10 janúar 2008

we're so pretty

Þegar Víðir stígur útúr herberginu sínu á sunnudagseftirmiðdegi (eða komið inní aðfaranótt mánudags) þá skelfur hann gjarnan einsog hrísla í roki. Við höfum að sjálfsögðu gert hefð úr þessu einsog öðru, við spyrjum ,,ertu með skjálftann?" eða ,,varstu á Celtic?"

((Útúrdúr: það hefur komið uppúr kafinu að Víðir lendir inná Celtic á aðfaranótt sunnudags sama hvað hann er að gera og sama hvar hann er staddur. Nú er hann orðinn smeykur við að kaupa sér far til útlanda af ótta við að hann birtist einfaldlega á Celtic Cross klukkan hálfsex að staðartíma, og skilji farangur og ferðafélaga eftir í reiðileysi.))

Það er ekkert eðlilegra en það að gera grín að taugadauða og lifrarbilun. Og nú man ég ekki hver tilgangurinn með þessum skrifum var. Ætlaði ég ekki að leiða að einhverju? Þynnka og skjálfti, í þynnku er gott að sofa.. tja, það er nú ekki það sem ég ætlaði að rausa um, en kannske er það hægt samt.

Ég hef sofið vel og mikið síðan það sljákkaði í pestinni. Síðan á nýja árinu gat ég ósköp lítið sofið, ég var alltaf hóstandi og eitthvað vesen.. ef ég náði að festa svefn dreymdi mig tóma vitleysu svo ég var dauðþreyttur þegar ég vaknaði. En í gær svaf ég frá níu til að verða átta í morgun, og daginn þar áður var ég vakandi í níu, tíu tíma. Þetta er nauðsynlegt svo maður komist aftur á lappirnar. Sei sei.

Og ég er aftur kominn í vinnuna en það eru engar myndasögur hérna fyrir mig. Ég byrjaði á Ósýnilegum glæpum, sem er eftir einhvern gaur. Spánverja? Katalóna? Hermann Stefánsson þýddi a.m.k. Hún er fljótlesin en ekkert sérstaklega spennó, enn sem komið er. Ég er að vaða í gegnum Dexter in the Dark, klára hana kannske á leiðinni heim á eftir. Og ég er aðeins kominn inní Dermaphoria. En mig langar í myndasögur! Fjandinn.

Ah já. Nú man ég. Tölvan mín er í viðgerð. Ég er farinn að finna til fráhvarfseinkenna. Hvað geri ég þegar tölvan mín er í viðgerð? Sef mikið, jú. Fer til tannlæknis, ég er að fara austur til þess á eftir. Og hvað? Ég get ímyndað mér að ég vakni á sunnudagsmorgun, skjálfandi af tölvuleysi. Víðir kemur inní stofu skjálfandi og ég skelf með honum, við skjálfum af sitthvorum kvillanum en þó í hálfum takti.

Þetta er yrkisefni, blautur og ilmandi akur fyrir ljóðskáld hvarvetna.

Skjálf djöfuls skjálfti
tölvuleysi og þynnka
brr skjálf skjálf brr sjálf

Sko ég setti ekki k í síðasta skjálfið, svo núna er ljóðið um sjálfsmynd og hvað við þurfum að hafa inní okkur og í kringum okkur til að viðhalda ídentíteti. (Er þetta ekki miklu þægilegra, að hafa svona merkingarlykil strax á eftir ljóðunum? Monní monní.)

-b.

Engin ummæli: