Þannig er mál með vexti að í hvert skipti sem Víðir bregður sér af bæ, og við þykjumst vita að hann snúi ekki aftur í bráð, þá drögum við Sævar upp kortin okkar, setjum upp hattana og göngum á vit ævintýranna. Ég dreg kistilinn gamla undan rúminu mínu og gríp þaðan sverðið mitt Grúsnaut. Ég klæðist kóralbrynju forfeðra minna úr hafinu gleymda og dreg fangamark hins almáttuga á brjóst mitt - þríhyrnda stjörnu Kvalars, hámandi drottnara undirdjúpanna. Í hvert skipti hníg ég til jarðar undan ofboðslegum krafti meistara míns, sem dynur á mér einsog flóðbylgja, en stíg umsvifalaust á fætur aftur léttari en áður: um æðar mínar rennur ekki lengur syfjað blóð heldur blár og beinspýttur sjór, kaldur einsog dauðinn og saltur einsog ennþá meiri dauði.
Þegar ég geng fullbúinn inn í stofuna er Sævar, eða Síra Leotariids, einsog hann kýs að kalla sig í ævintýraham, gjarnan mættur í fullum skrúða. Hann klæðist síldartunnu sem hann hengir á axlirnar með akkeriskeðju, og oddmjóum hatti sem á stendur ,,Sævvvar".
Þarna stóðum við í gær, tilbúnir í allt, þegar rafmagnið fór af íbúðinni. ,,Satans!" hugsaði ég, ,,ég sem var ekki með batteríið í fartölvunni minni."
Eftir hetjulega viðureign við fjöltengi og innstungur dró Sævar þá ályktun að ein af tölvunum í forstofuskápnum væri með vesen. Við létum hana ótengda og lýstum yfir sigri: Rafmagnsdjöflarnir frá allskonar helvítum og svoleiðis höfðu verið reknir á brott! Nú upphófust mikil fagnaðarlæti, söngvar voru sungnir og tölvur endurræstar, fagrar meyjar fóru úr fötunum og skvettu vatni hvor á aðra; hitinn frá hinum nýtendruðu ljósum var óbærilegur hinu fullklædda veikara kyni. Gullbrúnir þrælar fengu að göfuga verkefni að dreifa rósablöðum fyrir fætur reiðskjóta okkar, þar sem við riðum aftur inn í stofuna, og í gleði sinni gleymdu þeir um stund að þeir væru hnepptir í ánauð. Gleðin var hamslaus og brann einsog sólin og dvaldi í hjörtum okkar, konunga Skaftahlíðarinnar, og hinna vitgrönnu þegna okkar, að eilífu.
...
Já og bæ ðe bæ, Víðir fékk inngöngu í breskan leiklistarskóla sem hann sótti um í núna fyrir skemmstu. Til hamingju með það Víðir.
-b.
2 ummæli:
Það stendur reyndar Sævwar, algengur misskilningur.
Æ, mín mistök.
Sorrí allir.
Skrifa ummæli