Hei Björn, þú áttir fínasta afmælisdag í dag. Já það má með sanni segja.
Þú vaknaðir í morgun og fékkst þér súrmjólk og te, sáttur við að vera með frí í vinnunni. Kíktir á netið og svona, opnaðir pakka frá sambýliskonum þínum: Eitt sokkapar. Í annan sokkinn var saumað ,,H" og í hinn ,,V". Brjálað. Þú ert í þeim núna. Svo fórstu í kaupleiðangur með honum Halli.
Í Kokku á Laugaveginum fannstu pönnukökupönnu sem virkar á spanhellu, hún var rosa næs. Í Kringlunni keyptirðu hádegismat, te, DVD disk og dót í bakstur. Egg og mjólk og svona. Þú reyndir að sækja jakkann þinn úr viðgerð en hann var ekki kominn klukkan að verða eitt þannig að þú renndir heim með Hall og fórst að steikja pönnuna upp.
Ingibjörg var lúnkin við það, þetta hefði varla hafst án hennar hugsa ég. Slatti af smjöri og salti í pönnuna og hitinn stilltur á einn. Svo tvo. Þrjá eftir smá stund og svo koll af kolli, hitinn hækkaður hægt og rólega þartil við vorum komin uppí svona sjö átta, en þá var pannan farin að reykja dálítið vel, þá helltirðu smjörinu af og þurrkaðir með pappír. Pannan kólnaði, og svo gerðuði þetta allt aftur. Gerum langa sögu stutta: þú skelltir í deig og steiktir nokkrar pönnsur. Það fór hægt og illa af stað en endaði vel. Næsta skál af deigi gekk líka miklu betur.
Það er smá eftir inní ísskáp, þú getur gert meira á morgun. Einsog konan í búðinni lagði til: Nota pönnuna einusinni tvisvar í viku fyrstu vikurnar, þá verður hún geggjað speis. (Konan sagði ekki ,,geggjað speis", það eru þín orð. En pannan batnar við hverja notkun, það er víst alveg málið.)
Í afmæliskaffi: Þið Þórunn, Ingibjörg, Hallur og Davíð, í öfugri stafrófsröð.
Svo sóttirðu jakkann í Kringluna. Komst með hann heim og það vantaði eina tölu á hann, þessa innri. Bömmer maður. Fórst með hann aftur, fékkst ekki að rukka bankann um neinn pening, jafnvel þótt þú hafir farið yfir byrjunarreitinn. Skutlaðir Halli í rútuna. Varðst þreyttur. Nenntir ekki að elda kjúkling.
Því þetta þurfa ekki að vera endalaus veisluhöld neitt. Gott fólk, góður matur, temmilegt ævintýr og smá undanlæti.
Já og svo sátuð þið Ingibjörg fyrir Þórunni þegar hún var að koma úr sturtu. Þið voruð grímuklædd, með hendur á lofti og réðust hrópandi að henni þegar hún opnaði hurðina. Það er einhver grundvallarhúmor í því að hræða þann sem er hálfnakinn og grunlaus.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli