18 ágúst 2008

Í netspreng

Ég setti nokkrar myndir upp á flickr, þar á meðal þessa hér:

Hana kalla ég ,,Hallur horfist í augu við skríðandi óreiðuna, en heldur ró sinni og kemst lifandi undan."



(Einsog kunnugir vita þá er skríðandi óreiðan enginn annar en Nyarlathotep, og þónokkuð afrek af Halls hálfu að sleppa útaf Dillon með höfuð og hreðjar. Á hinn bóginn hefur hann væntanlega misst ansi mikið san og hlýtur að teljast vopnaður, sturlaður og stórhættulegur mannfólki og náttúru.)

...

Nú er netið enn ekki komið í Mávahlíðina (eftir því sem ég best veit) og ég sit því á Prikinu. Hérna á ská á móti, fyrir utan Sólon, sá ég hvar mótorhjólalögga sat og spjallaði við félaga sína, einsog hann gerði líka síðast þegar ég var hérna. Sirka klukkutíma eftir að ég settist niður, núna rétt í þessu, stóð hann upp og talaði í síma eða talstöð, setti á sig hjálminn, stökk á hjólið og brunaði niður gangstéttina með sírenu og ljós í gangi.

Mér þætti gaman að vita hvaða ósköp gengu á svo þessi gaur skyldi hætta á að keyra niður hóp af gangandi vegfarendum á Bankastrætinu..

...

Við Davíð og Víðir kíktum á X-Files myndina og hún var hörmuleg. Ég er hinsvegar alltaf á leiðinni á Dark Knight aftur. Núna í kvöld?

Og mig langar að kíkja austur alltíeinu.

Ég er búinn að koma mér fyrir í Mávahlíð, það síðasta var að tengja græjurnar og ég gerði það í gær. Ég á reyndar eftir að fara með gamla magnarann og plötuspilarann niður í geymslu, en ég geri það í einhverri ferðinni. Standlampanum kem ég hvergi fyrir. Og við þurfum að hugsa stofuna eitthvað aðeins betur. Bíðum samt með það þangað til við erum öll komin saman.

Gleraugun mín beygluðust í smávegis vingjarnlegum ryskingum um helgina. Ég fór með þau í Gleraugnasmiðjuna og þau löguðu þau fyrir mig endurgjaldslaust. Kannske var það ekkert til að tala um fyrir þetta ágæta fólk, en mér þótti það samt fallegt af þeim.

Og ég fór með hjólið mitt í viðgerð. ,,Stilla og yfirfara" einsog gaurinn kallaði það. Eftir nokkrar vikur má ég fara að nota það aftur.

...

Ég vissi ekki að fólk fylgdist með Ólympíuleikunum. Er ég firrti gaurinn sem vill ekkert vita?

...

Þrem korterum síðar er mótorhjólalöggan komin aftur á staðinn sinn. YP-556. Varið ykkur.



-b.

2 ummæli:

hallurkarl sagði...

Já já, missti smá San, en er furðu vel haldinn (ég var að enda við að ryksuga bílskúrinn, svo eitthvað sé nefnt(úbbs, er normal að ryksuga bíslkúra? Hm. Og það á mánudegi.))
Er heill heilsu. Óvopnaður, heill á geði og hættu... lítill, skulum við segja. Og þetta er ekki Nyarlathothep, þetta er bara stúlka, Bjössi! Eða voru augu mín andsetin?

Björninn sagði...

Nei Nyarlathotep var andsetinn.. af stúlku!

Ég held að það sé ekki alveg normalt að ryksuga bílskúra. En kannske er ryksugan þín andsetin?