01 september 2008

Halló vinnuheimur

Mikið hef ég verið latur við þetta undanfarið. Þó hef ég verið í sumarfríi, og hefði faktískt getað blaðrað og blaðrað í netið endalaust og botnlaust og aldrei þurft að líta uppúr tölvunni nema til að sofa og drekka kaffi. Er þetta þá ástæðan fyrir því að fólk hættir að blóka og vefsíður þorna upp? Að manneskjurnar hafi ekki lengur nóg að gera og hætta að slæpast?

Ég meina, ég hef alveg hangið í tölvunni í þessu sumarfríi, ég hef bara verið að gera eitthvað annað. Glápti á Studio 60 aftur og nei, þótt það hafi verið ljósir punktar hér og þar þá voru þættirnir sem slíkir aldrei góðir. Generation Kill náði aldrei neinu hámarki en kannske var það heldur ekki meiningin. Svo spilaði ég smá Civ IV. Hlakka til að prófa Beyond the Sword viðbótina.

Ég fór ekki á Súganda. Hugmyndin hafði verið að fara til að vera einn útaf fyrir mig, og mér leist ekki á blikuna þegar ég komst að því að hann Bjössi yrði þarna á sama tíma. Mér er allsekkert illa við hann, þvert á móti, en ég fór að hugsa útí það sem myndi sitja á hakanum á meðan ég væri í burtu og hvað ég gæti gert hérna heima. Og ég ákvað að fara ekki fet. Svo hringdi hún Mamma í mig morguninn eftir og sagði að karlinn hefði líka hætt við. Jæja.

En ég setti fötin mín í þvott og braut saman í rólegheitunum, eldaði kjúkling, kíkti austur og hitti fólk, kíkti til Keflavíkur og sá nýju íbúðina hans Óskars bróður. Sem hann keypti af pabba sínum, sem hann hafði áður keypt af Sigga bróður. Við borðuðum bakkelsi og ég drakk mjólk á meðan Óskar raðaði í ísskápinn. Hann er farinn að vinna á KFC í Keflavík, býr með konunni og tveimur pínulitlum hundum, borgar minna af tveggja herbergja íbúð en ég geri í leigu af 1/3 af fjögurra herbergja íbúð, en hann er jú í Keflavík.

Reykjanesbrautin er reyndar nokkuð góð. Það breytir ótrúlega miklu að geta tekið framúr sleðunum án þess að bíða og kíkja í korter á undan.

Annað sem gaman er að taka fram fyrir Björn framtíðarinnar: Núna áðan gekk ég endanlega frá skattaveseninu (góða veröld gefi að það standist). Í þetta sinnið strandaði það á verktakagreiðslu frá bókasafninu, en ég borga bara þann gaur og fæ síðan endurgreitt það sem ég hef þegar greitt umfram rétta upphæð. Þá ætti ég að vera í nokkuð góðum málum um næstu mánaðarmót.

Skólinn byrjar núna rétt bráðum. Ég þarf að hætta í kúrsinum sem ég er skráður í og fá einhvern til að hafa umsjón með rannsóknarverkefninu mínu.

Ég byrjaði aftur að vinna í dag og á sama tíma kemur nýr gaur í staðinn fyrir hann Ólaf, sem er fluttur á Reyðarfjörð. Nú kem ég bara til með að vinna eina kvöldvakt á viku og fjórðu hverja helgi. Hvílíkt næn tú fæv.

Ég ætla að byrja í ræktinni aftur. Reyna að endast aðeins lengur í þetta skiptið?

Ég setti nokkrar myndir inná flickr, eina tvær úr innflutningspartíinu (hei takk fyrir komuna þið sem mættuð), nokkrar úr keilu og eitthvað. Hér er ein:



þarsem ég fagna eftir fellu.

En ég ætla að kíkja út í hádegismat núna.

-b.

Engin ummæli: