10 maí 2017

Þetta virkar ekki lengur, það heyrist ekkert

Ég fór til Berlínar um daginn.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að vera kominn ofaní miðjuna á einhverju kerfi sem ég hef aldrei snert áður, sem þarfnast bygginga sem eru stærri en mínar byggingar, sem þarfnast mannfjölda sem er stærri en minn mannfjöldi, sem byrjaði áður en mitt byrjaði, sem hefur gert betur en ég. Hún er í hálsinum, brjóstinu og bakvið augun.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga uppá mannvirki sem var þar fyrir hundrað árum, og svo ekki fyrir fimmtíu árum, og er þar svo aftur núna; halla sér yfir handriðið, lesa nöfnin sem eru greipt í koparinn og ímynda sér á nokkurra sekúndna fresti að gæinn fyrir aftan mig grípi um ökklana á mér og vippi mér yfir, hvers vegna ég veit það ekki. Hún er í lærunum.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga uppúr neðanjarðarlestarstöð nokkru norðar eftir myrkur og vera allt í einu einn af þremur eða fjórum á ferli, gangan tekur aðeins lengri tíma en á kortinu og maður man ekki alveg hvað rak mann þangað fyrr en kemur fyrir hornið og þá eru allir mættir þangað á undan manni. Hún er á enninu. Og í maganum.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga einhver helvítis ósköp til að skoða bara meira, með bakpoka fullan af drasli sem maður tekur aldrei upp, og ágerist og rénar ekki fyrren á bekk á litlu torgi í garði sem lítur út fyrir að halda áfram útí hið óendanlega, kortið segir að þarna inni séu styttur sem heiti nöfnum en ef maður fer út í það kemst maður aldrei að sjá það sem er hinumegin við götuna. Hún er í kálfunum, iljunum, mjóbakinu.

Tilfinning sem fylgir því að sitja á bauta sem er hluti af minnismerki um afskaplega háa tölu af dauðum einstaklingum, skella uppúr yfir einhverju sem Kurt Vonnegut sagði í fréttaviðtali um bandaríska pólitík; ganga ofaní þetta sama minnismerki stuttu áður, hægt og þétt en allt í einu sér maður ekkert nema línustrikaða ganga plús og mínus, og þarna bregður fólki fyrir og svo hverfur það fyrir hornið; lesa síðar að sumir bautanna halli og það sé hluti af verkinu, en að sprungurnar sem eru farnar að myndast á nokkrum þeirra séu það ekki, og að auðvitað hafi þurft að þrífa hakakrossa af þeim, og að til þess hafi þeir verið húðaðir með sérstöku efni, og að fyrirtækið sem útvegaði efnið sé á einhvern hátt tengt efnaframleiðslu fyrir þriðja ríkið í denn. Hún er ekki í líkamanum, hún er annarstaðar.

-b.

Engin ummæli: