Hvernig ætli það virki að smella svona titli ofaná póstinn? Ég fæ víst að komast að því.
En já, þetta er orðinn dálítill tími og þó sér ekki fyrir endann á honum. Ég veit ekki einusinni hvort mig langar til að halda áfram skrifum af þessum toga eftir að ég hef sagt skilið við bandið, en það verður að koma í ljós. Vandamálið tengist auðvitað eðli skrifanna, þ.e.a.s. hvers vegna fyrri skrifin áttu sér stað til að byrja með. Það hafði sína kosti að vera með marga lesendur, en um leið var það þessi óhóflegi lesendafjöldi sem latti mig til skrifa. Hvað getur maður sagt við hundrað manns í einu? A.m.k. ekki það sama og maður segir fimm manneskjum.. Og þó maður reyni að hugsa ekki um það verður varla hjá því komist ef maður er að pæla í þessu formi á annað borð.
Kostirnir voru nefnilega þeir að allir þessir lesendur gáfu manni (ef til vill falska) tilfinningu fyrir því að hægt væri að koma einhverju áleiðis, frekar en ef maður hnippti í fimm vini sína eða svo. Þarna var komið eitthvað meira en hnútur í neti.. meira einsog nokkrir rammar af því. Þú gengur ekki inní eldhúsið heima hjá þér og lýsir því yfir að þig vanti að fá lánaða sleggju, eða að það sé partí á föstudaginn. Maður þarf að koma skilaboðunum til þeirra sem þeim er beint að, hvort sem það er í smáum skömmtum einsog símtölum eða bréfasendingum, eða stórum hollum einsog tilkynningu á vefsíðu. Sem fólk les.
Þannig að stóri vettvangurinn er sannarlega til einhvers nothæfur (þó svo að í reynd séu notin ekki nærri því eins mikil og maður skyldi vona), en um leið er hann takmarkandi. Það er vissulega ekkert sem hindrar mann í að svissa á milli eftir því sem hentar, en er maður þá ekki farinn að leggja of mikla vinnu í eitthvað sem ætti, eðli síns vegna, að vera auðvelt og fljótlegt?
Það er hægt að láta móðan mása um þetta fram og aftur. Held ég. En þetta snýst um fjölda lesenda. Og þá á ég við fjölda þeirra sem skrifarinn heldur eða gerir sér grein fyrir að lesi skrifin. Hvenær verður fjöldinn mikill og hvenær of mikill? Það verður sjálfsagt hver og einn að leggja mat á það fyrir sig. Ég held að vöntunin á sjáanlegum lesendum geti verið óþægileg þegar kúplað er niður á þennan hátt, en um leið frelsandi.
Hverjum er ekki sama hvað þú hefur að segja hvort eð er?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli