20 október 2017

Það sem hvarf fyrir stuttu síðan

Tilhugsunin um að festast, fagurfræðilega, hugmyndafræðilega, í unglingsárunum er hrikaleg og óumflýjanleg. Ég er að teygja unglingsárin rétt uppfyrir tvítugt hérna held ég.

Ég man ekki alltaf hver ég var þegar ég skrifaði það sem ég skrifaði hér á þessa síðu. En ókunnugleikinn er aldrei meiri en þegar facebook birtir mér "minningar" frá því fyrir fjórum eða fimm árum síðan. Topp tíu Bítlalög? Hvaða maður er þetta? Var sú tíð að ég las Kjarnann í vikulegri útgáfu? Þessi nýliðna framtíð er ekki gleymd einsog dagar sem mokast yfir, hún er gleymd einsog draumur.

Á hinn bóginn: þetta eru einmitt ekki minningar heldur það sem annars mígur niður grindina.

...

Ég er að ljúka við Sæmd eftir Guðmund Andra og mér leiðist hún að mestu. Megnið af bókinni gerist í höfðinu á þremur aðalpersónum og ég fletti og fletti og ekkert gerist. Gröndal fleytir kerlingar á minningum sem gætu orðið að sögu ef hann dveldi nú við þær að einhverju ráði, en í staðinn glitrar allt í fallegum tilvísunum í textana sem Gröndal skrifaði sjálfur, ekki best-of en meira svona sampla-súpa. Í umfjöllun um bókina talaði vera um fanfiction minnir mig, það er ekki fjarri lagi.

Á einum stað rifjar Björn Olsen upp grein sem hann skrifaði gegn kaupfélagi fyrir norðan. Hann er að tala við vini sína en í stað þess að segja þeim það sem honum finnst, þá fer hann með útdrátt úr grein sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum, á einum stað vitnar hann í sjálfan sig orðrétt.

Ég fæ það á tilfinninguna að hér sé of mikil virðing borin fyrir heimildunum, að þetta sé trailer fyrir Dægradvöl og önnur samtíða skrif.

Reyndar er þessi kafli þar sem Olsen vitnar í sjálfan sig með því áhugaverðasta sem birtist í bókinni. Þar dúkkar upp draugamynd af Kaupfélagi Skagfirðinga, en þá sem kímeru gyðinga-okurlánara og einokunarverslunar. Olsen sér tilraunir til framfara í hinu neikvæðasta ljósi sem hann þekkir, og kannske ekki að ósekju. Einsog segir áður í bókinni þá sjá Olsen og samkennarar hans (nema Gröndal, naturligvis) illskuna sem náttúrulögmál. Hvenær verður lánastarfsemi okurlánastarfsemi? Hvenær verður innkaupasamfélag til þess að útiloka alla aðra verslun á svæðinu?

Olsen sér okurlánastarfsemi ekki nema í formi samtaka gyðinga, kaupfélagið verður þá að bænahúsi sem hann vill brjóta niður svo ekki standi steinn yfir steini. Öll áherslan á aga og þjóðveldi tekur þá beina línu í nasisma framtíðarinnar. Það er hálfstuðandi hvernig bókin sem annars fer frekar mjúkum höndum um Olsen, hann sem þykir vænt um son Slembis, hann sem spilar á gítar og yrkir og talar á háfleygum nótum um guð og fegurðina, hvernig hún sýnir að blind staðfesta, húmorsleysi og hefnigirni leiðir fólk í allra verstu átt.

...

Við Nanna erum að fara í leikhús í kvöld. Sjá Tímaþjófinn.

...

Ég glugga í bækurnar sem eru að detta inn og jesús góður hvað þetta virkar allt einsog sama sullið. Veröld dásemdar lof að ég þarf ekki að færa einhverja konkret skoðun í letur.

-b.

Engin ummæli: