30 október 2008

Farvel Skjár einn (farið hefur fé betra)

Ég sá frétt um það í dag að starfsfólki Skjás eins hefði verið sagt upp. Fólk talaði um þetta í vinnunni, en viðbrögðin voru svipuð því ef íslenska briddslandsliðið hefði dottið úr keppni í fjórðungsúrslitum á heimsmeistaramótinu í Fjarskanistan. Æ, var það. Jæja.

Á www.skjarinn.is má nú lesa þennan texta hér:

___________

VILTU HAFA ÁFRAM AÐGANG AÐ ÓKEYPIS SJÓNVARPSSTÖÐ Á ÍSLANDI?
Í ljósi samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember.
Vonast er til að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi en til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem er til staðar á öðrum Norðurlöndum.
Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni.
Einnig undirbjóða þeir frjálsu stöðvarnar við sölu auglýsinga.
Stjórnendur og starfsmenn munu taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram, áhorfendum og auglýsendum til heilla.
Áhorf á SkjáEinn er í sögulegu hámarki og við treystum því og trúum að landsmenn allir og stjórnvöld styðji áframhaldandi veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.
Við biðjum þig því að setja nafn þitt á listann og ganga til liðs við okkur svo að SkjárEinn megi lifa sem lengst.

Starfsmenn Skjásins
Ég undirritaður/undirrituð skora á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og ríkisstjórn Íslands að leiðrétta þessa skökku samkeppnisstöðu og tryggja þar með veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.

_________

..og svo er pláss fyrir undirskriftir. Þeir eru líka að keyra á auglýsingum með svipuðu inntaki á skjánum sjálfum, þarsem fólk er hvatt til að fara á skjarinn.is.

Það er tvennt í þessu. Annarsvegar er nokkuð til í því að RÚV ætti ekki að bítast við einkareknu stöðvarnar um auglýsingatekjur, ekki vegna þess að það er ósanngjarnt gagnvart þeim einkareknu heldur vegna þess að skattgreiðendur eru að borga þessar x mörgu milljónir til að halda úti Ríkisútvarpi/sjónvarpi, og ættu ekki að þurfa að sitja undir auglýsingum í ofanálag.

Hinsvegar ættu allar sjónarpsstöðvar, hvort sem þær eru einkareknar eður ei, að bítast um besta sjónvarpsefnið, og það þýðir að þeir sem hafa minni pening milli handanna geta bara sest niður og haldið kjafti á meðan fullorðna fólkið ræðir málin. Það hvernig stjórnendur stöðvanna skilgreina ,,besta sjónvarpsefnið" hlýtur þá að koma inní myndina; það er deginum ljósara að áherslurnar eru gerólíkar hjá RÚV og hjá Skjá einum. En ef tveir vilja sama hlutinn þá ræður krónutalan (eða dollaratalan), það er ekkert hægt að rífast um það.

Það er bara svo neyðarlega mikil frjálshyggjubræla af þessu orðalagi að mann svimar:

,,Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni."

Hvaða skattgreiðendur ertu að tala um? Fyrirtækin, einkareknu sjónvarpsstöðvarnar sem borga jú væntanlega einhverja skatta af sínum auglýsingatekjum, eða Íslendinga, venjulegt fólk sem greiðir sína skatta og horfir á sjónvarp?

Í rauninni kemur það niður á sama stað: Skattgreiðendur, sama hverjir þeir eru, eru ekki að borga einhverju fyrirtæki útí bæ til þess að það geti farið illa með þá. Þeir eru að borga skatta til að geta lifað í siðmenntuðu þjóðfélagi, og hluti af því er að halda úti (tiltölulega) óháðu ríkissjónvarpi. Sjónvarpsstöð sem þarf ekki að reiða sig á endalausar auglýsingatekjur og auglýsingahlé á sjö mínútna fresti, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að biðja um fjárframlög eða undirskriftir á lista þegar harðnar í ári, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að skila hagnaði.

Ég skal skrifa undir það að RÚV mætti slappa aðeins af í auglýsingageiranum og gera betur úr því fé sem það hefur. En ef þú ætlar að reyna að segja mér að fyrirtækið okkar, sem við rekum og við höldum gangandi, sé að fara illa með okkur þegar það kaupir efni sem okkur langar að horfa á, þá ert þú fífl og hálfviti. Hver sem þú ert.

Vil ég áfram hafa aðgang að ókeypis sjónvarpsstöð hér á landi? Já og nei.

Ef þú átt við sjónvarpsstöð sem metnað og þor í íslenskri dagskrárgerð, og innkaupum á erlendu efni, í staðinn fyrir að drekka endalaust sama skólpið úr rennum bandarískra auglýsingastöðva og spýta því síðan á skjáinn minn? Já takk.

En ef þú átt við sjónvarpsstöð sem leggur meira uppúr því að vera í gangi allan daginn alla daga heldur en að leggja út fyrir einhverju sem mann langar í alvörunni til að sjá; sem sýnir auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar..? Nei takk.

Það má vera að Skjár einn hafi nýslegið einhver áhorfendamet, mér dettur þá helst í hug að það séu allir þessir glænýju atvinnuleysingjar, þeir sem sitja fastir yfir sjónvarpinu á meðan ekkert er í gangi. Ég gleðst síður en svo yfir því að nokkur maður eða kona skuli missa vinnuna þegar Skjár einn kveður, en þau eru samt sem áður dropi í hafið. Og fyrir mitt leyti segi ég vertu bless Skjár einn. Þú varst stöðin sem hægt var að skipta á þegar ekkert var að gerast á RÚV, en veistu ég finn mér eitthvað annað að gera.

-b.

Engin ummæli: