24 ágúst 2008

Súgandi



Einn tveir: Ég gæti flogið vestur á morgun og komið aftur á fimmtudag eða föstudag fyrir rúman sautjánþúsundkall. Ég gæti nuðað í Inga Birni til að koma mér á Suðureyri og tilbaka.

þrír fjórir: Það verður rigning næstum allan tímann, samkvæmt veðurstofu.

fimm sex: En það verður rigning um allt landið meira og minna, svo það skiptir kannske ekki svo miklu máli hvar maður verður.

sjö átta: Jú og mér er eiginlega farið að leiðast þetta aðgerðarleysi hérna í Reykjavík, kannske er ráð að gera ekkert einhverstaðar annarstaðar.

níu tíu: Svo var ég reyndar að frétta að það verður annar gaur þarna frá þriðjudegi til föstudags.. Ég þekki hann lauslega, en þetta er aðeins minna freistandi fyrir vikið.

ellefu tólf: Já ég veit ekki alveg með þetta. Sjáum til nokkrar mínútur í viðbót.

-b.

22 ágúst 2008

Hei þið sundkallar

Sagði ég einhverntíman frá honum Bjarti Loga, sem ég leigði með á stúdentagörðum? Skrifborðin okkar lágu sitthvoru megin að sama veggnum og á kvöldin sat ég við tölvuna og hlustaði á hann hlusta á rólegt og rómantískt og syngja með. Celine Dion og Michael Bolton og fleiri góðir. Sú var nú tíðin.

Mér varð hugsað til hans núna þarsem á hæðinni fyrir neðan er kona og hún á dóttur og dóttirin er í söngnámi. Hún er að æfa sig býst ég við, hún er búin að vera að syngja síðustu klukkutímana. Endrum og eins heyrist píanósláttur.

Það er gaman að búa í samfélagi við fólk, þarsem manneskjur gera hluti.

Í gær kom hún Þórunn aftur að austan og þær Ingibjörg dönsuðu við einhverja mússík sem ég hafði ekki heyrt áður. Gólfið í stofunni er ekki mikið en það dugði þeim. Ég flúði inní herbergi, þarsem ég er ekki mikið fyrir sporið, en það var óneitanlega gaman að fylgjast með þessu útundan öðru auganu.

Ég sýð meira drasl í potti og drekk appelsínusafa og borða hollan mat, en ég er samt eitthvað stíflaður. Góð vinkona mín benti mér á að detta í það, ég veit ekki hvort hún meinti það í hálfkæringi. En ég á hvorki viskí né romm, bara bjór. Varla dugar það. Önnur vinkona mín sagði mér að fara snemma að sofa en ég veit ekki hvernig það er gert.

Amma sagði þetta um daginn þarsem við mamma og hún sátum og borðuðum, eftir að hafa flutt draslið mitt í nýju íbúðina: Heimurinn er lítill þegar fólk er að tala saman. Sem er alveg rétt. Og hann stækkar þegar maður talar ekki við annan en sjálfan sig í nógu langan tíma, og minnkar dálítið aftur þegar maður heyrir fólk syngja í gegnum veggi.

Hei já, ólympíuúrslitaleikur í handbolta á sunnudaginn? Áfram Ísland.

-b.

21 ágúst 2008

,,Ráðgátan" ,,"leyst"" ,,",,!",,"

Lesið hér frétt í heild sinni af mbl.is:

Rannsóknarmenn lýstu því yfir í dag að þeir hefðu leyst ráðgátuna frá 11. september 2001: Hvers vegna hrundi World Trade Center bygging númer 7? Hrunið hefur verið uppspretta margra samsæriskenninga síðan það varð.

Byggingin sem var 47 hæðir var hinum megin við Vesey Street á Manhattan. Þann 11. september 2001 barst eldur að byggingunni með braki úr tvíburaturnunum en efasemdamenn hafa haldið því fram að eldurinn og brakið eitt og sér nægi ekki til að útskýra hrun byggingarinnar sem var byggð úr stáli og steypu.

Vísindamenn við National Institute of Standards and Technology segja að þriggja ára rannsókn þeirra leiði í ljós að í fyrsta skipti í sögunni hafi verið sýnt fram á að eldur hafi eyðilagt skýjakljúf.

„Ástæða hrunsins á World Trade Center 7 er ekki lengur ráðgáta,“ segir Dr. Shyam Sunder, aðal rannsóknarmaður teymisins.

Rannsóknarmennirnir komust einnig að því að hrun turnanna í nágrenninu hafi rofið aðal vatnsæð borgarinnar og því hafi úðakerfi á neðstu hæðum byggingarinnar ekki virkað sem skyldi.

Byggingin hefur verið uppspretta margra samsæriskenninga undanfarin sjö ár, ekki síst í ljósi þess að hrunið átti sér ekki stað fyrr en sjö klukkustundum eftir að tvíburaturnarnir hrundu. Það vakti grunsemdir um að einhver hefði vísvitandi sprengt bygginguna í loft upp.

Meðal þeirra sem ekki trúa útskýringum rannsóknarmannanna er Mike Berger úr samtökunum 9/11 Truth.

„Skýring þeirra er einfaldlega ekki fullnægjandi. Það er verið að ljúga að okkur,” segir hann og bendir á að til séu gögn sem gefi til kynna að sprengiefni hafi komið við sögu.

Sunder segir að hópur hans hafi kannað möguleikann á því að sprenging hafi átt sér stað í byggingunni og valdið hruninu. Hins vegar hafi ekki verið neinn hvellur eða annar hávaði sem hefði fylgt slíkri sprengingu. Hópurinn bjó líka til tölvugert líkan af hruninu, byggt að hluta til á myndskeiðum frá CBS News og segir að það sýni súlur í húsinu hrynja sem orsaki síðan hrun byggingarinnar í heild sinni.

Þeir útilokuðu einnig að hrunið hefði orðið vegna elda út af dísilolíu sem geymd var í byggingunni. Var hún geymd þar vegna vararafstöðvar.

Í niðurstöðum skýrslunnar sem er 77 síður segir að náðarhöggið hafi orðið þegar 13. hæðin hrundi og þar með veikt burðarsúlur nægilega til þess að byggingin hrundi algerlega.


WTC bygging nr. 7, sem var fjörutíu og 7 hæðir, hrundi fyrir 7 árum og skýrslan er 77 síður? Og náðarhöggið kom þegar 13. hæðin hrundi? (En sjáið að ef þið leggið saman 1 og 3 og bætið þeirri tölu við 13 þá fáið þið 17. Og ef þið leggið 17ið við hinar sjöurnar fáið þið 52, en 5+2 eru 7!)

Þetta er klárlega eitthvað vúdú. Aldrei að treysta útskýringum.

-b.

20 ágúst 2008

Drasl sem ég sýð í potti

er þetta hér: engiferrót, sítrónur, hvítlaukur, blóðberg. Smá hunang með kannske. Ég átti reyndar engan hvítlauk í þetta skiptið, svo hitt varð að duga. Þrusugott stöff sko, en ég er nú samt eitthvað stíflaður.

Fór og sótti hjólið mitt úr viðgerð. Allt annað líf.

Er enginn á lífi í miðbænum?

Eða annarstaðar?

Ég gefst ítrekað upp á Nihil obstat.

-b.

19 ágúst 2008

JESSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSS LOKSINS INTERNET *KYSS KYSS*

Jei ég er kominn með net heim í Mávahlíð. Og heimasíma líka. En ég vil ekki nota heimasímann, þannig að ekki biðja mig um að hringja í ykkur úr honum. Netið samt, ég nota það. Jei.

Mér fannst ég vera að verða kvefaður í morgun þannig að ég fór útí búð og keypti allskonar c vítamín og drasl til að sjóða í potti svo mér líði betur.

Mér finnst tíminn líða hratt í dag.

Og ég veit ekki hvað tekur við í kvöld.

-b.

18 ágúst 2008

Í netspreng

Ég setti nokkrar myndir upp á flickr, þar á meðal þessa hér:

Hana kalla ég ,,Hallur horfist í augu við skríðandi óreiðuna, en heldur ró sinni og kemst lifandi undan."



(Einsog kunnugir vita þá er skríðandi óreiðan enginn annar en Nyarlathotep, og þónokkuð afrek af Halls hálfu að sleppa útaf Dillon með höfuð og hreðjar. Á hinn bóginn hefur hann væntanlega misst ansi mikið san og hlýtur að teljast vopnaður, sturlaður og stórhættulegur mannfólki og náttúru.)

...

Nú er netið enn ekki komið í Mávahlíðina (eftir því sem ég best veit) og ég sit því á Prikinu. Hérna á ská á móti, fyrir utan Sólon, sá ég hvar mótorhjólalögga sat og spjallaði við félaga sína, einsog hann gerði líka síðast þegar ég var hérna. Sirka klukkutíma eftir að ég settist niður, núna rétt í þessu, stóð hann upp og talaði í síma eða talstöð, setti á sig hjálminn, stökk á hjólið og brunaði niður gangstéttina með sírenu og ljós í gangi.

Mér þætti gaman að vita hvaða ósköp gengu á svo þessi gaur skyldi hætta á að keyra niður hóp af gangandi vegfarendum á Bankastrætinu..

...

Við Davíð og Víðir kíktum á X-Files myndina og hún var hörmuleg. Ég er hinsvegar alltaf á leiðinni á Dark Knight aftur. Núna í kvöld?

Og mig langar að kíkja austur alltíeinu.

Ég er búinn að koma mér fyrir í Mávahlíð, það síðasta var að tengja græjurnar og ég gerði það í gær. Ég á reyndar eftir að fara með gamla magnarann og plötuspilarann niður í geymslu, en ég geri það í einhverri ferðinni. Standlampanum kem ég hvergi fyrir. Og við þurfum að hugsa stofuna eitthvað aðeins betur. Bíðum samt með það þangað til við erum öll komin saman.

Gleraugun mín beygluðust í smávegis vingjarnlegum ryskingum um helgina. Ég fór með þau í Gleraugnasmiðjuna og þau löguðu þau fyrir mig endurgjaldslaust. Kannske var það ekkert til að tala um fyrir þetta ágæta fólk, en mér þótti það samt fallegt af þeim.

Og ég fór með hjólið mitt í viðgerð. ,,Stilla og yfirfara" einsog gaurinn kallaði það. Eftir nokkrar vikur má ég fara að nota það aftur.

...

Ég vissi ekki að fólk fylgdist með Ólympíuleikunum. Er ég firrti gaurinn sem vill ekkert vita?

...

Þrem korterum síðar er mótorhjólalöggan komin aftur á staðinn sinn. YP-556. Varið ykkur.



-b.

15 ágúst 2008

Þriðji frídagurinn, þar sem sögumaður okkar fer í Kringluna

Nú sit ég á kaffihúsi í Kringlunni, og gæti náttúrulega verið að gera ýmislegt annað, en ég kýs að gera þetta akkúrat núna. Drekk grænt te, las moggann áðan, kíki á netið. Maður er hálflamaður án internetsins heima. Hérna er allstaðar fólk með kerrur og í kerrunum eru staflar af pappakössum, það er endalaust verið að bera draslið inn í búðirnar sem selja draslið.

Ég er eitthvað slappur, líklega er það bara eftir gærdaginn. Best væri að koma sér heim og leggjast í nokkrar mínútur.

Það eru einhverjir satans gaurar að vinna í húsinu þarsem ég bý, að setja upp nýjar þakrennur og ég veit ekki hvað. Þeir byrja klukkan átta níu á morgnana.

Nú er ég loksins búinn að hitta alla þá sem búa í húsinu. Þetta er indælis fólk. Kona á fimmtugsaldri á fyrstu hæð og dóttir hennar, sem er í söngnámi. Ungt par í kjallaranum, þau eiga litla stelpu og kettling (sem mér skilst að heiti Kisulóra). Og lögreglumaðurinn Eiríkur á loftinu, en hann er frá Egilsstöðum. Eiríkur sagnfræðinemi, sem ég leigði með á stúdentagörðum, hann var líka frá Egilsstöðum. En þessir tveir menn eru ekki sami maðurinn.

Ég er ánægður með hvað sturtan er góð í nýju íbúðinni. Og að maður geti fengið volgt vatn úr eldhúskrananum, ekki bara heitt og kalt.

Afgreiðslufólkið hérna lætur einsog ég sé fyrir því. Það vill líklega að ég eyði meiri peningum.

Mig hálflangar að kíkja á Selfoss en það er langt komið á föstudag og ég þarf að vera hérna á morgun og ég á enn eftir að raða uppí hillurnar. Í gluggasyllunni eru staflar af bókum sem byrgja mér sýn. Ég blindast!

Krakkar eru fyndnir en þeir eru líka hálfvitar. Sumir fullorðnir eru þannig líka.

Fólkið í Amnesty göllunum er alltaf að reyna að stoppa mig og segja mér eitthvað. Kannske ég ætti að staldra við einhvern daginn og vita hvað það er að tala um. Það eru bara ósjálfráð viðbrögð að stoppa ekki á gangi þegar einhver er að biðja mig um peninga.

Geispi geisp. Voðalega er ég orkulítill. Það er eitt eða tvennt sem ég þarf að gera hérna í viðbót og svo er heim heim, kannske Zeppelin á fóninn á meðan ég legg hillurnar á typpin og raða bókum og diskum á þær. Fyrst í huganum, svo í heiminum. Og set drasl á veggina. Finn einhvern góðan stað fyrir L'Ours.

Hef ég minnst á Fyrirætlunina? Mér býðst íbúð á Suðureyri frá þarnæsta mánudegi og út fimmtudaginn. En málið er: Mig langar að fara þangað til að vera einn, en ég nenni varla að keyra þessa leið einsamall. Hún er löng og köld og löng. En ef ég flýg á Ísafjörð þá þarf ég að taka leigubíl á Suðureyri?

Við hugsum málið, ég og kóngurinn og presturinn.

Hlýtur byr að ráða?

Með Páli Óskari í forsvari? Get ég bankað uppá og spurt hann útí þetta augliti til auglitis?

Eða á maður að salta þetta í einn tvo daga og kíkja á X-Files myndina.

...

Í gær þrifum við Sævar Skaftahlíðina, svona einsog við gátum. Það er ennþá eitthvað í eldhússkápunum og svona, en herbergin okkar eru tandur og allt hitt að minnsta kosti betra en það var þegar við tókum við því. Nei heyrðu ég gleymdi að taka hjólið mitt úr kjallaranum. Bölvað. Freyja er búin að leggja inná mig samt. Og ég held ég hafi klárað skattavesenið í gær.. það var nú eitt.

Hollráð, góð ráð til þeirra sem fara út í skiptinám og fá styrk frá nordplus eða erasmus: Þegar kemur að því að færa styrkinn inn í skattframtalið þá á hann að fara í reitinn sem er merktur ,,aðrar skattfrjálsar tekjur". EKKI í ,,styrkir til náms, vísinda eða rannsókna". Þetta fer undir sama hatt og dreifbýlisstyrkurinn vinsæli.

Og það skrýtna er að e.t.v. kemur þetta rugl í skattinum til með að lækka álagninguna mína, vegna þess að þegar skattlega heimilisfestin var komin á hreint -- þeas. ég hafði fengið að vita hvað ég þyrfti að senda og hvert til að fá það leiðrétt -- þá benti hún Sigurlín blessunin mér á að ég gæti sent inn rekstrarreikning fyrir flugferðum, leigu og námsgögnum, og að það myndi dragast frá reiknuðum skatti af Nordplus-styrknum. Þetta vissi ég ekki þegar ég borgaði skatt af styrknum sem ég fékk haustið 2006. Þá fór ég að spá í þessu frekar og hringdi í Alþjóðaskrifstofu og fékk þar að vita að ég þyrfti ekki að skila inn neinum reikningi; ég hefði bara sett upphæðina í vitlausan dálk. Úbbs og svo framvegis.

En semsagt. Hefði skatturinn ekki ætlað að rukka mig um alltof alltof mikið fé þá hefði ég aöl. ekki kippt mér upp við að borga smávegis óþarfa skatt af styrknum góða.

Ekki það, ég eyði þessu öllu í bús og kvensur. En það verður MITT bús og MÍNAR kvensur. Erum við í sovjetríkjunum eða hvað?

-B.

11 ágúst 2008

Horfið á myndirnar mínar!

Ég er ekki enn búinn að benda á myndir af versló??! Hérna eru þrjár, sjáið eina eða tvær í viðbót með því að smella á mynd.







...

Ég flutti slatta af drasli í dag. Þessi sunnudagur var helvíti fínn. Og svo tveir dagar í viðbót fram að sumarfríi? Í nýju íbúðinni minni? Geggjað.

-b.

10 ágúst 2008

Klámið hans Kafka

Les brot:

Even today, the pornography would be "on the top shelf", Dr Hawes said, noting that his American publisher did not want him to publish it at first. "These are not naughty postcards from the beach. They are undoubtedly porn, pure and simple. Some of it is quite dark, with animals committing fellatio and girl-on-girl action... It's quite unpleasant."

"Academics have pretended it did not exist," Dr Hawes said. “The Kafka industry doesn’t want to know such things about its idol."

He added: "Perhaps Kafka's biographers simply don't like the idea that their literary idol was helped out in this... way in the vital early stages of his career... Of the world's authors, only Shakespeare generates more PhDs, more biographies, more coffee-table books... Everything Kafka wrote, every postcard he ever sent, every page of his diary... is regarded as a potential Ark of the Covenant... Yet no-one has ever shown his readers Kafka's porn."

Ég las þetta og hugsaði að ég væri nú alveg til í að lesa klámið hans Kafka. En svo er þetta bara klám sem hann keypti! Hann skrifaði ekkert af þessu sjálfur. Pah.

Mig rámar í brandara sem Bill Hicks sagði um það ef hann myndi nú deyja í bílslysi eða þvíumlíkt, og foreldrar hans kæmu eftir jarðarförina til að hreinsa útúr íbúðinni, og innanum barnamyndirnar og skólabækurnar finndu þau stóra svarta ruslapoka af óhugnalegu klámi. En það hefði verið eftir sviplegan dauða, hann hefði ekki haft tækifæri til að hreinsa til hjá sér. Nú dó Kafka eftir langvarandi veikindi.. Var þetta meiningin?

Og í Rant minnir mig, er talað um dauða/kláms-samninga á milli fólks. Við tveir (eða tvö eða tvær) gerum samning okkar á milli um að ef annað okkar fellur frá þá fari hitt í gegnum íbúðina og rusli út öllu kláminu og ,,leikföngunum" og öðru sem hjartveikar syrgjandi mæður ættu ekki að þurfa að raða í kassa. Góð hugmynd. En Kafka las ekki Palahniuk. Átti hann kannske enga vini heldur?

En ú ú, maðurinn átti klám. Jei. Hvar eru Lókbreytingarnar þarsem Gregor Salza vaknar einn morguninn og er orðinn að risastóru typpi sem skríður á veggjum og hrellir fjölskyldu sína? Eða Kaxxxtalinn, þarsem Jizza Q. er handtekin einn góðan veðurdag og látin ganga á milli fangavarða og dómara (sumir þeirra eru griparmaskrímsli), og hún skilur ekki hversvegna henni hefur verið fleygt í þessa kynlífsdýflissu og því síður hversvegna henni finnst það svona unaðslegt!!

?

-b.

09 ágúst 2008

Til að bræða hjarta hennar í lífi þínu

Sungið við Beegees lagið:

Meira en kvensa
þú ert meira en kvensa fyrir mér
meira en kvensa
þú ert annað og meira en kvensa í mínum augum

Ja þú ert náttúrulega kvensa líka,
við vitum bæði að þú ert kvenkyns
en það sem ég á við er að af þessum hundrað prósentum þínum þá ertu sirka 65% kvensa, og það er nokkuð gott hlutfall.


-b.

hall??!!ur

íbúð?!??!

08 ágúst 2008

This is the way the world ends

Það sem ég er búinn að pakka: bækurnar, dvd-diskarnir og geisladiskarnir. Og góða skapið. Rooosalega er ég þunglyndur.

Toj-hoj.

En ég get alltaf opnað kassann smá og bústað.

Og það leika allir í The Hunt for the Red October. Meira að segja Timothy Carhart. Og Peter Firth! Þetta er The Thin Red Line níunda áratugarins. Og Connery fær að tala ensku því annars getur hann ekki schándað schwalur.

Ég tók ekki eftir því þegar ég sá hana fyrst: Myndin skiptir úr rússnesku í ensku á orðinu ,,armageddon", væntanlega afþví það er eins í báðum tungumálum? Komið úr hebresku. Og auðvitað snýst þetta alltsaman um heimsendi eða möguleikann á heimsendi eða óttann við heimsendi.

Fimm dagar í sumarfrí!

(Ég skrifaði fyrst ,,Fimm dagar í heimsendi". Úbbs.)

-b.

07 ágúst 2008

Sumarfrí

Ég er búinn að panta mér frí frá og með 13. ágúst og út mánuðinn. Jafnvel aðeins inní hann. Þá get ég flutt, þrifið gömlu íbúðina og komið mér fyrir í þessari nýju. Og kannske gert eitthvað annað líka.. Lesið?

-b.

Á meðan ég man: titill

Næsta ljóðabók mín mun heita Vinir mínir eru hálfvitar.

Titillinn kom uppúr samræðum á pallinum niðrí bústað á sunnudeginum. Og mér finnst hann bestur.

Hendum hérna inn einu geðveiku ljóði.

...

Alvarleg mál í myndlíkingum líðandi stundar

Hei ríkisskattstjóri!
Ekki teisa mig bróðir, með rukkunum
og draga af laununum mínum einsog löggan dregur Saving Iceland niður af Heiðinni
því þá verð ég einsog skotinn ísbjörn í veskinu
og sífellt líkari Kára Stefáns eða Hannesi Hólmsteini eða öryrkjunum (því þeir eru alltaf í fréttunum).

...

Milljónir!

-b.

Blikkandi hjörtu eru ekkert gei

Nýja uppáhaldsblókið mitt. Passið að hafa kveikt á hátölurunum eða heyrnartólum.

Crazy ball!

-b.

06 ágúst 2008

Hei Björn hvað er að gerast?

Á ég að vera einn af þessum gaurum sem segir bless við bloggið sitt af því að hann hefur svo mikið að gera og netheimar eru ekki lengur líkir sjálfum sér, veröldin er grimm og vinnan hræðileg og veðrið skítt og konan farin og börnin þekkja mig ekki og hundurinn dó og bíllinn bilaði og skáldsögunni var hafnað og þetta gæti verið krabbamein og nýja Fantað er ekki eins á bragðið og gamla Fantað?

Til hvers að vera sá gaur. Ekkert af þessu er satt, nema þetta um Fantað, en ég drekk ekki Fanta. Ég hef bara ekki fundið neina þörf til að setja orð á blað. Nema núna í þetta skipti. Þetta er þversögn, þær eru svo nauðsynlegar. Sko:

Mér dettur ekkert í hug (nema það að mér dettur ekkert í hug -- og það að hugdettuleysið sé hugdetta).

Á þessu getur maður þrifist.

Svo er tvennt ólíkt að hafa ekkert að segja og að hafa ekkert um að tala.

Hvað um það. Hún þarna stelpa í bandi. Leiló. Hún var hérna rétt í þessu, gekk um og skoðaði. Hún barst í tal um helgina, við vorum að reyna að muna í hvaða bandi hún er, þessu sem við sáum á Airwaves þar sem Bassi spilar á trommurnar. Af því að við höfðum farið á þá á Organ og látið einsog hálfvitar og enginn í kringum okkur var að fíla það þegar við tókum að hrinda hvor öðrum í pínulitlum moshpit og Davíð fór oná herðarnar á Víði en þurfti að beygja sig til að rekast ekki uppí loftið. Og bandinu leist ekki á blikuna, eða svo sýndist Davíð; ég man óskup lítið eftir fólkinu í kringum okkur.

En svo hringdi Hlynur í Helgu og hún sagði að Leiló væri í Benny Krespós, en það var ekki bandið sem við sáum, heldur Nilfisk. Svoleiðis að það var allt í lagi. Hvernig getur maður ekki látið einsog fífl á Nilfisk tónleikum á Organ?

Ég gæti kannske reynt að segja eitthvað frá bústaðarferðinni, en það gerðist óskup fátt. Við spiluðum Djenga, Kubb, Petank, Actionary, Kana, Bíóbrot, Catan, Skrafl og Pictionary. Ég spilaði samt ekki þessi tvö síðastnefndu því ég var annaðhvort nennulaus eða að leggja mig. Ég uppskar tóma vanvirðingu þegar ég vann í Kubb, og svo furðar þetta lið sig á því að maður nenni ekki að spila við það.

Annars fann Hlynur (held ég alveg örugglega) fínasta Kubb-völl aðeins ofar í hlíðinni, sem var mun betri en þessi litli flati blettur bakvið bústaðinn. Það var stuð. Ég sendi Má mynd þaðan þangað sem hann var fastur í tilgangslausu barnaafmæli.

Við grilluðum helling. Pylsur, lambarifjur og svínakótilettur fyrir mig. Á laugardagskvöldi var brenna sem við nenntum ekki að kíkja á. Á sunnudaginn skutlaði ég Víði í rútuna á Borgarnesi. Mikið óskaplega var ég þreyttur þegar ég kom heim á mánudaginn.

...

Í gær flutti ég nokkra kassa yfir í nýju íbúðina, stelpurnar hjálpuðu aðeins til, en þær eru búnar að raða inní stofuna. Ég er svona að sirka út hvernig ég raða til í mínu herbergi. Ég virðist hafa fengið skrifborðið sem hjónin skildu eftir inní stofu, og er mjög sáttur við það.. Það er gott að hafa skrifborð en ég henti mínu þegar ég flutti til Köben. Stofustóllinn minn fer inní herbergi ef hann kemst, ég er ekki alveg búinn að finna útúr því hvernig ég raða bókahillunum.

Hei hann Orri kom og heilsaði uppá mig. Hann var að leita að nýja ritinu. Langt síðan ég hef séð hann..

Langt síðan ég hef séð nokkra úr bókmenntafræðinni. Nema kannske Atla Bollason, í sjónvarpinu. Ég fór niðrí skóla í dag að sækja vottorð um skólavist, leit inná Nemendaskrá og herbergið var fullt af ferðatöskum. Allskonar litar ferðatöskur á hjólum, sem stóðu uppréttar. Þetta var dálítið einsog installasjón sem maður nennir samt ekki að skoða alltof vel. Og ég mundi undireins að Nemskrá var færð yfir í Háskólatorg, þar fékk ég vottorðið mitt, nó próblem.

Fyrir utan var verið að skjóta eitthvað á filmu. Nýjan íslenskan spennuþátt?

...

Já og í gær, skondið smælki á forsíðu Fréttablaðsins:
Flestar þær hátíðir sem haldnar voru um verslunarmannahelgina gengu vel fyrir sig. Á Akureyri leituðu tvær konur á neyðarmóttöku vegna nauðgana, en þær hafa ekki verið kærðar til lögreglu enn sem komið er.

Já, ég hló bara víst.

-b.