05 janúar 2006

Það kom að því (og margt fleira)

Verandi gullvildarvinur Íslandsbanka, með nýtt gullkort og allthvaðeina, get ég ekki fengið debetkort með síhringingu. Man ekki hvort ég var þegar búinn að reifa þetta hér.. Þetta var útskýrt fyrir mér í bankanum um daginn sko. Síhringikort eru gefin kónum sem bankinn treystir ekki - fólki sem eyðir um efni fram og á síðan ekki pening til að borga skuldina sína.

Gullvildarfólk - einsog ég - eru hinsvegar góðvinir bankans, sem eiga ekki að geta stigið feilspor. Þannig að síhringi-gullkort er bara einhver ikkí oxímoron.

Jæja. Núna áðan gekk ég inná Prikið í fyrsta skipti á nýju ári og pantaði mér það venjulega. Fékk tvisvar höfnun á kortið, tékkaði á netbankanum og þá var ég kominn yfir heimild. Ekki lengi gert. Þá hafði VISA skuldfærslan komið inn í gær, mér að óvörum. Hefði ég vitað það í gær, að ég ætti bara þúsara á kortinu, þá hefði ég náttúrulega ekki keypt mér þessar bévuðu DVD myndir.

(Ó, kaldhæðni örlaganna! VISA skuldin var einmitt fyrir DVD myndum.)

En ég keypti mér semsagt hræódýrar myndir í Elkó í gær. Tveggja diska útgáfu af Unforgiven (þó ekki í svona pappakassa einsog eintakið hans Más), The Thin Red Line og einhverja spes útgáfu Batman, fyrstu myndinni. Tæpur tvöþúsund og áttahundruð kall. Textinn utaná kassanum er á norsku eða sænsku eða eitthvað, en það skiptir ekki öllu.

Mér þótti samt gaman að heyra samtal tveggja starfsmanna á staðnum, þarsem þeir stóðu við DVD rekkana að spá í hvað þeir ættu að kaupa inn. Annar var sko með allt á hreinu. Roxanne er, samkvæmt honum, besta myndin sem Steve Martin hefur gert. Ég hló inní mér. Sá titill hlýtur að veitast Cheaper by the Dozen 2 (bara af sýnishornum að dæma).

Það var nú samt gaman að sjá karlinn í Leno um daginn. Hann hefur greinilega húmor fyrir því sem hann verður að láta frá sér til að eiga salt í grautinn, bensín í lúxuskerrurnar og nýtt parket í villuna. Þó held ég að hann sé alveg að fíla sjálfan sig í Bleika pardusnum, þannig að hann er kannske ekki með þetta alveg á hreinu.

Já, ég segi það bara hérmeð. Þetta er léleg mynd. Hvenær svo sem hún kemur út.

.....

Hún mamma gaf mér skóhorn í gær. Takk mamma mín. Þarfaþing. Nú verða gestir mínir sko ánægðir, það get ég sagt ykkur.
Allavega einn þeirra.

En ég var ofsaþreyttur þegar ég kom loksins heim. Sofnaði stuttu eftir að ég fleygði inn þarsíðasta pósti, og vaknaði (glaðvaknaði, liggur mér við að segja) klukkan hálfþrjú í nótt. Ég er farinn að halda að dagurinn eigi bara ekkert við mig; að líkamann langi hreinlega til að vaka um næturnar og beiti ýmsum brögðum til þess. Hefði ég sofnað klukkan ellefu þá hefði ég sko sannarlega ekki vaknað klukkan sjö, eldhress og sprækur.

En þetta var allt í lagi. Ég dólaði og beið eftir því að fara í fyrsta tímann. Sem átti að vera klukkan korter yfir átta.

Auðvitað var enginn tími í dag. Ég veit ekki hvaða hundingi og flón hefur logið því að mér, en sá hefur nú gert mér lítinn óleik en um leið stærri góðleik. Skólinn hefst ekki fyrren eftir fjóra daga. Ég fékk bara ágætis gálgafrest fyrir hans tilstuðlan.
Tilbúinn frest, þannig séð jú. En einsog skáldið sagði: ,,Everybody makes their own fun. If you don't make it yourself it's not fun - it's entertainment."

Þannig að nú er bara gaman í rigningunni.

.....

Já eitt enn.

Þegar ég fékk einkunnina mína fyrir Foucault áfangann þá var það í tveimur pökkum. Annarsvegar fyrir málstofuna sjálfa og hinsvegar fyrir verkefni í málstofunni. Því þetta eru jú faktískt séð tveir aðskildir kúrsar. En þá stóð eftir í ókláruðu hjá mér námskeið sem hét ,,Rannsóknarverkefni í Málstofu A" (en þá hafði ég þegar fengið einkunn fyrir ,,Verkefni í Málstofu A").

Ég fór niðrí nemendaskrá í dag og fékk ráðið úr þessu. Þá er ,,verkefnið" sem ég fékk einkunn fyrir kúrs í BA náminu, en ,,rannsóknarverkefnið" sem sat eftir kúrs í MA náminu. Ég var skráður í það síðarnefnda, en einkunni mín haðfi verið færð í það fyrrnefnda, þó svo að ég hafi aldrei verið skráður í það..

En þetta skal lagað. Bara hvað og hvenær.

(Málið er sko að bæði masters- og BA nemar sátu þennan kúrs, en einkunnin er síðan metin útfrá því hversu langt viðkomandi er kominn í námi. Þ.e.a.s. það er búist við betri / ítarlegri / eitthvað svoleiðis verkefnum eða ritgerðum frá mastersnemum heldur en BA nemum.)

Bleargghh. Þetta er alltof mikið raus. En ég er að skjalfesta þetta sjáðu. Ef einhver las þetta í raun og veru þá má sá hinn sami / sú hin sama skilja eftir nafn í ,,Viðbragðs"-skúffunni og ég skal gefa viðkomandi hressileg verðlaun.

-b.

2 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Fökk...ég las þetta allt saman. Hvað fæ ég?

Björninn sagði...

Í alvörunni? Það er bilun.

En ókei, þú fææææærð.. uu.. Hei ókei! Þú mátt velja um (a) Bjór og skot eða (b) Ritið um dauðann.

(Það sama og Áslaug fékk.. ekki spyrja mig afhverju ég á svona mörg aukaeintök.)