28 nóvember 2006

Myndasyrpa!

Ég ráfaði um að leita að apóteki niðrí miðbæ um daginn. Í yfirgefnu húsasundi rakst ég á þessar dyr, og þótti nafnið kústugt:

Hérna er dönsk wikipediu-grein um húsið. Þeir vilja meina að orðið ,,panoptikon" geti staðið fyrir einhverskonar safn.. vaxmyndir tildæmis og.. málverk, býst ég við? Ég, verandi betur skólaður í vænisýki en safnafræðum, tengdi þetta við fangelsið hans Benthams og yfirhöfuð hugmyndina um algert, en ógreinanlegt, eftirlit.

Þetta hefði getað verið einhverskonar ríkisstofnun, innandyra allt fullt af skjám og upptökutækjum, ljósleiðarar víðsvegar að úr borginni að koma saman í stórum upplýsingahnút niðrí kjallara. Og þeir skrifa nafnið skýrt og greinilega á útidyrahurðina (sem er úr gleri, eins og vera ber): ,,Okkur er sama þótt þið vitið hvar við erum - þið sjáið ekki myndavélarnar, þær eru allstaðar og við hættum ekki að fylgjast með þótt þið berjið á hurðina."

Djöfull er það kalt.

En þetta er borgin, maður. Þú beygir inní yfirgefið húsasund og þú getur fundið hvað sem er. Svo lengi sem þú ert að villast. Þetta er einsog með viskusteininn, eða hvað þeir kalla hann: Ef þú leitar að réttu hurðinni þá finnurðu hana aldrei.**

Við Ýmir fórum með nágrönnum hans á tónleika með Megasi og Súkkati um daginn í grænlenska sendiráðinu (ef ég man rétt). Megasukk. Súkkat stóðu sig helvíti vel. Megas muldraði, gleymdi textunum sínum og.. æ það var bara frekar sorglegt að horfa uppá hann. Hann tók sirka fimm lög, fór síðan í pásu, og ég hálf vorkenndi Súkkat-strákunum þegar þeir stigu síðan á svið með honum eftir það. Megas er góður á geisla, en ég held maður ætti alveg að sleppa því að sjá hann læf. Gaurinn stendur varla í lappirnar af neyslu.

Að því leytinu til hittu auglýsingarnar fyrir þetta gigg naglann á höfuðið. ,,Hinn íslenski Bob Dylan," stóð þar. Dylan á heelling af góðum lögum, plöturnar hans eru ekta, en að sjá hann á sviði er bara fyrir hörðustu aðdáendurna, sem geta litið framhjá því að hann sé svo greinilega ekki að meika það lengur.

Allavega, hérna er metróinn á leiðinni frá Kongens Nytorv til Christianshavn. Eða.. allir hinir kálfarnir í vagninum voru á þeirri leið, okkar virtist ekki vilja vera memm:

Eitthvað drama í gangi. En við komumst alla leið.

Og ég tók hérna eina mynd af köppunum saman á sviðinu. Nokkrar góðar augngotur á milli Súkkat-liða, sem voru greinilega mun betur með á nótunum, en þurftu samt að fylgja gamla eftir, því hann er jú alfa-svallskáldið. Ekkert slíkt náðist á filmu: þið verðið bara að trúa mér. Það er svo miklu skemmtilegra þannig.

Við vorum reyndar í helvíti fínum sætum, sem var plús. Vorum svona til hliðar en alveg við sviðið. Á fremstu röðinni, klukkan sirka ellefu, var kona í brjóstarhaldara sem var líklega svona tveimur skálastærðum og lítill. Hún sullaðist öll um sjálfa sig einsog jell-o hlaup. Og stuttu eftir að þremenningarnir stigu á svið gekk fullur Íslendingur uppað sviði, hnippti í áttina að Megasi og sagði ,,Megas.. Megas! Lommér að tala við þig aðeins." Gamli veifaði honum í burtu og gaurinn rölti hinn rólegasti til baka. Okkur fannst það helvíti fyndið.

Og það var það eina sem gerðist. Voða dannað alltsaman. Þau seldu danskan, færeyskan og íslenskan bjór, Draum-súkkulaðistykki og bingókúlur. Barinn var staffaður ungum íslenskum meyjum, og mér fannst ég kannast við aðra þeirra.. svona einsog maður býst við í rauninni. Maður þekkir alltaf einhvern.

-b.

**Nema þú munir heimilisfangið og spyrjist fyrir í hverfinu næst þegar þú átt leið um. Eða skoðir götukort. Já eða flettir pleisinu upp í símaskránni, það eru varla mörg panoptikon í miðborg Kaupmannahafnar.

Engin ummæli: