..fyrir viku sem er einn dagur á lengd og þarsem þriðjudagurinn virkar einsog mánudagur.
Ég flýg semsagt út til Kaupmannahafnar í fyrramálið og keyri þvínæst norður til Ölsremmu í Svíþjóð. Ég ætla að skilja tölvuna eftir en taka með mér eina tvær bækur. Ég tek líka með mér eitthvað til að gefa grey Svíunum. Ný-Svíunum. En allsekki mikinn farangur. Ég er að hugsa mér að kaupa nýja skó.
Eftir tæplega hundrað, eða rúmlega níutíu, daga flýg ég aftur til Kaupmannahafnar og tek þaðan lest til Hróarskeldu. Já vinir, nú eru ekki lengur rúmlega hundrað dagar heldur tæplega (!!) hundrað dagar. Tvær tölur, ekki þrjár. Sjibbí.
Og forsjálni mín fær meira klapp á bakið; miðinn er kominn í tæpar þrjátíuþúsund krónur íslenskar. Verða þetta kannske eintómir nær-skandinavar?
Síðan hefur komið upp sú hugmynd að lengja ferðina í annan endann. Það myndi kosta okkur tvöþúsundkall sýnist mér (fyrir utan aukið uppihald), dagarnir þarna á undan áætluðum brottfarardegi eru í níuþúsundkallinum, aðeins minna en pantaði miðinn. Þetta er eitthvað sem hægt væri að pæla í. Ef eitthvað er betra en vika í sól og bjór (sjö níu þrettán) þá er það tvær vikur í bjór og sól.
Ég drakk landa í fyrsta skipti í dálítinn tíma um helgina. Páskalanda? Það var samt í heimahúsi og í alvarlegum félagsskap. Hann var líka góður. Skömmu áður hafði ég borðað pekingönd** sem var ljúffeng. Og ég át svín og lamb í fermingu og rosa pottrétt á páskadag og meiri pottrétt, sem ég tók að heiman, í gær. Jeminn. Páskar.
Og svo skilaði ég skattskýrslunni minni núna áðan. Þessir dónar vilja taka skatt af Nordplus-styrknum mínum, sem mér þykir frekar óforskammað, en ég trúi varla að það fari í háan mínus. Aukinheldur fékk ég gefins bíl á árinu, en það er víst ekki hægt að skrá bíleign sem ,,núll krónur" að andvirði, þannig að ég skrifaði 10.000 kall. Ég hugsa að hann sé ekki mikið meira virði, fyrst ég er neyddur til að koma honum á pappír.
Þetta er ákveðinn galli við Kerfið: Ef ég fæ gjöf þá verð ég að skrá hana sem eign, en Kerfið skilur ekki eignir sem kostuðu mig ekki krónu. Er þetta virkilega besta hugsanlega fyrirkomulagið, fyrir utan öll þau önnur sem reynd hafa verið?
Höfum við reynt önnur?
Ooooog Bragi Ólafsson kom í upplestur til mín áðan. Ég er að bíða eftir Bjarna Bjarnasyni einsog er. Bragi var fljótur að þessu, þetta gekk hratt og vel. Fínir textar sem hann valdi. Þetta kemur uppá bókmenntavefinn innan skamms. Kannske ég fari í það núna að klippa þetta niður, frekar en að rausa úr mér hausnum á þessa hvítu síðu?
-b.
**Það er Peking-önd, ekki pekin-gönd.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli