18 mars 2008

Stuttermar, Gondry og Kelly

Ég hafði þetta nokkrum sinnum á orði um helgina: teeshirt monthly er æðisleg hugmynd. Þú borgar pening og svo færðu einn stuttermabol á mánuði í hálft ár. Alltaf einhver ný hönnun. Fólk má senda inn uppástungur að myndum á bolina, og ef þín hönnun er valin færðu sex mánuði fría. Þetta virkar svo sjálfbært og einfalt. En það kostar 170 evrur, hálfa árið.

Og nú er evran í rúmum 120 krónum. Ríflega tuttuguþúsundkall fyrir sex stuttermaboli?

Kannske er ég óldskúl nirfill en mér finnst það kreisí. Fyrir utan skatta og rugl sem maður getur reiknað með í innflutningi. Ég skal borga þér fimmtánhundruðkall fyrir einn bol. Það er ekki einsog þú sért að borga einhverja geðveiki fyrir orginal hönnun?

En maður rausar ekki lengi um það. Leitt að góð hugmynd skuli ekki virka, en hva.

Hallur horfir á The Wire og fílar vel. Tveir niðri, allir aðrir eftir. Gott sjónvarp í hvern haus!

Helgin var einstaklega róleg, það var ágætt.. Eða, þetta var vinnuhelgi, svo það var ágætt að vera ekki að garfast í einhverju oná það. Við Davíð kíktum á Be Kind, Rewind á föstudagskvöld. Hún var þrusufín. Gondry er frekar spes.. Eternal Sunshine.. er æði en ég nennti einhvernvegin aldrei að tékka á Science of Sleep. Treilerinn sagði mér að hún væri hreinlega ekki málið. Human Nature er skemmtileg en það vantar eitthvað í hana, án þess að ég geti sagt hvað það er nákvæmlega.

(hér skemmi ég myndina fyrir þeim sem ekki hafa séð)

Be Kind, Rewind meikar ekkert sens. Eða, hún meikar ekkert bíó-sens. Strúktúrinn er laus í rásinni, persónurnar eru ósköp flatar og samböndin á milli þeirra eru hingað og þangað.. Þetta virðist alltsaman bara vera til staðar svo þessar æðislegu bíómynda-endurgerðarsenur fái að verða til. Ghostbusters-endurgerðin er tær snilld og langa takan seinna meir, þegar hann rennir í gegnum þónokkrar kvikmyndir í einni sveiflu, er einfaldlega Gondry Sena og segjum það með brosi í hjarta - því hvað á maður að kalla það annað?

En hann gefur þetta snemma til kynna, og gefur manni þannig tækifæri til að koma til móts við myndina, að ganga að hennar forsendum: Skammt inní myndina eru hetjurnar okkar að tala saman í myndbandaleigunni. Jack Black er í einhverri skrýtinni múnderingu og hann hefur litað andlitið svart, fyrir utan skáhallandi krosslínur á andlitinu, þarsem glittir í húðina. Hann réttir Mos Def svipaðan galla og þeir leggja í'ann. Þegar þeir þurfa síðan að fela sig fyrir löggunni, þegar á hólminn er komið, kemur í ljós að gallarnir og andlitsmálningin leyfa þeim að falla inní umhverfið akkúrat á þeim tiltekna stað og úr því sjónarhorni sem við sjáum (og löggan væntanlega líka?) Eftir að löggan er farinn hættir Mos Def við alltsaman og skilur Jack Black eftir við girðinguna.

Þannig að: Það þýðir ekkert fyrir okkur að spyrja afhverju Jack Black sérhannaði búningana til að falla inní umhverfi girðingarinnar, og málaði andlitið þannig að járngrindin skýlir línunum sem hann skilur eftir ómálaðar. Hann gat ekki reiknað með því að þeir yrðu næstum gripnir í þessari stellingu á þessum stað í girðingunni, en augnablikið, þetta tiltekna skot í myndinni, krefst þess.

Að sama skapi er engin þörf á því að Mos Def komi með honum, því hann fer aftur tilbaka áður en nokkuð kemur fyrir, en það var svo miklu flottara fyrir augnablikið að hafa hann þarna líka, svo þeir hverfi báðir sjónum, hvor sínum megin við girðinguna. Eftir það má hann fara aftur heim, senan sem við áttum að sjá er komin til skila.

Þannig að ef maður hlær að þessari senu án þess að velta sér uppúr því hvaðan hún kemur og hvert hún leiðir þá ætti maður að geta skemmt sér yfir restinni af myndinni, sem gerir aldrei ráð fyrir öðru. Rétt einsog allir viðskiptavinirnir halda áfram að horfa á endurgerðirnar, eða skemmta sér yfir myndinni um Fats, leggja jafnvel til efni og vinnu við gerð myndarinnar, jafnvel þótt þeir viti að hún sé ekki ,,sönn".

Plottið í myndinni er ekki uppá marga fiska en hápunkturinn kemur ekki útfrá togstreitu á milli tveggja persóna, eða milli húseiganda og bæjaryfirvalda heldur úr einlægri hrifningu íbúanna í hverfinu á bíómyndinni sem félagarnir gera. Það standa allir upp og klappa vegna þess að augnablikið hrífur þá, og ef við áhorfendur gátum skemmt okkur yfir myndinni fram að því þá klöppum við með (þó ekki sé nema í huganum). Myndin sýnir okkur ekki hvað gerist í framhaldi af því, og þarf þessvegna ekki að láta okkur kaupa einhverskonar viðsnúning á byggingarframkvæmdum eða neitt slíkt.

Ég hugsa að þetta sé aðeins meira en það að 'forðast klisjurnar', þósvo það komi inní þetta. Kossinn sem verður að ásökunum um hommaskap og það að gamli skuli selja húsið án þess að nokkur kippi sér beint upp við það, þetta er - einsog endirinn - leið til að forðast eiginlegt klímax. Við fáum kossinn án þess að kaupa ástarsöguna, sigurinn og uppklappið án þess að krefjast þess að yfirvöldin bakki, hvortveggja vegna þess að það hefur ekki verið byggt undir þesskonar hápunkta og Gondry veit það fullvel. Hann spilar bara einstaklega vel úr því sem hann hefur.

Ég verð sífellt ánægðari með myndina eftir því sem ég hugsa meira um hana.

Það sama á reyndar við um Southland Tales, en fyrst var ég ekki viss um að það væri nokkuð varið í þá mynd. Síðan horfðum við á Donnie Darko í gær og svo beint áfram í Southland Tales og hún virkaði svei mér þá mun betur í annað skiptið - jafnvel þótt ég hafi ekki enst í að horfa á hana alla aftur.

Mig minnir að ég hafi sagt að hún væri 'gallað meistaraverk' án þess að vera meistaraverk. Hoj hoj. Hún er Misjöfn. En það er eitthvað við hana.. Sarah Michelle Gellar, klámstjarna og internet-raunveruleika-spjallþáttastjórnandi, á þessa línu hér:

You know what? I like to get fucked. I like to get fucked hard. But hey, you have to draw the line somewhere. I mean, violence is a big problem in our society today and I will not support it. That is the primary reason why I won't do anal.

Ég er almennt séð hlynntur stórkostlegum augnablikum.

-b.

Engin ummæli: