15 mars 2009

Hvað er maður að gera semsagt?

Á fimmtudaginn fór ég í ræktina og setti svo fötin mín í þvott. Þau eru þar ennþá held ég.. Ég var eitthvað annað að gera um kvöldið, fór svo beint austur eftir vinnu daginn eftir. Gleymdi þeim í gær þangaðtil ég var kominn í vinnuna og var svo í heimsókn þangaðtil ég sofnaði. Ég er ekki enn búinn að fara heim í dag. Þessar vinnuhelgar.

Það hefur annaðhvort verið á miðvikudaginn eða fimmtudaginn sem ég fór í bakinu, þessi andskotans mjóbaksverkur sem ég hef fengið endrum og eins. Þannig að ég var slæmur á fimmtudagskvöld, verri á föstudagsmorgun og alveg þangaðtil ég náði að smella því út. Taktíkin er þessi hér: Ég stend uppvið vegg og teygi mig niður til jarðar með beinar lappir, þegar ég er kominn með lófa í gólf eða þvínæst þá vagga ég frá hægri til vinstri þartil ég finn eitthvað gerast.

Ég hafði reynt það nokkrum sinnum en ekkert gerðist, svo hafði ég það milli tíu og ellefu á föstudagsmorgun. Gleðin var kannske ekki ólýsanleg, en afskaplega mikil. Ekki bara það að líða alltíeinu betur, heldur að vita það (án þess að vera viss, það er nú meinið) að nú líða ekki vikur eða mánuðir þarsem ég get ekki setið í stól eða beygt mig niður í gólf án þess að fá hníf í bakið.

Merkilegir þessir krónísku verkir, maður kann betur að meta það að líða ekki-illa, frekar en að leitast endilega eftir því að líða vel.

Eða kannske frekar: skilgreiningin á því að líða vel breytist aðeins. Ég er þakklátur fyrir að geta notað bakið yfirhöfuð.

En nóg um það.

Ég fékk frí síðustu tvo tímana í vinnunni á föstudaginn til að kíkja á málstofu á hugvísindaþinginu. Ég valdi málstofu um Njálu afþví ég fíla Njálu. Már Jónsson talaði um mismunandi orðalag í hinum ýmsu handritum Njálu, Helga Kress sagði bardaga og veislur í Njálu vera karnival. Og svo framvegis. Það var fullt útúr dyrum.

Svo sótti ég Hall og við keyrðum útúr bænum. Þegar við komum að Rauðavatni skall á með stórhríð, á Sandskeiðinu hægðum við niður í fjörutíu og sáum ekki svo mikið í kringum okkur. Þar var einn farinn útaf. Mér leist stundum ekki á blikuna því það voru 14 metrar og gleerhált, guðslifandi feginn að vera á nöglum, og ekki í fyrsta sinn í vetur.

Þannig að við rausuðum og spjölluðum og vorum rúman einn og hálfan tíma á leiðinni á Selfoss. Mér leist aldrei á bílinn fyrir framan okkur, hann var alltaf að læðast útaf veginum. Við tókum vídjó þegar við vorum að koma að Kögunarhól, ég hugsa ég setji það á Facebook einsog maður gerir. En já, við lötruðum loks inná Selfoss og yfir brúna og ég stoppaði fyrir bíl sem ætlaði að beygja en gaf ekki stefnuljós og svo beygði hann útaf og ég var að gefa í þegar jeppinn fyrir aftan klessti á bílinn minn.

Hlerinn aftaná er í rúst, annars allt í lagi. Ég á eftir að fá að vita hvað þetta kostar og hvernig það leysist. En hef litlar áhyggjur af því sosum.

Náði mynd af jeppanum samt. Hallur sagði að þetta væri Ford 350 held ég.

...

Ég fór á Selfoss til að halda upp á 25 ára afmæli Óskars bróður með honum og fjölskyldunni. En konan hans var að vinna til sjö svo hann komst ekki af stað fyrren tveimur tímum á eftir mér, þá var víst alveg blint. Hann þurfti að snúa við áður en hann komst á heiðina. Nema hvað, lærin voru í ofninum og sósan tilbúin og svona, við borðuðum afmælismatinn og gátum ekki annað.

Daginn eftir var heiðin auð, þetta hafði bara verið eitthvað spes fyrir föstudaginn þrettánda. Ég taldi fimm bíla útaf í Ölfusinu, einn í kömbunum, einn í Skíðaskálabrekkunni og loks einn á Sandskeiði.

Hallur gaf mér Watchmen-barmmerki sem ég er með núna, það er frá Þýskalandi.

Ég hlakka til útlandsins.

...

Ég er enn að lesa Cryptonomicon, er eiginlega í pásu núna því það var að koma myndasögusending á safnið. Las Secret Invasion og hét því aftur að hætta að vesenast í þessum ,,viðburðum" hjá könunum. Las Fables: War and Pieces, sem er víst ekki endir heldur miðbik eða bara einhverskonar klímax sem slúttar þó ekki sögunni. Fínt sem slíkt. Er að lesa Young Liars eftir David Stray Bullets Lapham.

(Ég var að enda við að skamma mann sem er helmingi eldri en ég fyrir að reyna að labba í burtu þegar hliðið vældi á hann. Tónninn í sjálfum mér kom mér á óvart. Fólk lætur stundum einsog smákrakkar.)

En já. Lapham. Þetta eru kunnuglegar slóðir fyrir kauða: Strákar sem eru lúserar og rosalega töff og ofbeldisfullar stelpur sem þeir eru skotnir í en hafa engan séns.

Og svo las ég slatta í The Extraordinary Works of Alan Moore sem er sýnist mér bara heillangt viðtal við karlinn. Alltí lagi.

Það er ekki bara blautt og súrt tau sem bíður eftir mér heima heldur líka næstsíðasti Battlestar þátturinn. Hann skal í strax eftir vinnu.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hmmm, leitt að heyra með bílinn þinn, en verra þetta með bakið á þér. Er ekki viss um að þetta sé skynsamlegasta leiðinn til að leysa bakvandamálið á þér. Hljómar svona eins og vandmál með liðþófana, jafnvel brjósklos.

Björninn sagði...

Já, ég veit sosum ekki hvað ég á að gera í því yfirhöfuð, ég reyni bara að styrkja bak og maga og vona að þetta komi ekki fyrir aftur..