Það hefur komið fyrir tvisvar, og núna í þriðja skiptið, síðan ég hætti að drekka kaffi, að mig hefur langað í kaffibolla. Ég sá mynd af kaffibolla á skrifborði og ég fékk bragðið af rjúkandi kaffi með mjólk uppí mig (svona einsog þegar maður hugsar um bragðið af rosa sterkum brjóssigg og fær sting í tunguna). Núna ágerist það bara. Málið er að ég á nóg af kaffi hérna heima, og græjurnar til að búa það til (allt reddí fyrir gestina sko), en langar mig í raun og veru til að drekka kaffi?
Það er bara ein leið til að komast að því.
..en það þýðir samt ekki að ég þurfi að fara þá leið. Stundum er betur heima setið en af stað farið.
Á hinn bóginn gæti þetta verið eintóm vitleysa í mér. Afhverju ætti ég ekki að geta drukkið kaffi einsog annað fólk? Ég hætti að drekka það, hef ekki bragðað það síðan, og hef þannig sannað fyrir sjálfum mér að ég er ekki háður því (ef það var einhverntíman til umræðu)..
Þetta er reyndar svolítið flókið dæmi, að vera háður einhverju eða ekki. Ég er viss um að einhver myndi telja mig alkahólista, en ég hef nokkuð oft tekið mér pásu í þeim efnum án þess að líða illa (að öðru leyti en því að mér hefur leiðst að hanga edrú með fylliríngjum og fara snemma heim). Kannske hefur það ekki nóg að segja, ég treysti mér ekki til að fullyrða um neitt..
Víst var mér farið að líða illa af kaffidrykkju á sínum tíma, en hluti af ástæðunni fyrir því að ég hætti bara var sá að ég vildi gá hvort það væri eitthvað vandamál fyrir mig. Og það var það alls ekki. Það var svipað þegar ég hætti að éta sælgæti á sínum tíma (sem ég hef reyndar læðst aðeins í aftur uppá síðkastið, bölvaður), en ég saknaði þess ekki heldur.
En það vekur upp spurningar um almennt viðhorf manns til umhverfisins. Ef ég get sleppt takinu af svona löguðu án þess að pæla mikið í því, segir það þá eitthvað um samband mitt við aðra hluti og jafnvel fólkið í kringum mig?
Ég ætla alls ekki að halda því fram að ég sé laus við alla fíkn (síður en svo), en svoleiðis manneskja hlýtur að skynja heiminn á annan hátt en bræður hennar. Og varla er þetta annaðhvort-eða, við skyldum ætla að fólk sé á einhverjum skala þegar kemur að þessu einsog öðru.
Kannske er þetta bara ég að leita að staðfestingu á því að ég sé geðveikur þannig að ég geti hætt að haga mér einsog maður. Það sem mér líkar verst í eigin fari er það hversu auðvelt ég á með að réttlæta eigin vitleysu fyrir sjálfum mér.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli