29 júní 2007

White Rover

Ég keyrði á Selfoss og tilbaka á mánudaginn, miðvikudaginn og aftur í dag. Ég vona að ég þurfi ekki að gera það aftur í bráð.

Augnablik kaldhæðni í gær: Við sátum á Hverfisbarnum og hlustuðum á helvíti færan trúbador. Maður gat komið upp til hans og sungið lag og fengið slatta af bjór á barnum fyrir. Einn gaukur gekk upp og vinir hans komu sér fyrir á fremsta borði. Og svo fengum við að fylgjast með þessum útúrspíttaða gaur syngja ,,The Drugs Don't Work" með Verve.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa því. Nema þetta: Einn af vinum hans var með vídjómyndatökusíma, og söngfuglinn tók alla sína bestu Robbie Williams-takta fyrir linsuna: Gripið á hljóðnemanum, axlahreyfingarnar, fótakippirnir. Hversu mikið var dópinu að kenna og hversu miklu stjórnaði egóið eitt og sér?

En allavega. Ég er að fara að vinna. Í viku. Tsjúss.

-b.

27 júní 2007

Maður er nefndur Björn og allskonar

Jæja Björn, þú ert í vaktafríi akkúrat núna. Hvernig hefurðu gert í dag?

Bara. Ég raðaði íbúðinni uppá nýtt, tengdi græjurnar mínar, tók stofuborðið úr pakkningunni og þreif það, ætlaði svo að fara að setja það saman þegar ég tók eftir því að lappirnar vantaði. Ég hafði þá gleymt þeim á Selfossi.

Helvítis aulaskapur var það?

Já ég veit.

Og hvað svo?

Ég bara fokking keyrði á Selfoss og sótti þær. Og fjarstýringuna fyrir DVD spilarann, hafnaboltakylfuna og tvær bækur.

Hvaða bækur?

Bara bækur.

Hvernig var veðrið á heiðinni?

Ég man það ekki, ég var að hlusta á hljóðbók. White Noise eftir Don DeLillo. Setti á átópælot.

...

Vá þetta er ekkert gaman. Mér fannst ég þurfa að setja upp viðtal því ég er að horfa á viðtal í sjónvarpinu. Maður ætti ekki að líkja eftir því sem skjábúarnir leggja fyrir mann. En þetta er góð hljóðbók. Og stofuborðið var drulluskítugt en núna er það komið upp. Þetta er góð tilfinning, að vera kominn uppúr kössunum, búinn að koma drasli þangað sem drasl á að vera.

Græjurnar sem ég lánaði Danna virka fínt. Græjurnar mínar gömlu virka ekki eins vel, mig grunar að það hafi eitthvað komið fyrir magnarann síðan ég skildi við hann á Heiðarveginum. Spáum í þessu samt: Magnarinn sem ég keypti af Völla er Marantz 1040 týpa, sá sem amma gaf mér um árið (og nú kviknar ekki á) er Marantz 2226 útvarpsmagnari. Vinsælir gaurar.

Já og ég hitti Völla hérna um daginn. Bara fyrir utan blokkina. Akkúrat þegar ég var að flytja gamla borðið hans að austan.. það var dálítið fyndið. Hann sagði mér að Gummi Finnboga hefði gift sig um helgina og að þau ættu von á barni í vetur. Alveg einsog Hafsteinn og Vilborg. Og Ívar og Alía (eða hvernig sem nafnið hennar er nú stafað). Hvað getur maður sagt. Þetta er allt miklu betra fólk en ég.

En Völli semsagt spurði mig hvort ég ætlaði ekki að bjóða í innflutningspartí. Spurningin kom mér á óvart, mér hafði ekki einusinni dottið það í hug. Mér fannst ég bara vera að snúa aftur einhvernvegin. En þó hef ég fleygt upp innflutningspartíum í hvert skipti sem ég hef flutt hérna á milli hurða á görðunum hingað til. Það hefur reyndar aldrei verið að sumri.. næsta helgarfrí á ég 6., 7. og 8. júlí og þá langar mig að komast útúr borginni. Innflutningspartíið verður að bíða betri tíma.

Er nokkur að lesa netið á sumrin annars?

-b.

25 júní 2007

Daggangsetning

Ókei, ég er vaknaður. Við skulum gera hluti í dag.

(Og ég átti bara eftir fjögur orð í sunnudagskrossgátunni þessa vikuna. Gó ég.)

-b.

24 júní 2007

Vakandi

Er það sem ég er. Var á kvöldvakt í gær, kominn heim um tólfleytið, vaknaði klukkan þrjú til að keyra ömmu niðrá flugvöll. Og svo er ég að fara að vinna klukkan hálfníu. Hvernig ætli ég verði eftir vaktina..

Þegar maður er kominn inní flugstöð þarf maður að ganga fyrir horn til að komast að IcelandExpress borðunum. Þar beið okkar röð sem var.. stór. Og löng. Og breið. ,,Guð á himnum" sagði sú gamla. Það var einsog einhver væri að gefa gull og heitar lummur á sumardegi í Sovjetríkjunum.

Og ég er að reyna að drepa tímann en mér dettur ekkert í hug. Ode to Kirihito er spes. Það er ekki feilnótu að finna í Daredevil Bendiss. Merkilegt alveg hreint þegar það eru til góðar sögur um ofurhetjur einsog Djöfsa og þær eru ekki notaðar til að búa til góðar bíómyndir? Byrjum ekki á því aftur.

Davíð er farinn að selja ís. Hann keyrir um landið og hringir bjöllunni. Mér finnst það skemmtileg tilhugsun. Gunnar tvíburi kemur með mjólkina til mín í búðina og Már keyrir framhjá eftir að hafa skutlað samlokum í sjoppuna hinumegin við götuna. Það eru allir að keyra hluti.

Ég finn hvergi ostaskerann minn.

-b.

21 júní 2007

Mister Indridason

Dúbíus heiður: Arnaldur Indriðason er í fimmta og áttunda sæti á lista yfir topp hundrað vinsælustu hljóðbækurnar á piratebay: Mannen i sjön er í fimmta og Kvinna i grönt er í því áttunda.

Mér sýnist þetta reyndar aðallega skýrast af því að bækurnar eru nýtilkomnar á síðuna. Fannst samt fyndið að sjá þetta.

Ég finn hvergi ostaskerann minn. Skil það bara ekki. Gerði dauðaleit að honum í gær, fór í gegnum alla kassana og fann ekkert. Þetta var næstum því einsog í dæmisögunni um manninn og synina hans þrjá:

Gamall maður liggur fyrir dauðanum. Hann segir sonum sínum þremur að hann hafi grafið fjársjóðinn sinn á akrinum, en að hann muni ekki hvar. Og svo deyr hann. Synirnir keppast við að finna gullið, grafa akurinn í sundur og plægja hann þannig betur en nokkrusinni. Vínviðurinn sprettur sem aldrei fyrr og bræðurnir verða moldríkir.

Eða sko. Við leitina að ostaskeranum fór ég í gegnum kassana og raðaði uppúr þeim. Ég stend ekki uppi sem víngerðarmógúll, en diskarnir og vínglösin eru a.m.k. komin uppí skáp.

Og að þessari ólastaðri þá sýnist mér vera kominn tími á aðra bókahillu. Tvær bókahillur? Hún verður tómleg til að byrja með en það má alltaf laga það.

Og! Þeir eru komnir með sjálfsafgreiðslukerfi hérna niðrá Borgó. Mér fannst þetta svo sniðugt system þegar ég var úti, maður stingur kortinu í rauf og lánar sér bækurnar sjálfur.. engin ástæða til þess að hafa fólk í vinnu við svona færibandalán, það er ekki nema mann vanti eitthvað sérstakt að bókverðirnir fá að gera eitthvað af viti hvorteðer. Og nú hafa þeir (eða þau) væntanlega tíma til þess að koma nýju bókunum hraðar uppí hillur.

Ég fann t.a.m. tvær nýjar Daredevil Bendis-Maleev bækur núna um daginn. Og nýju Y: The Last Man. Og nýja Tezuka-nn. Algert æði. Ég hélt að Bendis væri hættur með DD.

Alone in the superunknown.

-b.

18 júní 2007

Hlutir sem gerast

Þessi nýja Fantastic 4 mynd er hræðileg. Það er ekkert gott við hana.

Landsliðið hélt sér á löppunum. Þrususkemmtilegur leikur.

Studio 60: Fyrstu tveir þættirnir eftir hléið voru slæmir. Næsti ekki slæmur og þessi síðasti helvíti fínn. Merkilegt.

Endirinn á Sopranos var brilljant. Liðið sem fílaði hann ekki hefur ekki verið að horfa á sama þátt og ég þessi síðustu ár.

Brúðkaupsveislan þeirra Hafsteins og Vilborgar var stuð.

Og á morgun.. vinna?

-b.

12 júní 2007

Ég er fluttur

og kominn inn með flest mitt drasl. Byrja að vinna á morgun. Ég hef ekkert annað að segja í bili, fyrir utan það að þetta gekk allt einsog í lygasögu. Og hérna er raus úr flugvélinni.

-----

Ég sit í 17C, eftir að hafa farið í gegnum hlið A23, flughöfn númer 3. Og núna segi ég flugvallarsöguna sem enginn vill heyra nema ég sjálfur. (En það er nóg, því ég hef tæpa þrjá klukkutíma til að slátra, og bara þrjá bjóra í viðbót. Eitthvað verður að halda höndunum í gangi.)

Þetta var semsagt leiðindadagur. Ég vaknaði klukkan að verða níu, sturta og tannburst, pakkaði sænginni og koddanum, færði lampann og töskurnar yfir í herbergið hans Tommys og rúmið bakvið húsgafl. Settist við tölvuna og beið. Værmemesteren, hún Pia Jessen, mætti á slaginu. Ertu tilbúinn, sagði hún (á dönsku). Já, sagði ég (líka á dönsku). Hún leit í kringum sig, sagði að allt væri ókei, bað mig um að kvitta á blað þarsem tekið var fram að allt væri ókei og brosti. Þarftu að taka eitthvað með þér, spurði hún (á dönsku). Uuu neeii, en ég er ekki að fara fyrren í kvöld og Tommy leyfði mér að nota herbergið sitt þangað til þá, sagði ég næstum því (á vonlausri dönsku). Eitt ókei frá henni og svo er hún farin. Væk.

Ég spilaði smá Baldur's Gate. Fór að leita að tei handa mömmu en fann ekki. Hún verður að láta sér þessa sex pakka nægja í bili. Fór heim og gekk um gólf. Hvernig á ég að bera þessar þrjár töskur niður á lestarstöð, hugsaði ég. Ég hugsaði það nokkuð oft í framhaldi, stundum upphátt. Ég var kominn með plan. En það þurfti ekki því Ýmir og Hlynur og Helga komu og hjálpuðu mér að bera draslið. Það var ómetanlegt. Ég náði ekki að kveðja þau nógu vel því lestin kom strax og fór strax en ég sé þau von bráðar.. Hann Ýmir (sem er að fara til Íslands næstu helgi, í giftinguna) sagðist skyldi taka poka af fötum fyrir mig, því ég var að stressa mig á því að vera með of mikinn farangur. En bökkum aðeins og lítum yfir hlutina sem ég hef verið að stressa mig yfir undanfarið:

  • Klára ég þessar helvítis ritgerðir?
  • Klára ég þessa helvítis ritgerð? (þegar sú fyrri var búin)
  • Er fyrri einkunnin mín ennþá í kerfinu hjá þeim? (ég sé hana ekki á netinu, en hún á nú að vera þarna)
  • Get ég skilað íbúðinni af mér á skikkanlegum tíma?
  • Fæ ég íbúð í Reykjavík?
  • Fæ ég vinnu í sumar?
  • Er heimurinn að farast og á ég eftir að eiga pening til að sjá hann springa í loft upp?
  • Hættir mig nokkurntíman að dreyma sólbrúna stráka í strápilsum?
  • Hætti ég nokkurntíman að stuðla vitleysuna sem ég skrifa?
  • Verður þetta nógu vel þrifið hjá mér?
  • Verður þetta kvef endalaust?
  • Er ég nú loksins búinn að rústa bakinu á mér endanlega?
  • Get ég borðað bæði þessi keböb?

..En þá erum við reyndar farin að tala um smávægilegar njúrósjónir.

Égmeina, auðvitað klára ég bæði keböbin. Og auðvitað fallbeygi ég þau að íslenskum hætti. Einsog Bilku.

Strákurinn við hliðina á mér er líka með IBM Thinkpad. T60. Massavél. En pabbi hans á hana líka. Gaurinn fyrir aftan mig í öryggistékkinu var líka með Thinkpad, en ég sá ekki hvaða týpu. Ég var of upptekinn við að láta rannsaka farangurinn minn. En bíðum við, þá er ég kominn aftur að flugvellinum. Látum sjá.

Eftir að ég kvaddi þessa hjálpsömu og yndislegu vini míná á Örestaðs-lestarstöðinni lokuðust dyrnar og við runnum af stað. Það voru lestarverðir útum allt, en enginn tékkaði á miðum. Sem var heppilegt því í öllum hamaganginum við að komast af stað þá gleymdi ég að mánaðarpassinn minn dugar ekki í zón 4. Þar var 600króna sekt sem ég slapp við. Gott karma.

Ég fékk kerru um leið og ég steig útum dyrnar á lestinni. Meira gott karma. Það var ekki venjulegur stigi upp í flugstöð, einsog hefur verið þegar ég hef farið þarna um áður, heldur rúllandi gangvegur. Meira gott karma.

Það var búið að opna 7/11 sjoppu í ganginum á leiðinni að flugstöð nr. 3, og þar gat ég keypt mér einn stóran Tuborg. Góða karmað hleðst upp hérna..

Í tékkinninu fékk ég að vita að ég væri með yfirvigt. 20 kíló eru hámarkið, sagði hún. Þú ert með 28 kíló. Ég var hinn aumlegasti. Ég er að flytja aftur heim til Íslands eftir að hafa búið hér lengi, og ég get ekkert skilið eftir, þetta er allt sem ég á. Og ég kveinkaði mér. Og augu mín sögðu Ekki láta mig borga pening fyrir að flytja aftur til föðurlands míns, kæra tékkinn dama. Hún sá aumur á mér. Þú þarft að borga átta kíló í yfirvigt. Kílóið er á 60 krónur danskar. En ókei, borgaðu 5 kíló og málið er dautt. Ókei, sagði ég. En bíðum við. Ég er ekki með neinn pening, sagði ég (aumlega, aftur). Tekurðu kort? Hún ráðfærði sig við sessunautinn. Hugsaði smá. Farðu bara, sagði hún svo.

Dýrð.

Ég lét ekki segja mér það tvisvar. Ég fór. Góða karma.

Og það er ekki úr vegi að minnast á að ef Ýmir hefði ekki fallist á að taka smávegis af drasli fyrir mig þá hefði ég verið í rúmum tíu kílóum í yfirvigt.. sem hefði kannske verið erfiðara að láta eiga sig, ég veit ekki. Takk Ýmir og takk Hlynur og takk Helga.

Í öryggiseftirlitinu var ég stoppaður. Ef það lítur út fyrir að maður sé með heftara í töskunni sinni þá þarf maður víst að taka hann fram og sanna þarmeð að þar sé heftari á ferðinni en ekki galdrabein til að drepa flugmenn. Og ég gerði það, því ég er góður þegn, gegnblautur af góðu karma. En þegar ég var að loka töskunni þá datt Powers heftið mitt niður í gegnum rifu á milli eininga í borðinu þeirra. Þeir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera, blessaðir mennirnir. Glæný tól sem þeir voru að vinna með og aldrei þurft að standa í svona löguðu áður. Þú ert sá fyrsti, sagði minn maður aftur og aftur. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur, sagði hann. Ég var rólegur, enda kominn inná flugstöð með allt mitt hafurtask og (aftur) gommu af góðu karma.

Minn maður kallaði á yfirmanninn. Hann kom og ýtti á takka, og annar helmingurinn af borðinu færðist upp. En hann náði ekki blaðinu. Og þeir tosuðu og ýttu og rembdust, og ég sat hjá og sendi sms. Íslenskt par spurði hvað væri í gangi. Ég sagði þeim. Þú verður að sækja skrúfjárn, sagði karlinn. Hah, hló ég. Svo kom yfirmaðurinn með skrúfjárn og náði blaðinu. Jei.

Og þetta var ekki skemmtileg saga, en hún gerðist nú samt. Flugvallaævintýri!

Svo keypti ég kippu af Carlsberg og settist við hlið A23. Mér leið vel. Mér líður ennþá vel. Það var gaman í Kaupmannahöfn, en ég átti aldrei heima þar. Ég gaf mig aldrei í það þannig, held ég. Níu mánuðir? Það er ein meðganga. Maður byggir sér ekki hús í móðurkviði, hengir upp myndir og raðar sófunum. Maður hefur gaman af því að lepja rjómann úr lífinu og bíður þess að vera settur af stað. Þrír tveir einn Farðu heim.

En þetta var fjör, mikil ósköp. Fullt af góðu fólki. Suma hitti ég aftur, suma ekki. Var einstaklega heppinn með meðleigjendur. Gott karma. Hver ætli taki svo við íbúðinni minni?

Og hva, er ég þá búinn að segja flugvallarsöguna? Það er bara rétt rúmur klukkutími búinn af fluginu. Strákurinn við hliðina á mér horfir á einhverja Jack Black mynd. Ég þori varla að kveikja á vídjóinu af ótta við að brenna batteríið. 73% akkúrat núna. En ég ætti að geta lesið nokkur hefti af Action Philosophers, kannske núllta hefti af Black Summer.. Ég er fól sem hleður niður myndasögum afþví að ég get það. En ég kaupi kiljurnar ef ég fíla sögurnar. Alveg satt. Næst á lista er Casanova, sem ég hefði aldrei litið í ef ég hefði ekki getað sótt hana á netinu.

En það er tuggin tugga.

Heyrðu við skulum hvíla okkur aðeins. Ég verð vonandi kominn heim á Selfoss um tvöleytið, ef ekki fyrr. Pás.

...

Vá, þetta er besta flugferð nokkrusinni. Rólegur súpi af bjór og Action Philosophers. Hér er lína, um Anaximenes:
So was inaugurated one of the most common philosophical traditions: "Every philosopher who came before me was an idiot!"

-----

-b.

11 júní 2007

Æðisleg blöð

Hvaða blöð? Nú, Action Philosophers maður. Sko.



Málið.

-b.

Plag-göt

Í metróstöðinni á Nörreport hangir flennistórt auglýsingaplaggat fyrir Sony myndavélar. Það er gaur sem stendur útá götu en hann er ekki með haus heldur ganga fullt af línum uppúr hálsmálinu, og hver lína endar í ljósmynd. Slagorðið er á ensku: ,,You are what you shoot."

Ég læt það eiga sig að spyrja hvernig textinn myndi líta út á dönsku, þarsem ég er ekki nógu fær í henni, en á íslensku? ,,Þú ert það sem þú.. skýtur"?

Sleppur kannske á prenti en ekki mikið meira en það.

Þetta er einsog með Pajero-jeppana sem heita Montero í Amríku því ,,pajero" er spænskt slangur fyrir ,,rúnkara". Eða þetta er svipað, að minnsta kosti.

-b.

Hej hej

Þetta tók fljótt af.

Hún bankaði uppá, fór inní herbergi og leit í kringum sig, ,,fínt", lét mig kvitta og sagði bless. Á afritinu mínu stendur ,,Alt OK." Fyrir þetta var ég að þrífa í tvo daga.

En ég er samt feginn. Það er ýmislegt hérna sem ég hefði hugsanlega þurft að borga fyrir, hefði hún reynt að finna skemmdir.

Og þá er bara að hangsa. Flugvélin fer eftir ellefu tíma, sem þýðir að ég legg af stað eftir rúma átta.

-b.

10 júní 2007

Kap-út

Ég beilaði á tívolíinu áðan og mér fannst það lélegt. En ég er feginn að ég gerði það, því ég var að klára þrifin núna rétt í þessu. Það hefði ekki verið gaman að standa í þessu fram til klukkan þrjú eða fjögur í nótt.

Á morgun ætla ég að kaupa te handa mömmu. Fyrir utan það verður bara hangs á mér þartil klukkan fer að síga í sjö, þá sé ég hvort ég kemst ekki með töskuhelvítin niður á lestarstöð.

Ég finn brunalykt.

Það er eitthvað að brenna hérna fyrir vestan. Blikkljós í gangi svo ég býst við að það sé verið að sýsla í því.

Það hefði reyndar verið einkar heppilegur tími fyrir kofann að brenna undan mér. Allur pakkaður niður í töskur og pantaður í flug heim daginn eftir.

Og svo fékk ég kúlu á höfuðið. Endir.

Þangað til á morgun.

-b.

09 júní 2007

Einn bjór fyrir það

Ég er búinn að gera helling, held ég. Þreif alla glugga, alla lista og skápa, ofninn, ísskápinn og baðherbergið. Þá er bara eldhúsvaskurinn og gólfin eftir, sem ég geymi þangaðtil á morgun. Ef ég gæti klárað að pakka núna snöggvast þá væri ég vel settur.

Ókei, ég er búinn að pakka. Bara sængin, koddinn og tölvan eftir. Við getum sagt að ég sé reddí. Föt og snúrur í tsjekk-inn farangur, bækur og blýhlunkar og akkeri í handfarangur, því það er aldrei tékkað á vigtinni á honum (sjö níu þrettán). Annars kæmist ég aldrei héðan.

Þetta þýddi reyndar að ég komst ekki á ströndina í dag með Ými og HlynI og konunum þeirra.. En ég er heldur ekki svo mikið fyrir strendur. Betra að geta gert eitthvað á morgun held ég. Lét reyndar plata mig í kvöldmat í Nimbusparken.. Legg af stað eftir hálftíma. Þarf maður nokkuð að raka sig fyrir svoleiðis fínerí?

-b.

Ó sólina

Ég var á leiðinni niðrá bókasafn í gær og mætti hverri fáklæddri dömunni á eftir annarri, hjólandi, skokkandi, sitjandi, lesandi. Og ég hugsaði upphátt Öll þessi brjóst! Hvað á maður að gera við öll þessi brjóst?

Og svo hugsaði ég að ég myndi líklega ekki endast lengi, ef þess væri á annað borð ætlast til af mér að ég gerði nokkuð við öll þessi brjóst. Þau eru of mörg. En ég hugsaði það ekki upphátt.

Annars var gærdagurinn alger steik. Þrjátíu stig og heiðskírt. Ég lá í sólinni og svo sofnaði ég í skugganum. Og svo sofnaði ég í sófanum hans Ýmis. Ég er með ermar af lit niður frá miðjum upphandlegg, einsog vera ber.

Í dag þarf ég samt að þrífa. Tveir dagar í brottför.

-b.

07 júní 2007

4. júní hvað?

HONG KONG (Reuters) - A young clerk with no knowledge of the 1989 Tiananmen Square crackdown allowed a tribute to victims slip into the classified ads page of a newspaper in southwest China, a Hong Kong daily reported on Wednesday.

The tiny ad in the lower right corner of page 14 of the Chengdu Evening News on Monday night, read: "Paying tribute to the strong(-willed) mothers of June 4 victims".

[...]

Hong Kong's South China Morning Post said a young woman on the Chengdu Evening News classified section had allowed the ad to be published because she'd never heard of the June 4 crackdown.

[...]

References to the massacre are barred in state media, the Internet and printed works, meaning many of China's younger generation are ignorant of the events.

Ný kynslóð af ritskoðurum veit ekki hvað hún á að strika út. Brilljant.

-b.

Kíkóti og Kúbrik, bútar

Stutt grein um fagurfræði skáldsögunnar og esseiunnar, nokkuð gott stöff.

Og svo möst: Making The Shining, rúmlega hálftími af viðtalsbútum og upptökum af tökustað. Fyrsti, annar, þriðji og fjórði hluti.

Veikur.

Kláraði samt það síðasta sem ég þurfti að gera í dag. Fór niðrá ríkisskrifstofu og lagði inn flutningspappíra. Á leiðinni datt mér í hug lagið ,,Head Like a Hole". Skrýtið.

-b.

Ég er veikur! (ekki hæka)

Hvaða kjaftæði er það að verða veikur núna? Asnó.

Og hverskonar vinnustaður lokar klukkan hálfþrjú?

Bjánalegur vinnustaður, það er það sem það er.

-b.

06 júní 2007

Sýndu mér kornflexið

Nokkuð skemmtileg myndasería. Fjölskyldur héðan og þaðan úr heiminum og maturinn sem þær borða yfir eina viku. Sikileyingar borða lagleg brauð. Fólkið í Tsjad borðar.. óttalega lítið. (Tsjadverjar? Tsjadar?) Þjóðverjarnir telja bjórinn með. Sko þá hér:



Tsjadarnir:



...

Kláraði Fahrenheit núna áðan. Ég spilaði hann í auðveldu stillingunni því örvapikkið var ekki að virka fyrir mig til að byrja með. Ég er á báðum áttum með hann. Margt svalt og sniðugt en líka slatti sem virkaði leim. Talsvert meira onscreen kynlíf heldur en í Baldur's Gate.. Er það gott eða slæmt? Þrusugaman af honum samt.

Það var einhver helvítis frídagur í dag. Allt lokað. Ég gafst upp og fór niðrí bæ, settist í garðinn og þoldi við í sirka klukkutíma áður en ég fór heim. Gafst semsagt upp tvisvar á stuttum tíma. Heiti raki dagur. Uppgjafardagur. Ég svitnaði endalaust. Er svo þrumuveður á morgun?

la la lala.

-b.

04 júní 2007

Rumsk

Ég svaf til klukkan tvö. Þessi helgi tók dálítið á.

Mig dreymdi kvikmyndina Death Proof en það var samt ekki hún. Það eina sem var eins var að Kurt Russel var vondi kallinn. Svo var eitthvað par að reyna að skrifa bók.. amma var þarna líka, ég man ekki hversvegna. Við vorum lokuð inná hóteli. Svo var lítil stelpa skírð á moldarvegi á milli Selfoss og Hveragerðis og alltíeinu birtust þrjár sígaunakonur útúr kjarrinu til að hirða hana, en við keyrðum burt á Land Rovernum. Í Hveragerði var Bjartmar að vinna fyrir Sony. Hann talaði um Jesús og magann á sér, sagðist byrja alla daga á því að setjast inní mötuneyti og hlæja. Mér fannst það frekar undarlegt, enda kom það á daginn að hann var Djöfullinn. Ég hélt honum aftur á meðan einhver slökkti á tölvunni, svo að bókin var seif.

Ókei.

Á fimmtudaginn kíktum við Ýmir, Óli og Narfi á Apparatet. Misstum af læf bandinu, aftur.

Á föstudaginn fórum við allir plús fleira fólk á Vega að sjá Gus Gus. Mér fannst þeir leiðinlegir en upphitunarbandið, FM Belfast, átti fína spretti. Það var rosa mikið af Íslendingum, sem var skrýtiðgaman. Á kebab-staðnum á leiðinni heim var líka allt pakkað af löndum mínum. Mikið var það góður kebab.

Á laugardaginn hitti ég ástralskan félaga Tommys, meðleigjandans míns. Hann heitir Rob. Hann sagði margar stuttar sögur í gegnum kvöldið og þær höfðu allar eitthvað að gera með að fólk barði á öðru fólki. Vinur hans var á gangi í hverfinu sínu og heyrði konu öskra á hjálp, hljóp inní hús og fann þar raðnauðgara og barði hann. Vinir hans voru í leigubíl og sofnuðu og bílstjórinn fór að káfa á kærustu gaursins svo hann barði bílstjórann og reif rafgeyminn úr taxanum. Og svo framvegis.

Við fórum á nokkra bari, spiluðum teningaleikinn sem Danir eru svo hrifnir af og göptum á meðan allur helvítis barinn söng með einhverju dönsku poppi. Eða kannske var það fótboltalag? Hvað veit maður.

Gærdagurinn fór allur í þynnku og Baldur's Gate II. Ég á enn eftir að fara niðrá ríkissskrifstofu og láta vita að ég sé að flytja af landi, en það verður að bíða framá morgun.



-b.