01 janúar 2017

Best ársins 2016

Ólíkt því sem verið hefur í seinni tíð þá ætla ég að hefja þessi árslistaskrif áður en árið rennur út. Ekki svo löngu áður, nú er 29. desember.. en vonandi lýk ég þessu fyrir mars á næsta ári. [Meira og minna. Ég geymdi 99% klárað draft þar til í dag, 26. júní. Bæti við einni línu eða svo og birti núna.]

Ég var reyndar að renna yfir lista ársins 2015 og það kom mér á óvart hvað ég var skýr á köflum. Lýsingin á Gerplu er bara fín. Vel gert ég fyrir tæpu ári síðan!

Hvar byrjum við. Bækur?

BÆKUR

Ég hef trassað pappírs-lestrardagbókina mína en það kemur fyrir að ég muni eftir Goodreads. Ef ég renni yfir það sem ég hef skráð árið 2016 þá standa þessar uppúr:

Freedom eftir Jonathan Franzen

Geirmundar saga heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson

Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino, þýðandi Brynja Cortes Andrésdóttir

Það er sennilega ódýrt að segja að þær standi uppúr: á þessum góða Goodreads lista eru bara ein önnur skáldsaga og eitt smásagnasafn: Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson og Sofðu ást mín eftir Andra Snæ Magnason. Báðar eru mjög fínar. Þetta eru allt góðar bækur, enda lauk ég við þær allar; ég gæti sennilega talið upp nokkrar sem ég hóf og henti frá mér ef ég myndi þær. En hvernig sem á það er litið var þetta ekki mikið lestrarár.

Stefnuljós skilur einhvernveginn ekki jafn mikið eftir sig og aðrar bækur Hermanns. Sofðu ást mín kom mér talsvert á óvart. Ég hefði ekki búist við slæmu smásagnasafni frá Andra Snæ, ég á ekki við það. En það er eitthvað við bókina sem ég hefði ekki tengt við hann fyrirfram. Aðrir hafa talað um að hún sé persónuleg og innileg -- sem er rétt, en ég myndi frekar nota orðið berskjaldað. Og í öllum þessum tilfellum held ég að við séum að tala um söguna Legoland. Að hinum sögunum ólöstuðum. Nema Hamingjusaga, ég er til í að lasta hana við betra tækifæri.

Um Freedom gæti ég reyndar sagt það sama og Stefnuljós: hún skilur ekki jafn mikið eftir sig og The Corrections. En hver gerir það sosum? Freedom er sprúðlandi, hún er margradda flettireka, fjölskyldusaga, samtímasaga, saga um kapítalisma og.. heimsku? En í þeim skilningi að fólk breytir gegn hagsmunum sínum og betri vitund allan daginn alla daga.

MYNDASÖGUR

Hluti af 100 Bullets (Dirty), Injection. Böns af slæmu dóti!

2016 mun og hafa verið árið þegar ég sætti mig við að Alan Moore hefur misst það, og það sem meira er: að það gerðist fyrir rúmum 10 árum síðan, að minnsta kosti. Lost Girls er rusl, Leagoe oEG: Century sömuleiðis, Black Dossier var í endurliti óskaplega underwhelming.

En, furður furða, Warren Ellis stendur honum á sporði (í þessum slagsmálum uppáhaldshöfundanna sem eru aldrei til nema í höfðinu á lesendum og einstaka sinnum í höfði Alan Moore sjálfs) þar sem hann er enn að gera gott gott stöff einsog Injection.

SJÓNVARP

The Good Wife var fyrirferðarmeiri en mig hefði grunað. Nanna horfði á þá alla í gegn og ég sá þarafleiðandi helling af þeim. Tuttugustu og fyrstu aldar lögfræðidrama, sem reynir að snúa uppá formið á allskonar vegu, ég hafði oft mjög gaman af þeim.

Game of Thrones og The Americans það eina sem ég sá í gegn, af því sem kom út á árinu. Ég er límdur yfir GOT en ekki yfir mig hrifinn, Americans er hinsvegar það besta sem ég veit.

Bojack Horseman, 2-3. Ég hef verið dálítið hugsi yfir áfengisneyslu í sjónvarpi undanfarið.

Á mínu heimili koma tímabil, ekki ósvipuð rigningartímabilum annarstaðar í veröldinni, þegar Friends er í sjónvarpinu. Einn daginn kem ég heim og Netflix er stillt á Friends, og það er svo þangað til Chandler segir "Where?" og gengur útúr íbúðinni. Það kemur Bojack og áfengi ekki við nema til að segja að í einhverjum Friends þáttanna sem sýnir hvernig líf vinanna var áður en þættirnir hófust -- áður en Ross var kokkálaður, áður en Rachel trúlofaðist, áður en og áður en -- kemur fram að vinirnir hafi áður fyrr hist á bar. Barinn hafi vikið fyrir Central Perk og þau hafi einfaldlega haldið áfram að hittast á sama stað, en við allt aðrar aðstæður. Á barnum eru bjórflöskur og billjarður. Á kaffihúsinu eru kaffi, sófar, sætabrauð. Barinn var fyrir fólk á miðjum þrítugsaldri, ríflega þrítugir vinirnir drekka frekar kaffi.

Brandarinn er þessi: Chandler fréttir af fyrirhuguðum breytingum og segir: "Bara kaffi? Hvar eigum við þá að hittast?"

Og meiningin á bakvið brandarann er þessi: Chandler gefur sér að þeirra kynslóð blandi geði á barnum, en sannleikurinn er sá að þau eru að eldast og þjóðfélagið að breytast. Brandarinn bakvið brandarann er sá að um leið og þau eldast nenna þau síður að finna sér annan stað, og láta einsog þau kjósi kaffihúsið á gamla staðnum frekar en bar annarstaðar.

Ég las þetta líka alltaf sem yfirlýsingu Friends um eignarrétt sinn á tíunda áratugnum. Níundi áratugurinn hafi tilheyrt Cheers oní kjallara í Boston, þar sem fólk annaðhvort dældi bjór og lúkkaði ágætlega, eða drakk hann dag eftir dag og var frekar aumkunarvert. Nú drykkju hetjurnar kaffi og skrýtna fólkið og lúserarnir serveruðu það.

Ég er enn að koma mér að efninu!

Hinsvegar hafa aldrei komið How I Met Your Mother tímabil á mínum bæ. En ég hef séð allnokkra þætti og þar drekka hetjurnar bjór á barnum þar sem þau hittast reglulega. Þannig að kannske er kynslóðaskiptingin ekki svo skýr.

Málið er að ef söguhetjurnar drekka áfengi svo til daglega stendur valið á milli þess að gera þær aumkunarverðar að einhverju leyti, eða gera lítið úr neyslunni sem þær stunda. Cheers myndi ég segja að fari fyrri leiðina, HIMYM fer seinni leiðina; ekki vegna þess að þættirnir leggi upp með það endilega, heldur vegna þess að áhrifin sem neyslan hefur á daglegt líf persónanna er svo misjöfn.

Bojack Horseman hefur eitthvað að segja um neyslu áfengis og vímuefna og þættirnir gera það með því að normalísera neysluna til að byrja með, en koma síðan með skell þar sem uppsafnaður ólifnaður hefur einhverskonar afleiðingar. Þetta er vandmeðfarið vegna þess að ef byttan heldur ótrauð og óminnkuð áfram eftir að hafa fengið skellinn þá voru afleiðingarnar engar í raun og veru. Bojack er á grensunni vegna þess að þeir hafa notað þetta í bæði 1. og 3. seríu.

Rick & Morty 1-2. Alger Harmon. Sitkom í öllum mögulegum veröldum. Hvað vill maður meira?

Milli jóla horfði ég á slitur af OA og loks síðustu tvo þættina í heild. Lokasenan var stuðandi og áhrifamesta set piece sem ég sá í sjónvarpi á árinu, og sennilega lengra tilbaka. Má þetta? hugsaði ég. Er þetta hægt? Og það var hægt. Senan lenti ekki alveg á fótunum, svimaði dálítið í restina, en hvílíkt heljarstökk.

Í fyrra hafði ég W/ Bob & David hér í þessum flokk. Það var vel. Í ár hlustaði ég (og horfði) á uppistandsplöturnar þeirra beggja, Amateur Hour með Bob Odenkirk og Making America Great Again með David Cross. Þær eru báðar arfaslakar. Odenkirk stillir því þannig upp að hann sé ekki uppistandari og að þetta sé meira og minna tilraun til að segja brandara á sviði. Það tekst þokkalega, en platan er samt ekkert sem nokkur þarf að heyra, þrátt fyrir einn eða tvo virkilega góða brandara. MAGA sýnir bara að Cross er ekki fyndinn á sviði lengur. Hann á töluvert inni fyrir Shut Up You Fucking Baby og It's Not Funny en MAGA er hálf vandræðaleg á köflum.

Og talandi um vonbrigði með ný uppistönd frá góðum uppistöndurum: Crying and Driving með Paul F. Tompkins og Speaking for Clapping með Patton Oswalt. Báðir hafa gert svo miklu, miklu betur. Tímasetningin á útkomu Speaking for Clapping er slæm, svo ekki sé meira sagt. Frásögn Oswalts af láti eiginkonu hans er hrikaleg.

Gott sjónvarp úr svipaðri átt hinsvegar: Garfunkel & Oates. Sjúklega gott stöff. Spesjallinn þeirra, Trying to be Special, er líka fyndinn, en þættirnir steinliggja fyrir mér.

BÍÓ

Ég fór ekki í bíó í ár og ég held áfram að segja hverjum sem nennir að heyra að ég hafi hætt viðskiptum við kvikmyndahús eftir að hafa séð Hobbitann 2 í Smárabíó fyrir þremur árum síðan. Þetta er svona týpískt hipstera gaspur og í þessu máli hæfir það mér: ég er of töff til að fara í þetta ömurlega bíó.

Þó ég hætti að fara í bíó átti ég það nú samt til að sjá kvikmyndir heima hjá mér en nú virðist ég hafa hætt því líka, eða því sem næst. Úlfhéðinn er ekki kominn á það stig að vilja sitja undir heilli bíómynd í senn, svo það er eftir. En einsog stendur er einfaldlega ekkert bíó í gangi, hvorki fyrir mig né hann.

Því sem næst, því ég sá a.m.k. eina kvikmynd á árinu sem mér fannst þess virði að mæla með, það var Anomalisa, stop-motion myndin eftir Charlie Kaufman, í leikstjórn þeirra Duke Johnson. Hún kom mér gersamlega á óvart. Höfundamark Kaufmans er greinilegt en það breytir öllu að hann skuli skrifa fyrir brúður, ekki síst vegna þess að sagan tekur mið af forminu: hún gæti ekki gengið upp í læf aksjon, vill ekki vera þar.

Ég er ósköp meðvitaður um það að þessi kvikmynd sem ég er svo hrifinn af er formtilraun, metafiksjón og saga um hvítan karlmann sem á erfitt með að tengjast fólkinu í kringum sig. Ég verð að halda því fram án þess að geta nefnt dæmi um lélegar myndir sem tikka í þessi box, að myndin sé samt sem áður stórkostleg.

Sicario var önnur.

TÓNLIST

Það var fátt um uppgötvanir á árinu. Ég hlustaði allnokkrum sinnum á Hamilton söngleikinn. Annars var þetta ár enduruppgötvunar. Ég smakkaði á The Mountain Goats fyrir tæpum tíu árum síðan en datt þó ekki í rásina. Í ár hlustaði ég á þátt tileinkaðan hljómsveitinni og féll þá flatur fyrir plötunni The Sunset Tree og spilaði hana í tætlur. Ég endurnýjaði kynnin við All Hail West Texas, sem er æðisleg, og fann mig aðeins í Tallahassee. En The Sunset Tree er einhverskonar meistaraverk.

Þá var Mr. Beast með Mogwai á lúppu í aðdraganda jóla, ef ég man rétt þá náði ég henni ekki á sínum tíma, ekki einsog Happy Music... eða Rock Action, en nú var einsog hún opnaðist. Jólaplata.

That's all she wrote.

HLAÐVARP

Ég gerðist áskrifandi að Howl.fm á árinu, sem þýðir að ég held áfram að hlusta á sömu þættina og áður (sirkabát) en borga þeim sem búa þá til nokkra hundraðkalla á mánuði. Ég hætti reyndar að hlusta á Comedy Bang Bang! eða því sem næst, það slokknaði á einhverju annaðhvort hjá mér eða þeim. Og ég er alveg hættur að hlusta á Spontaneanation (Spontanianation?) því ég nenni ekki spunanum þeirra -- en Tompkins er ennþá uppáhalds grínistinn minn.

Ég gerðist líka „patreon“ hlaðvarpsins The Projection Booth, sem þýðir það sama til þeirra. Að vísu hef ég ekki hlustað á nema lítinn hluta þeirra TPB þátta sem hafa komið út síðan ég gerðist áskrifandi, myndirnar sem hafa verið til umfjöllunar höfða ekki svo mjög til mín. En þættirnir sem ég þó sæki eru alltaf þess virði, og þeir sem ég hef þegar sótt í sarpinn til þeirra hafa oft og tíðum verið algerir dýrgripir.

Hollywood Handbook hafa haldið áfram að vera pesta hlaðvarp veraldar. Þáttastjórnendurnir, Sean og Hayes, hafa líka komið fram sem gestir á Spont og Doughboys og ra-hústað þeim.

Ég hef líka sótt aftur og aftur í þann grunna, sæta brunn sem heitir The Reality Show Show. Þetta er podkastið sem Sean og Hayes voru með áður en þeir hófu Hollywood Handbook. Það byrjar sem frekar normalt poppkúltúr podkast sem fjallar um raunveruleikasjónvarp. Þeir fá til sín gesti sem horfa annaðhvort á raunveruleikasjónvarp eða eru í bransanum, og tala um þætti vikunnar, gera grín að því sem þeim finnst hlægilegt o.s.frv. Þátturinn þróast hægt og rólega yfir í það sem þeir fóru að gera með Hollywood Handbook, þar sem persónurnar "Sean" og "Hayes" verða sífellt meira áberandi, leiða umræðuna að sínum eigin hugðarefnum og sinni skálduðu tilveru.

Ég mæli ekki með þeim við nokkurn mann. Alls ekki hlusta á þetta!

En ég geri það vegna þess að ég er forfallinn aðdáandi og ræð ekki við mig.

Kurt Vonneguys hóf göngu sína á árinu. Þættirnir koma út mánaðarlega, tveir gaurar sem vinna á Cracked fjalla um bækur Kurt Vonnegut. Hingað til hafa þeir tekið fyrir Player Piano, Sirens of Titan, Mother Night, Cat's Cradle og síðast God Bless You, Mr. Rosewater. Þeir eru mjög færir þáttastjórnendur, hafa mikinn áhuga á bókunum og koma frá sér túlkun og pælingum á mjög skemmtilegan hátt. Hver þáttur er frekar langur, sem er alls ekki mínus þegar það er af nógu að taka í þessum dásamlegu bókum. Og ég er hlutdrægur, rétt eins og þeir: Vonnegut er bestur.

The West Wing Weekly byrjaði líka árið 2016 og er vel þess virði fyrir þá sem fíla The West Wing.

Og High & Mighty, þáttur og þáttur, hann er fyndinn.

-b.

Engin ummæli: