22 ágúst 2008

Hei þið sundkallar

Sagði ég einhverntíman frá honum Bjarti Loga, sem ég leigði með á stúdentagörðum? Skrifborðin okkar lágu sitthvoru megin að sama veggnum og á kvöldin sat ég við tölvuna og hlustaði á hann hlusta á rólegt og rómantískt og syngja með. Celine Dion og Michael Bolton og fleiri góðir. Sú var nú tíðin.

Mér varð hugsað til hans núna þarsem á hæðinni fyrir neðan er kona og hún á dóttur og dóttirin er í söngnámi. Hún er að æfa sig býst ég við, hún er búin að vera að syngja síðustu klukkutímana. Endrum og eins heyrist píanósláttur.

Það er gaman að búa í samfélagi við fólk, þarsem manneskjur gera hluti.

Í gær kom hún Þórunn aftur að austan og þær Ingibjörg dönsuðu við einhverja mússík sem ég hafði ekki heyrt áður. Gólfið í stofunni er ekki mikið en það dugði þeim. Ég flúði inní herbergi, þarsem ég er ekki mikið fyrir sporið, en það var óneitanlega gaman að fylgjast með þessu útundan öðru auganu.

Ég sýð meira drasl í potti og drekk appelsínusafa og borða hollan mat, en ég er samt eitthvað stíflaður. Góð vinkona mín benti mér á að detta í það, ég veit ekki hvort hún meinti það í hálfkæringi. En ég á hvorki viskí né romm, bara bjór. Varla dugar það. Önnur vinkona mín sagði mér að fara snemma að sofa en ég veit ekki hvernig það er gert.

Amma sagði þetta um daginn þarsem við mamma og hún sátum og borðuðum, eftir að hafa flutt draslið mitt í nýju íbúðina: Heimurinn er lítill þegar fólk er að tala saman. Sem er alveg rétt. Og hann stækkar þegar maður talar ekki við annan en sjálfan sig í nógu langan tíma, og minnkar dálítið aftur þegar maður heyrir fólk syngja í gegnum veggi.

Hei já, ólympíuúrslitaleikur í handbolta á sunnudaginn? Áfram Ísland.

-b.

Engin ummæli: