvitar. Sumir fullorðnir eru þannig líka.

Fólkið í Amnesty göllunum er alltaf að reyna að stoppa mig og segja mér eitthvað. Kannske ég ætti að staldra við einhvern daginn og vita hvað það er að tala um. Það eru bara ósjálfráð viðbrögð að stoppa ekki á gangi þegar einhver er að biðja mig um peninga.

Geispi geisp. Voðalega er ég orkulítill. Það er eitt eða tvennt sem ég þarf að gera hérna í viðbót og svo er heim heim, kannske Zeppelin á fóninn á meðan ég legg hillurnar á typpin og raða bókum og diskum á þær. Fyrst í huganum, svo í heiminum. Og set drasl á veggina. Finn einhvern góðan stað fyrir L'Ours.

Hef ég minnst á Fyrirætlunina? Mér býðst íbúð á Suðureyri frá þarnæsta mánudegi og út fimmtudaginn. En málið er: Mig langar að fara þangað til að vera einn, en ég nenni varla að keyra þessa leið einsamall. Hún er löng og köld og löng. En ef ég flýg á Ísafjörð þá þarf ég að taka leigubíl á Suðureyri?

Við hugsum málið, ég og kóngurinn og presturinn.

Hlýtur byr að ráða?

Með Páli Óskari í forsvari? Get ég bankað uppá og spurt hann útí þetta augliti til auglitis?

Eða á maður að salta þetta í einn tvo daga og kíkja á X-Files myndina.

...

Í gær þrifum við Sævar Skaftahlíðina, svona einsog við gátum. Það er ennþá eitthvað í eldhússkápunum og svona, en herbergin okkar eru tandur og allt hitt að minnsta kosti betra en það var þegar við tókum við því. Nei heyrðu ég gleymdi að taka hjólið mitt úr kjallaranum. Bölvað. Freyja er búin að leggja inná mig samt. Og ég held ég hafi klárað skattavesenið í gær.. það var nú eitt.

Hollráð, góð ráð til þeirra sem fara út í skiptinám og fá styrk frá nordplus eða erasmus: Þegar kemur að því að færa styrkinn inn í skattframtalið þá á hann að fara í reitinn sem er merktur ,,aðrar skattfrjálsar tekjur". EKKI í ,,styrkir til náms, vísinda eða rannsókna". Þetta fer undir sama hatt og dreifbýlisstyrkurinn vinsæli.

Og það skrýtna er að e.t.v. kemur þetta rugl í skattinum til með að lækka álagninguna mína, vegna þess að þegar skattlega heimilisfestin var komin á hreint -- þeas. ég hafði fengið að vita hvað ég þyrfti að senda og hvert til að fá það leiðrétt -- þá benti hún Sigurlín blessunin mér á að ég gæti sent inn rekstrarreikning fyrir flugferðum, leigu og námsgögnum, og að það myndi dragast frá reiknuðum skatti af Nordplus-styrknum. Þetta vissi ég ekki þegar ég borgaði skatt af styrknum sem ég fékk haustið 2006. Þá fór ég að spá í þessu frekar og hringdi í Alþjóðaskrifstofu og fékk þar að vita að ég þyrfti ekki að skila inn neinum reikningi; ég hefði bara sett upphæðina í vitlausan dálk. Úbbs og svo framvegis.

En semsagt. Hefði skatturinn ekki ætlað að rukka mig um alltof alltof mikið fé þá hefði ég aöl. ekki kippt mér upp við að borga smávegis óþarfa skatt af styrknum góða.

Ekki það, ég eyði þessu öllu í bús og kvensur. En það verður MITT bús og MÍNAR kvensur. Erum við í sovjetríkjunum eða hvað?

-B.

Engin ummæli: