22 nóvember 2006

Gott fyrir sprettuna segja þeir

Fór í síðustu-mínútu bókasafnstúr í dag og reddaði nokkrum titlum og blaðsíðutölum fyrir pensúmið, sem ég skilaði síðan inn áður en hurðinni var skellt. Svo mætti ég í tíma, jafnvel þótt augun og allskonar bein mótmæltu harðlega, að ekki sé minnst á fæturna undir löppunum á mér, sem voru blautir og kaldir eftir ark í gegnum nóvemberpolla í strigaskóm. En tíminn var þrususkemmtilegur. Þarsem ég á það til að gleyma nöfnum mjög auðveldlega, þá get ég ímyndað mér að einhverntíman í framtíðinni eigi ég bara eftir að muna þennan tiltekna kennara sem 'áhugasama gyðinginn frá New York'.

Égmeina, ég gleymdi hvað hann heitir tvisvar í dag, og þetta er eitt af þessum örfáu skiptum þarsem ég þurfti að muna það.

Ég fæ mömmu til að koma með geislaspilarann minn yfir sjóinn og hvað gerist næstum því undir eins? Helvítis gaurar frá danska ríkissjónvarpinu banka uppá og spyrja hvort ég sé með sjónvarp eða útvarp. Jú, ég er með útvarp. Ég hef reyndar ekki prófað það ennþá, en það er þarna. Mér skilst þeir ætli að rukka mig fyrir það. Og á næsta ári fara þeir að rukka fyrir tölvueign. Melir.

...

Önnur þáttaröð af Spooks sveiflast á milli þess að vera alger sprengja ('I Spy Apocalypse') og væmin vitleysa ('Spiders' og 'Briefcase'). Þeir ættu að halda sig frá því að skrifa unglinga. Og ég tók ekki eftir því fyrren ég las það einhverstaðar, að maður sér aldrei neinn kreditlista.. það er tíser, svo kemur titlasenan þarsem þemalagið spilar undir og við sjáum allskonar skot af aðalpersónunum, en það er enginn texti. Ekkert nema ,,[ spooks ]" í blálokin. Svo heldur þátturinn áfram, hann klárast og endar á því að síðasti ramminn frýs, leiftrar og verður svarthvítur. Og þarmeð er það búið.

Og mér skilst að nöfnin á þáttunum hafi verið búin til fyrir bandaríska dreifingu, en hvað Bretana varðar er það bara Þáttur 1, Þáttur 2 o.s.frv. Svipað í gangi með The State Within núna sýnist mér.. hef ekkert heiti séð ennþá.

Ég hafði þrusugaman af Day Break, sem er að fylla í skarðið fyrir Lost einsog er. Þættinum er lýst sem blöndu af 24 og Groundhog Day. Ég þekki ekki tuttuguogfjóra, en mér finnst þetta alveg mátulega klikkað. Löggumaður vaknar einn daginn og er kærður fyrir morð. Hann gerir hvað hann getur að útskýra mál sitt, en allt kemur fyrir ekki. Undir kvöldið er hann kominn í fangelsi, og honum sagt að kærastan hans sé dauð, og ef hann játi ekki á sig verknaðinn verði systir hans og dóttir hennar drepnar líka.

Síðan vaknar hann aftur sama daginn og reynir að leiðrétta það sem hann gerði vitlaust í fyrra skiptið. Og hér er það sem skilur þessa lúppu frá Groundhog Day: hann heldur öllum þeim meiðslum sem hann verður fyrir. Gaurinn er skotinn í síðuna, þraukar út daginn og vaknar aftur sama dag í blóðpolli. Sem er algert rugl en fjandinn. Ég skal kaupa það. Hvað segirðu, vill svo til að kærastan, sem liggur við hliðina á honum, er hjúkka á bráðamóttöku? Já, hva, afhverju ekki. Haltu bara áfram.

Það er óvíst hvort þeim tekst að halda dampi þegar sagan er svona kreisí, en þessir fyrstu tveir þættir þótti mér temmilega mikil vitleysa í kringum þéttan hasar. Bara gaman af því..

Talandi um vitleysu og hasar, hvaða helvítis töf er á fjórðu Seven Soldiers bókinni?

-b.

2 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Síðasta blaðið í Seven Soldiers kom í Nexus í byrjun nóvember, þannig að bókin ætti nú að koma bráðlega.

Björninn sagði...

Hei Davíð.

Takk fyrir infóið.

Ég bara skil ekki hversvegna ég finn ekkert um það á netinu.