18 nóvember 2005

Matur og myndir

Ég vaknaði fyrir allar aldir í morgun. 08:20 held ég. Og aldeilis ekki af sjálfsdáðum, ónei.

Það er hugvísindaþing í dag, og það eina sem ég var spenntur fyrir var á bilinu hálfníu til hálfellefu. Þannig að ég reif mig á lappir eftir rúmlega þriggja tíma svefn og var samferða Inga Birni niðri Aðalbyggingu. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvað verður úr þessum DV pælingum hans Guðna, en reyndar voru allir fyrirlesararnir að kynna nokkuð skemmtileg efni.

Á leiðinni heim kom ég við í 10-11 hérna niðri og kiptti með mér mjólkurfernu. Jólamjólkin er komin í búðir, veröld sé lof. Ég var samt ekki alveg nógu sáttur við sendinguna sem þau hafa fengið hérna í hús, þar sem þessi svokallaða ,,jóla"-mjólk rennur út heilum mánuði fyrir aðfangadag. Sjá:



Súr og kekkjótt mjólk er alls ekki líkleg til að koma mér í jólaskapið, skal ég segja ykkur.

-Annars er þetta, svo ég komi því nú að, aðalkosturinn sem ég sé við að eiga myndavél. Tækifærismyndir eru góðar og skemmtilegar og allt það, en þarsem maður er jú með þetta skrásetningarbrjálæði endalaust, þá er þessi kostur mikill haukur í horni fyrir karlinn. Ef ég rek augun í eitthvað sem mig langar til að muna eða eiga eða deila þá get ég bara tekið mynd af því.
Ég get ekki gert það upp við mig hvort myndaflúrrían sem maður sér á ákveðnum heima- og blóksíðum er ákveðið framhald af þessu eða hreinlega allt önnur skepna.. Getur verið að það sé skrásetningarþörf sem fær fólk til að taka myndir af sjálfu sér í mismunandi múnderingum svo að segja daglega, eða mynd eftir mynd eftir mynd af sömu fjallasýninni útum gluggann hjá sér?

Síðan ég kláraði síðustu efnisgrein er ég búinn að matreiða (og borða) hádegismatinn minn: tvær samlokur. Þær eru hér:



Mikið er þetta girnileg mynd.

-b.

Engin ummæli: