04 nóvember 2006

Raus um gæsalappir og Greg Rucka

Í kvöld er stórhátíð í Kaupinhafn. Á einhverjum tímapunkti byrjuðu barirnir að selja nýja jólabjórinn, múgurinn steig helgan dans og hesthúsaði hátíð ljóss og friðar. Það er enginn hérna heima einsog er. Og þetta er í fyrsta skipti sem mér dettur í hug að gefa húsfólkinu íslensk gælunöfn: Tómas fór í jólabjórinn, Katrín kom með telpuvinkonur sínar hingað heim og svo fóru þær í jólabjórinn, og Begga fór norður í sveit að hitta kærastann og mömmu sína.

Jólabjór. Og jólaskraut. Í byrjun nóvember. Kannske ætti maður að hætta að hneykslast á því barasta.

It's the 'basically' that makes it art.

Ég hlustaði á viðtal við Greg Rucka um daginn þarsem hann tók einhverja línu uppúr söngleik um skák (!) og breytti henni í þá pælingu að þegar þú skrifar eina blaðsíðu, þá sé þeim mun minna pláss fyrir allt hitt sem þú þarft að skrifa. Sem er heilbrigð afstaða, og kemur varla óvart komandi frá manni sem skrifar vel. Mig langar að tékka á Queen and Country bókunum hans. Ekki myndasögunum, hann hefur víst gefið frá sér tvær skáldsögur í sömu línu, A Gentleman's Game og Private Wars. Samt. Hvað geri ég ef fólk horfir og heldur að ég sé bara að lesa eitthvað flugvélasorp? Þetter allt í lagi, þetta er framhald af rosafínum myndasögum sem ég hef verið að lesa. Alveg róleg. Nei, það gengur ekki. En stafirnir í nafninu hans eru að minnsta kosti nógu stórir á kápunni þannig að fólk hugsar ekki með sér þessi er að lesa nýja Grishaminn. Hvað heitir hún aftur, The Attorney eða The Lawyer? Kannske ég ætti að tékka á henni sjálf / ur. Og svo framvegis.. Gæsalappaleysi gerir heiminn erfiðari.

En kannske er það þessvegna sem höfundarnöfnin eru miklu stærri á kápunum heldur en titlarnir. Hvað ertu að lesa, King? Nei Grisham. Já ókei ég er með Steele. Já ég sá það á kápunni. Takk, viltu nammi? Láttu mig í friði.

A pirate's life for me.

Þannig að ég gaf henni poka af flaueli og hún sagði sólin er að koma upp. Ég vissi ekki hvað hún átti við en ég varð að vera ósammála: við horfðum í sitthvora áttina.

Gæsalappir maður. Einhverstaðar hérna í húsinu er einhver að spila Michael Jackson. Ef ég gæti valið um það núna að þurfa aldrei að heyra Michael Jackson lag aftur þá myndi ég segja já takk og lokaðu hurðinni á eftir þér. Alveg satt. Það er dimmt í smá stund ennþá en klukkan er orðin margt. Hvernig ætli jólaskapið sé að fara í fólk?

-b.

Engin ummæli: