10 apríl 2008

Ógó vær blundur

Ég fékk mér lúr núna áðan, í sófanum uppi á kaffistofu. Þetta var einn af þessum lúrum maður. Hann var alveg snar. Ef ég gæti fengið alla mína hvíld í svona smálúrum á kaffistofum og þessháttar, þarsem fólk á næsta borði kjaftar og drekkur, þá myndi ég íhuga það vandlega.

Er óhugsandi að það starfi norn á N1-stöðinni á hringbraut? Hvort sem hún veit af því eður ei? Ég kom við á leiðinni í vinnuna, hálfsofandi og leiðinlegur, greip mér skyr.is drykk úr hillunni og missti hann í gólfið á meðan ég skoðaði samlokur. Nemahvað: dollan sprakk og bleik mjólkin vall útá gólfið og undir samlokuskápinn. Ég hóaði í afgreiðslumann sem hóaði í pólska skúringakonu.** Ég gekk að borðinu með annan skyrdall og sagði ,,ég skulda víst tvo svona, ég missti einn í gólfið.." og benti. ,,Þetta er víst einn af þessum dögum" sagði hún. ,,Já ætli það ekki" sagði ég, án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hvað við vorum að tala um.

Hafði allt gengið á afturfótunum á vaktinni hennar þangað til? Ég var ekki á ferðinni þarna fyrren uppúr átta, þetta fólk mætir í vinnuna um sjöleytið, jafnvel fyrr. Eða var hún bara að gera lítið úr þessu óhappi og sagði það fyrsta sem henni datt í hug, eitthvað sem við þekkjum úr sjónvarpi - ,,einn af þessum dögum". Þetta er varla íslenska.

Eða sá hún færi á svartagaldri og ýtti mér, ringluðum af svefni og neyð, yfir í hugarástand vonleysis? Þarna stendur hún og hefur áhrif á hugsanagang fólks daginn út og inn. Er þetta þrautæfð íþrótt eða óviljaverk? Er þetta tiltekna viðskiptarými iðandi svarthol drepsýni og dugleysis, sem gleypir kjark og þrek? Orð hennar grófu sig innúr óvarðri hlustinni og settust að í botni meðvitundarinnar. Galdrar eru orð, hvílík ómennska að sauma þeim inná mann þegar maður er varla með rænu til að slá þau frá sér.

Þannig að fyrir atbeina þessarar afgreiðslustúlku, og sökum þess að ég gleypti galdurinn hráan, var ég korteri á eftir sjálfum mér frameftir degi. Það var ekki fyrren ég rumskaði af þessum snargeðveika blundi núna áðan að mér fannst ég hafa vaknað í réttu rúmi. Þetta var áreynslulaus hvíld, draumsvefn undir mjúkum augnlokum þarsem ímyndunin heldur manni við efnið en gerist ekki svo ágeng að maður sjái eftir draumnum þegar hann hverfur útí etrið.

Ég hef oft lýst ofboðslega góðum bíómyndum og rosalega góðum bókum þannig að ég vildi óska þess að ég gæti lesið/séð þær aftur í fyrsta sinn. Á hinn bóginn vill maður ekki gleyma því sem maður hefur unun af, og frekari neysla krefst einhverrar meðvitundar um það sem á undan hefur komið, eitt verk byggir á eða útfrá öðru o.s.frv. En draumar eru algerlega útfrá manni sjálfum og þurfa enga helvítis kanónu til þess að halda manni við efnið. Og svo akkúrat þetta: maður gleymir þeim gjarnan jafnóðum, svo þeir verða aldrei gömul saga.

Hversu oft ætli mig hafi dreymt sama drauminn og alltaf fílað hann jafn vel?

**Lýsa þessi skrif mín þeirri afstöðu að pólskar skúringakonur séu neðarlega í virðingarstiga vormorgnanna? Það vill svo til að ég þekki þessa konu, eða svona einsog maður annars kynnist þeim sem mæta á vinnustaðinn manns og þrífa. Hún var alltaf mjög indæl og skemmtileg, mun almennilegri en margar aðrar sem ég hafði fengið á mína stöð.

Mikki var það reyndar líka, einhver sá þægilegasti samstarfsmaður sem ég hef haft. Þau töluðu saman á pólsku og hann keypti prins póló handa henni endrum og eins, sjarmörinn a tarna. (En ég held reyndar að hann hafi vitað til þess að hún var harðgift.) Hérna vinna engir Pólverjar. Er það miður?

-b.

2 ummæli:

Gunnar sagði...

Fyrst rætt var um Diskheim á þessum vettvangi ekki alls fyrir laungu, þá vil ég kasta þeirri tilgátu fram að nornin hafi beitt aðferðum Headology á þig.

Ítarefni: http://wiki.lspace.org/wiki/Headology

Björninn sagði...

Það er alls ekki ólíklegt. Og þá er alveg garanterað að hún hefur gert þetta að yfirlögðu ráði.

Djös nornin.