Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, vísar á bug kröfum um að hann segi af sér í viðtali við AP- fréttastofuna í dag en þar er greint frá því að mótmælasamkoma fari nú fram í Reykjavík áttundu helgina í röð.
Í viðtalinu vísar Geir því á bug að kenna megi yfirvöldum um hrun bankanna og það ástand sem af því hafi leitt. “Ég tel mig ekki persónulega ábyrgan,” segir hann. “Ég get ekki tekið ábyrgð á framferði bankamanna."
Þá segir hann rannsókn vera í undirbúningi sem miða muni að því að kanna hvort glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað. „Hafi fólk brotið lög verður það að sjálfsögðu sótt til saka,” segir hann.
Geir er ekki ábyrgur, ríkisstjórnin er ekki ábyrg, bankarnir eru ábyrgir. Verða ráðamenn bankanna dregnir til ábyrgðar? Tja, ef þeir gerðust sekir um glæp þá verða þeir það. En ef þeir brutu engin lög?
Þá bera þeir ábyrgðina sem sköpuðu og viðhéldu þessháttar lagaumhverfi. Það gefur auga leið. Ef það er ekki refsivert athæfi að setja þjóðina á hausinn þá bera ráðamenn þjóðarinnar ábyrgð á því sem úr verður.
Rétt einsog í Bandaríkjunum þá lítur út fyrir að eftirlitsstofnanir hér á landi hafi verið tólf til fjórtán skrefum á eftir þeim sem þær áttu að hafa auga með.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli