11 janúar 2008

Tann-Björn

Ef Nýherji væri rokkband þá myndi ég kannske ekki vera grúppía, ekki alveg, en ég myndi að minnsta kosti kaupa alla diskana þeirra.

Eða ég myndi tékka á þeim öllum þiðvitið, því ég er seinn til kaupa. Ég myndi að minnsta kosti kaupa nýju breiðskífuna þeirra, þarsem Bubbi syngur eitt lag og Leiló tekur aðeins í gítarinn. Síðan myndi ég senda þeim ímeil og spyrja hvernig þeir hafi tíma til að semja rokkmússík þegar tölvur hrannast upp í viðgerðarhillum. Og þeir myndu senda um hæl og svara að þetta sé mín myndlíking og ég ætti að halda mig við hana og vera ekki að bulla eitthvað útí bláinn.

Og svo myndi ég adda þeim á mæspeisið mitt.

Djöfuls draumórar eru í gangi. Það er örugglega föstudagur.

En þarsem ég keyrði framhjá litlu kaffistofunni í gær, á leiðinni til tannlæknisins, hringdi stimamjúk stúlka í gemsann minn og sagði að tölvan mín væri tilbúin úr viðgerðinni. ,,Hva, var þetta ekkert mál?" spurði ég. ,,Þeir skiptu um skjá" sagði hún. Og hún bætti einhverju við um ,,kælikrem á örgjörfann". Ég taldi best að fara ekki nánar útí það. Sagðist sækja hana á morgun.

Og ég renndi til þeirra í morgun, daman í afgreiðslunni tók miðann minn, rétti mér tölvuna og bað mig vel að lifa. Tölvan gengur einsog traktor. Og ég borgaði ekki krónu því hún er enn í ábyrgð. Helvíti er ég sáttur við þetta.

...

En ég fór semsagt til tannlæknis í gær. Hann skipti um fyllingu í efri góm í nóvember, og á aðfangadag fannst mér einsog það væri eitthvað hefði farið úrskeiðis, ég fékk sting í tönnina þegar ég beit saman. Það var frekar óþægilegt, að minnka bitsvæðið um 50 prósent, sirka, í þessari matar- og sælgætisorgíu sem jólin voru. En ég harkaði það af mér, að sjálfsögðu. Ég pantaði samt tíma hjá honum um leið og ég gat, og þetta var fyrsti lausi tíminn, núna í gær.

Nemahvað að núna var verkurinn að mestu farinn. Hann bankaði í tennurnar og fann ekkert, tók nokkrar röntgenmyndir og sagði svo ,,þú ert með nóg af tönnum!" Hann hafði þá fundið eitthvað merkilegt. Málið er víst að ég hef þessa tvo jaxla sem allir fá og njóta. Svo er ég með endajaxl, sem er óðum að hverfa úr manna gómum og þarf oft að rífa út sökum plássleysis (en hann vex einmitt dulítið skakkur hjá mér).

Og síðan hef ég enda-endajaxl, sem er að reyna að ryðja þeim fyrri burt. Semsagt. Nóg af tönnum.

Hann vildi meina að þetta væri frekar sjaldgæft, maður sæi þetta frekar hjá öpum og svoleiðis. Ha ha. Ég er frummaðurinn Björn. En svo gaman þótti honum að taka myndir af þessu að hann rukkaði mig ekki krónu fyrir tímann. Þeir fá víst sinn skammt fyrr en síðar, þegar það þarf að rífa báða þessa jaxla út. - En málið með þennan verk er líklega það að það er of mikið af tönnum í litlu gómplássi, og þeir liggja allir á sömu tauginni.

Ég er að vinna framá kvöld og svo er ekkert á prjónunum. Rólegheit? Kannske ég endurnýi kynnin við tölvuna mína. Við höfum verið aðskilin svo lengi, ég man varla lengur hvernig það er að smella læsingunni aftur, renna fingrunum yfir lyklana, finna rafljósið á andlitinu.. Samband okkar er framundan heilbrigt og guði þóknanlegt.

Eða hvað, er eitthvað annað á seyði? Bjór og ólsen?

-b.

Engin ummæli: