12 maí 2017

Bjórpunktar úr Berlínarferð

Ég var semsagt í Berlín fimmtudag til mánudags, 4.-8. maí síðastliðinn. Mig langar að punkta aðeins hjá mér um bjórleiðangra, því maður er fljótur að gleyma. En fyrst,

Formáli


Þetta var kynnisferð með vinnunni, við vorum að skoða söfn og fleira hér og þar í borginni. Þar var fátt sem kom á óvart, bókasöfnin þar eru að hugsa á svipuðum línum og við. En söfnin þar eru betur sótt. Það var allskonar dótarí sem mér fannst gaman að sjá og pæla í hvernig mætti færa yfir á það sem við gerum, en ég nenni ekki að skrifa um það hér.

Nema eitt: Við fórum á nýtt bókasafn Humboldt háskólans, sem var stórglæsilegt. Háskólinn sjálfur er víst ekki svo gamall á þeirra mælikvarða, ég man ekki hvort hann sagði 200 eða 300 ára. Bókasafnið hafði þróast úr því að vera læst herbergi hér og þar í hinum ýmsu deildum yfir í stærri einingar, og nú hafa þau opnað þetta stórglæsilega safn. Sem er öllum opið, ekki bara háskólanemum (hvað þá bara nemum þessa tiltekna háskóla) en það er þó aldurstakmark. Gestafjöldinn er hálfgert vandamál, safnið er aðlaðandi staður.

Og það var aðallega það sem ég greip á meðan við vorum þar, ég fékk þessa Bókhlöðutilfinningu, nema aðeins ýktari, þar sem maður finnur að það er búið að hanna rýmið fyrir lestur og lærdóm. Bókakosturinn var alls ekki áberandi; gestirnir gátu pantað bækur og nálgast þær auðveldlega en rýmið miðaðist ekki við bókahillur heldur vinnusvæði. Mig langaði pínu bara til að vera þar eftir.

En!

Ég gerði það ekki vegna þess að þegar heimsóknatörninni lauk vildi ég drekka bjór.

Ég var með nokkra staði punktaða á korti. Ég sótti maps.me appið til að eiga kort offlæn (ég hef síðar frétt að google maps bjóði uppá niðurhal -- en ekki hvað! -- og hefði sennilega kosið það frekar, geri það næst). Punktaði hina og þessa staði niður og sá þannig út hverskonar túra ég gæti farið þennan og hinn daginn.

Fimmtudagur


Flaschbierschop við Fehrbelliner Strasse


Ég kíkti þar vegna þess að það var tiltölulega stutt frá hótelinu, ég var of þreyttur til að setjast inná bar og ætlaði að kaupa einn eða tvo til að tékka á, koma svo aftur seinna til að versla ef það væri varið í staðinn.

Það var varið í staðinn en ég kom auðvitað aldrei þangað aftur. Það var of mikið að sjá og gera.

Þetta var endurtekning á Amsterdam að því leyti, þar var búð sem ég heimsótti fyrsta kvöldið og náði svo aldrei að sækja aftur, svo ég fór heim með blint bland í poka.

En semsagt, þessi staður var flottur. Lítil hola en alls ekki gamaldags, bjór uppum alla veggi, nokkrir kælar, ekkert flokkunarkerfi sem ég kom auga á -- þó það hljóti að hafa verið til staðar. Þarna var líka hægt að kaupa bjórtengdan snafs og þessháttar, falleg kraft-framleiðsla sem ég hefði skoðað betur hefði ég komið aftur. Þeir voru með amk. einn kassa af Einstök, white ale ef ég man rétt? (Það var eini íslenski bjórinn sem ég sá bregða fyrir þarna úti.)

Ég keypti nokkrar flöskur af lókal bjór, drakk bara eina þeirra, einhvern kaffibættan pale ale sem var ekki neitt neitt. Það var böns af spennandi flöskum þarna en ég semsagt „geymdi“ að skoða þær betur og fór sem fór.

Ég held ég tali ekki um einstaka bjóra, vísa frekar í untappd-prófílinn þar sem þetta er meira og minna loggað. Netið var svona og svona.

Föstudagur


Mikkeller bar við Torstrasse


Fræðslurúnturinn endaði þar rétt hjá og við Ragna kíktum í tvo. Annars hefði ég nú sennilega ekki leitað hann uppi, það er stutt að fara á Hverfisgötuna. Barinn var einsog við mátti búast: settlegt innvols, góð þjónusta, góður bjór í dýrari kantinum m/v Berlín.

Það var ekki mikið að gera þarna um sexleytið, ég kom aftur þar seinna um kvöldið og þá var þéttsetinn bekkurinn.

Brewdog við Rosenthaler Platz


Þarna fór ég um kvöldið, ég skrifaði um þá tilfinningu hér í gær. Hverfið var frekar einmanalegt, komið rökkur og ég var pínu óviss um hvert ég væri að fara. En þegar ég kom fyrir hornið og sá barinn þá var hann einsog ljósapera sem flugurnar suðuðu í kringum. Þar voru allir. Ég fékk sæti á bekk fyrir framan staðinn, pantaði nokkra bjóra og pítsu, sem var góð.

Þeir voru með bjórkæli við enda barsins, ég spurði, verandi Íslendingur, hvort ég mætti nokkuð kaupa bjór til að taka með útaf staðnum. Barþjónninn benti mér á að það væru tvö verð við hverja dós og hverja flösku: Það lægra ef maður tæki með sér heim, það hærra ef maður vildi drekka á staðnum. Þá lagðist semsagt oná smávegis gjald. Corking fee. Ég tók með mér þrjú stykki, þar á meðal eina flösku af ítölskum RIS sem ég á eftir að opna.

Laugardagur


BRLO Brewhouse við Schönenberger Strasse


Óheppni: staðurinn sjálfur var lokaður fyrir einkasamkvæmi.

Heppni: bjórgarðurinn fyrir aftan var opinn og það var fínasta veður.

Óheppni: þeir seldu bara lítinn hluta bjóra sinna útí garð, þetta mest normal dót og bara sína framleiðslu.

En semsagt, þessi staður var frekar stór, leit út einsog stafli af flutningagámum. Ég kom útúr lestarstoppinu og þar var flennistór borði sem auglýsti staðinn, inngangurinn var svo handan við hornið. Ég hafði þrammað víða um borgina, kom þarna seinnipartinn og það var ósköp gott að geta sest niður í nokkra.

Bjórarnir voru fínir á heildina litið. Það var alltaf smá svona röff eftirbragð sem ég tengi við pilsnermalt? Ekkert sælgæti sem ég myndi leita í aftur, en vel brúklegt fyrir nokkra tíma í bjórgarði -- og nokkrum herðum og höfðum skárra en eintómur pilsner, en það var sosum aldrei á dagskrá.

Vagabund Brauerei við Antwerpener strasse


Lítill staður í Wedding sem gerir sinn eigin bjór. Þeir voru með lítinn kæli fullan af allskonar fínu dóti, engu sem kom á óvart en gott að geta gripið til. Kranalistinn ekki langur en það þarf heldur ekki ef maður vill sama bjórinn aftur.

Þeir gera góðan bjór, staðurinn er þægilegur, góð tónlist, fínt andrúmsloft. Þjónustan var ekki uppá marga fiska svo ég myndi ekki endilega mæla með honum fyrir það sem er kallað mixed company. Aðspurðir hvort þeir ættu eitthvað óáfengt fyrir góðtemplara buðu þeir uppá gvendarbrunnvatn. Jæja.

Ég myndi fara þangað aftur einn míns liðs, RIS-inn var með þeim bestu sem ég smakkaði í ferðinni.

Sunnudagur


Muted Horn við Flughafenstrasse


Ég spurði ekki hvort nafnið (og meðfylgjandi lógó) væri innblásið af The Crying of Lot 49, því ef það væri ekki myndi ég gráta. Þetta var annars of gott. Fallegur staður, opinn, góð útisæti, góð þjónusta, böns af borðspilum og annarskonar spilum fyrir gesti, og langur og flottur kranalisti. Smakkbakkarnir voru á góðu verði, Boneyard hafði tekið yfir kranana hjá þeim kvöldið áður eða þaráður svo það var smá nammi frá þeim enn á krana, en allt var gott.

Þarna var ég búinn að gefa seinni viðkomu í Flaschbierschop á bátinn, en það var önnur sjoppa öllu nær sem ég vildi heimsækja á leið niðrá hótel. En ég ílengdist og hætti við það. Keypti þess í stað eina fimm bjóra á barnum og á fjóra til góða heima í kæli. Það kom beygla á tappann á einum þeirra á leiðinni heim, svo við Nanna drukkum hann kvöldið sem ég kom heim.

Það voru svona tveir staðir enn sem ég hefði endilega viljað heimsækja (Hopfenreich, Drink Drunk Berlin), og svo nokkrir í viðbót sem ég hefði bætt á listann ef ég hefði haft tíma til (Kaschk, Monterey). En sá tími fór í skoðunarferðir, túristun, örstuttan verslunarleiðangur og svefn.

Ég þarf bara að fara aftur.

-b.

Engin ummæli: