23 október 2008

Herra spandexgalli

Ég las The Amazing Remarkable Monsieur Leotard í gær. Þetta er falleg bók, það er ýmislegt að gerast á þessum síðum, en það er nokkuð augljóst að Campbell hefur engan áhuga á hefðbundnu plotti. Nema væri þá and-plotti? Bókin inniheldur litríkar glefsur úr miklu stærri sögu, en það er enginn þráður sem liggur á milli, nema þá helst það að sömu persónurnar koma fyrir aftur og aftur. Atburðirnir sjálfir leiða ekki hvor í annan. Hér og þar eru síður úr dagbók Leotards, sem er illlæsileg sökum vatnsskemmda, en þar mætti e.t.v. finna nokkurskonar míníplott: Hvernig skemmdist dagbókin?

Þetta er eiginlega svo meðvitað að það er hálfóþægilegt. Campbell getur ekki stillt sig um að koma sjálfur fyrir í bókinni, á meðan Leotard dreymir; Abberline úr From Hell kemur fyrir á einum stað; hver einasti kafli heitir ,,næsti kafli" og svo framvegis.. Og heitasta ósk bæði Leotards og frænda hans er að ,,ekkert gerist", í næsta kafla eða í lífinu yfir höfuð. ,,May nothing occur." Þannig að farsæll endir þýðir ekkert annað en að allir deyja að lokum og ganga útí hvítt og atburðasnautt himnaríki. Hann nær að kreista úr þessu alveg þrusufín móment engu að síður, en sagan sjálf liggur á milli línanna.

Var ég að enda við að tengja þetta inní BA verkefnið mitt? Díses.

-b.

Engin ummæli: