09 janúar 2009

Best ársins 2008

Þessir árslistar geta aldrei verið samantekt á því besta sem kom út á árinu, ég fylgist ekki það vel með. En þetta getur hinsvegar verið ágætis vísir að því hvað ég fílaði á árinu, ef það er eitthvað sem birtist fyrst árið 2008 þá er það einhverskonar bónus.

Þetta er ekki í neinni ákveðinni röð:

BÆKUR

Njála

Ég nennti engan veginn að lesa hana þegar ég átti að lesa hana í íslensku 403. Maður þekkir söguna einsog langflestir Íslendingar, þetta með knérunninn og ég fer hvergi og svona. En bókin er óskaplega flott. Ég skrifaði tvisvar um hana á árinu, hérna og hérna. Engin ósköp. En hvernig ætti maður til dæmis að fara að því að skrifa ritdóm um þessa sögu nútildags? Maður gæti allteins skrifað lífsstílsdálk um arkítektúr pýramídanna.

Lesturinn var líka endalaust bættur með stuðningsritunum: Lykillinn að Njálu og myndasögum Emblu og Ingólfs.

Hvað stendur uppúr? Dauðadæmdur vinskapur Njáls og Gunnars, Skarphéðinn Njálsson á vappi um Þingvelli, lagakrókar.

Lord of the Rings eftir Tolkien
(Segi ég á ensku því ég hlustaði á hana á ensku.)

Önnur gríðarlega stór saga. Ég fílaði allar myndirnar og skil ekki hvað fólk var að vesenast með að kvarta yfir þeirri síðustu. En í bókinni er svo ótal margt sem vantar í þær - og hentar í rauninni ekki þeirri sögu sem sögð er þar. Mér fannst líka endalaust gaman að lesa söguna í þeirri tímaröð sem bækurnar setja fram. Svoleiðis virkar náttúrulega engan veginn í kvikmynd, en sagan á blaðsíðunum er sterkari fyrir vikið. Ég skrifaði eitthvað um bókina hérna.

Uppúr stendur: ,,Rauða bókin" og hetjurnar snúa aftur í rústað Skíri.

Reader's Block eftir Markson

Ég skrifaði um hana hér. Ég man óskup lítið eftir henni núna nokkrum mánuðum eftir að ég las hana, en það er ekki von: bókin er blanda af triviu og textaþrautum, sem þó er ekki endilega ætlast til að maður svari. Um leið byggir Markson upp einhverskonar stemmu um listir, listamenn og hlutverk beggja í Lífinu, með stóru L-i. This is Not a Novel var hugsanlega betri, Vanishing Point klárlega verri.

Uppúr stendur: No sane man can dance.

Mæling Heimsins eftir Daniel Kehlmann

Sem ég skrifaði uppúr hér. Bókin er fallega skrifuð og í góðri þýðingu, úir allt og grúir í pælingum um leit og rannsóknir, uppgötvanir, frásögn, vinskap, karakter, persónuna vs. samfélagið og hugvísindi vs. raunvísindi.

Uppúr stendur: Loftbelgsferðin, sverðið á lofti, súrefnisleysi á fjallstindi, and-efni í flösku.

Falling Man eftir DeLillo

Alls ekki það besta sem ég hef lesið frá honum, en bókin er vel hugsandi stúdía á eftirköstum ellefta september, þar sem hegðun fólksins í kjölfarið er langtum dramatískari en Atburðurinn sjálfur. Sem hæfir DeLillo einstaklega vel, þar sem hversdagslegt fólk talar ekki eins og fólk við annað fólk sem það ætti ekki að þekkja.

Uppúr stendur: Pókerkvöldin, listaverkasalinn, maðurinn sem lætur sig falla.

Snow Crash eftir Neil Stephenson

Ég kláraði hana núna um daginn, hún er líklega lakasta bókin á þessum lista en er svo full af skemmtilegum hugmyndum og leikandi framsettum myndum af absúrd hversdagsleika. Tengingin við Súmerska guð- og þjóðfræði er skemmtileg en ég hugsa að hann hefði mátt ýta henni aðeins aftar bakgrunninn. Ég hugsa að ég finni fleira eftir gaurinn.

Uppúr stendur: Fyrstu síðurnar með The Deliverator, ,,listen to Reason" og síbreytilegt sjónarhorn sem virkar.

Ljóðskáld eru hálfvitar

sem allir þekkja.

og Algleymi

sem ég var reyndar hálfnaður með á áramótum en hlýtur að vera besta íslenska skáldsagan útgefin 2008 sem ég las á árinu. Þótt þær séu ekki mjög margar. Ég segi það samt.

Hermann er mjög vel skrifandi, hjá honum er íslenskur veruleiki raunverulegur en rennur samt saman við vestræna sagnfræðilega fantastík án þess að hökta. Þetta er bók um hugmyndir og skynjanir, tímaferðalög, falsanir, furðuleg handrit og Tinna. Ég gæti í raun og veru ekki hugsað mér neitt meira spennandi.

Uppúr stendur: Neðanjarðarbækistöðin, Íslandsstrengurinn og endalokin.


LÉLEGAR BÆKUR SEM ÉG ANNAÐVHORT KLÁRAÐI VEGNA ÞESS AÐ ÉG VEIT EKKI HVAÐ, EÐA HÆTTI AÐ LESA ÞVÍ ÉG VILDI EKKI MEIR:

Bjöguð enska Lúdmílu eftir DCB Pierre, tilgangslaus.
Sólkross eftir Óttar Norðfjörð, misheppnuð.
Dexter in the Dark eftir Jeff Lindsay, yfirnáttúrulega leiðinleg.
Ósýnilegir glæpir eftir einhvern gaur, þýðandi Hermann Stefánsson, drafandi.
Dermaphoria eftir Craig Clevenger, óspennandi.

Hvað kom fyrir Craig? Jeminn.

MYNDASÖGUR

The Last Musketeer eftir Jason

Ekki sú besta sem hann hefur gert og líklega ekki sú næstbesta. En hann á sér ákveðinn sess. Síðustu síðurnar eru eitthvað sem ég held að gæti varla virkað nema afþví að það er Jason sem gerir það.. Hversdagsleiki, rómantík, sæ-fæ og einstaka punktar af dramatík sem sagan hefur unnið fyrir. Trúverðugleiki?

Uppúr stendur: Síðasta síðan, en ég þyrfti að lesa bókina aftur.. ég man að ég var hrifinn af ýmsum atriðum hér og þar en man ekki nægilega vel eftir þeim.

Flex Mentallo eftir Morrison

Nú keypti ég Flex á ebay áður en krónan hrundi og mikið ofboðslega er ég feginn. Skrifaði ég einhverstaðar hvað ég þurfti að borga fyrir öll fjögur blöðin? Ég ætla a.m.k. ekki að gera það hér og þaðanaf síður að reikna út hvað þau myndu kosta mig í dag.

Ég hafði lesið söguna á tölvuskjá, sótti hana á netið og fannst ekkert athugavert við það: Ég gat hvergi keypt hana úr búð. En ég ætla að setja hana á listann fyrir 2008 vegna þess að það er rétt. Ég las hana á pappír í ár og þetta er Morrison einsog hann gerist bestur. Plús það að allra síðustu síðuna vantaði í tölvu-útgáfuna sem ég las. Ég er að vísu ekki alveg viss um að sú síða hafi bætt neinu við söguna.. En það kemur þessu ekki við.

Uppúr stendur: Krossgátan, grænu myndasögurnar, brotlendingin.

I Shall Destroy all the Civilized Planets eftir Fletcher Hanks, í samantekt Paul Karasik

Ég hikstaði á fyrstu síðunum eða alveg fyrstu tveimur þremur sögunum, en þetta safn er algert gull. Þetta eru ofurhetjusögur með svo snarbrengluðum áherslum og naívu hugmyndaauðgi, ég hef aldrei séð annað eins og Karasik, sem ég býst við að hafi stúderað ,,gullaldar"-myndasögur nokkuð vel, vill meina að þær séu alveg sér á parti.

Sjáið ofurhetjuna: Stardust er almáttug geimvera, ofurhetjugaldramaður, sem er með bækistöðvar á sinni eigin plánetu einhverstaðar í geimnum, og hann ver tíma sínum í að fylgjast með smáglæpamönnum á Manhattan. Hann er alltaf að fylgjast með réttu glæpónunum á réttum tíma og leggur af stað til að stöðva þá undir eins, en nær aldrei í skottið á þeim fyrren eftir að þeir hafa drepið slatta af fólki eða valdið einhverjum fáránlegum skaða. Það er svo hann geti refsað þeim nógu grimmilega býst ég við: Plottið, glæpurinn og ,,handtakan" er hálf sagan, hinn helmingurinn er Stardust að refsa hinum seku á einhvern stórfurðulegan máta.

Endahnúturinn hans Karasik setur punktinn yfir i-ið, þarsem við fáum að vita ýmislegt misjafnt um þennan Hanks.

Uppúr stendur: Pokarottan, ísfangelsið, geislarnir, eftirmálinn.

The Umbrella Academy: Apocalypse Suite eftir Gerard Way og Gabriel Bá.

Það er alvarlegur undirtónn í þessari furðulegu fjölskyldusögu og brenglunin nær nokkuð langt undir yfirborðið. Teikningarnar hæfa sögunni í raun furðulega vel, hvort er í senn á sömu línu: einlæg án þess að vera barnaleg eða væmin, uppfull af kreisí hugmyndum sem eru þó settar fram á látlausan máta, persónurnar nánast tvívíðar en sannfærandi.

Mig langar allavega í meira.

Uppúr stendur: Tímaferðalangurinn (nema hvað).

NextWave: I Kick Your Face eftir Warren Ellis og Stuart Immonen.

Ég segi það bara aftur: Þetta er eina bókin sem Ellis ætti að vera að skrifa, en hann er það ekki lengur. Klippt á gaurinn eftir 12 tölublöð. Hrikalegt. Þetta er and-alvarleg og hýperaktív ofurhetjusaga sem á engan sinn líka, a.m.k. ekki hjá Marvel. Það mega allir missa sín, sagan er einn stór brandari, tungumálið dásamlegt, sögumaðurinn (?) fáránlega meðvitaður og hugmyndaauðgin rosaleg. Þetta er það sem Ellis getur skilað af sér þegar hann sleppir öllum útskýringum og hættir að velta sér uppúr einhverjum formtilraunum sem öllum er sama um nema honum.

Uppúr standa: Hundrað Jarðar-dollarar, risaeðlan, skrímsli barnæskunnar.

Casanova v2: Gula eftir Matt Fraction og Fabio Moon.

Ég las hana af tölvuskjá afþví það voru allir að tala um hana á netinu og ég nennti ekki að bíða eftir safninu. Þessi bók verðskuldar allt það hæp sem hún fær. Hún er laus í reimunum og létt á bárunni og poppkúltúrpottréttur og fílar það. Það skemmir bara að skrifa um hana finnst mér, það á að lesa hana frekar.

Uppúr stendur: Orðlausa heftið, viðsnúningurinn, raunveruleikabíómyndin.


KVIKMYNDIR Í BÍÓ OG ANNARSTAÐAR FRÁ

There Will Be Blood - Besta langa byrjun ársins.

Southland Tales - Besta ómögulega mynd ársins.

Be Kind, Rewind - Besti naívismi ársins.

Brazil - Besta gamla mynd sem ég hafði enn ekki séð ársins.

The Dark Knight - Besta teiknimyndahetjubíómynd nokkurntíman.

Pineapple Express og Tropic Thunder - Besta gamanbíó ársins (en eru samt örugglega ekki eins góðar á vídjó eða í seinna skiptið yfirhöfuð).

Gone Baby Gone - Besta glæpaspæjó ársins.

The King of Kong - Besta heimildamynd ársins, þótt það væri eiginlega grunsamlega mikið drama í henni og ég vildi varla trúa því að hún væri bara heimildamynd.

Michael Clayton - Besti Clooney ársins.

JCVD - Besta erlenda mynd ársins (ha ha).


SJÓNVARP, GAMALT OG NÝTT

The Singing Detective, bresk mínísería frá '86

"The doorman of a nightclub can always explain that it's lipstick on his hand and not blood, but how did it get there? Lets be economical, nothing fancy...if he smacked some dame across the mouth then he's got both answers in one."

Þetta er fyrsta línan í fyrsta þættinum (af sex) og fellur einstaklega vel að fyrirfram gefnum hugmyndum um harðsoðnar spæjarasögur sem gerast á svarthvítum eftirstríðsárum. Sem slík er hún mjög góð opnun, en þegar lengra dregur á þættina er þetta viðhorf og þessi orðræða sem viðgengst í ímynduðum spæjaraheimi rithöfundarins - aðalpersónu þáttanna - tekin í sundur og rannsökuð. Hverskonar persóna skrifar með þessari rödd og hverskonar fortíð hefur sú persóna átt?

Rithöfundurinn er miðpunktur frásagnarinnar og fortíð, nútíð og ímyndun blandast meira og meira saman eftir því sem geðheilsunni hrakar. Úr verður alveg hreint prýðilegt dæmi um ,,áhrif skáldskapar á veruleikann og öfugt"-þemað sem við erum öll svo hrifin af. (Sjá einnig: Algleymi, Mælingu heimsins, I Shall Destroy.., Flex Mentallo og JCVD.)

Mállýskan í námumannabænum í fortíðinni er líka dásamleg. Það er allt gott við þessa þætti. Mig hálflangar að sjá bíómyndina sem þeir gerðu uppúr henni hérna um árið, bara til að sjá hversu illa henni var klúðrað.

The Sandbaggers, breskir spæjaraþættir frá '78-80.

Ég er hálfnaður með þessa þætti, búinn með fyrri helming annarrar seríu, og ég myndi ekki mæla með þessu við hvern sem er. Ég las um þá í einhverjum skrifum Greg Rucka, þarsem hann sagði að myndasögurnar hans Queen and Country væru meira og minna myndasöguuppfærsla á Sandbaggers. Sem er satt og rétt.

Þetta er búrókrasíuspæjó uppúr kalda stríðinu þar sem enginn vinnur, heldur tapa allir bara mishratt.

Uppúr stendur: Ísköld fangabýttin, möguleg endalok flugvélaránsins og dauði í íbúð austan járntjaldsins.

Star Trek: The Next Generation

Þegar ég fór á DS9-fyllerí hérna um árið nældi ég mér í fyrstu tvær þáttaraðirnar af TNG um leið. Ég horfði á tvo þrjá þætti en missti áhugann: Þetta var eitthvað svo miklu daufara en DS9. En einsog með svo margt annað þá þarf maður að gefa þessum þáttum séns, það er í raun ekki fyrren í annarri þáttaröð sem þeir komast á skrið.

Ég hef ekki áhuga á því að ,,breiða út boðskapinn", þ.e. að þröngva Star Trek uppá þá sem hafa ekki á huga á því. Og ef þú fílar ekki Star Trek núþegar þá hugsa ég að TNG sé klárlega ekki til þess fallið að húkka þig.. En þeir eru samt best ársins vegna þess að þarna er heill haugur af spennandi hugmyndum, skemmtilegir karakterar, allnokkrir góðir þættir og einstaka mjög góðir þættir innanum slatta af meðalmennsku (einsog gengur og gerist).

Málið er að maður getur ekki bara horft á góðu þættina, maður verður að hafa fylgst með þáttunum í heild til að kunna að meta þá. Og til þess verður heildin að vera nógu vel úr garði gerð, að maður missi ekki áhugann þegar þessir andskotar gefa manni þrjá fjóra blátt áfram lélega þætti í röð um miðbik einhverrar þáttaraðar. TNG heldur mér í það minnsta ennþá, ég er að byrja á sjöttu seríu akkúrat núna.

Uppúr stendur: Yesterday's Enterprise, The Inner Light, Darmok, Conundrum, Sins of the Father, Cause and Effect, The Drumhead...

Battlestar Galactica

Fyrri helmingur fjórðu seríu endaði með látum. Alltaf tekst þessum kjánum að setja krókana í mann með ,,síðustu þáttunum." Þeir byrja aftur þarnæstu helgi, þessi hérna hlakkar til.

Lost

The Constant var brilljant og ég er ennþá tilhlakkandi gaurinn vegna þess að þeir byrja aftur eftir tæpar tvær vikur.

The Wire

Besta sjónvarp nokkurntíman. Fimmta sería var eins góð og hún gat orðið, endalokin mjög við hæfi og þá kannske sérstaklega hjá þeim sem fengu engin endalok.. lífið heldur áfram, fólk er einsog það er o.s.frv. Þættirnir eru stútfullir af æðislegum karakterum en að öðrum ólöstuðum þá er Bubbles einn sympatískur gaur. Hann átti þetta undir rest.

Uppúr stendur lokaþátturinn í heild sinni.

X-Files

Talandi um einstaka góða þætti innan um salla af drasli. Það er X-Files frá sjöttu þáttaröð og uppúr. Mikið óskaplega hafði ég samt gaman af því að fara í gegnum X-Files kassann minn.. Þegar þeir nenntu á annað borð að bretta fram ermarnar þá gat þetta orðið virkilega gott stöff.

Uppúr stendur: Bad Blood, Folie á Deux, nasistaþátturinn, sveppaþátturinn, Groundhog Day-þátturinn og geimveruþátturinn.

Og!

Að lokum!

TÓNLIST?!?!?!

Sætar lygar - mixteip ársins

I'm In Love With My Car með Queen - Queenlag ársins.

Surfing on a Rocket með Air - Hjólalag ársins.

Girl Talk - Hljómsveit sem ég missti af ársins.

Djöfull var ég lengi að skrifa þetta helvíti.

-b.

Engin ummæli: