Mér finnst undarlegt hvað ég er latur við að skrifa. Það hefur ekkert breyst nema bara það. Jæja.
Þessa dagana spyrja allir hvernig sambúðin gangi, ég veit ekki hvort veröldin er að bíða eftir því að sjóði uppúr og allt brenni í átökum og vitleysu. En það er ekkert sem bendir til þess, enn sem komið er. Hún Ingibjörg kom heim frá Danmörku í gær (í annað skiptið síðan við fluttum inn) og færði okkur karamellur frá Bornholm.
Hafsteinn átti afmæli á föstudaginn og fékk okkur í Laugar með sér á laugardeginum, okkur Egil og Bjarka. Ég var að vinna til rúmlega fimm, komst loks af stað klukkan hálfsex en var kallaður tilbaka útaf einhverju helvítis rugli í öryggiskerfinu, bölvaði, keyrði heim og sótti bjór og stuttbuxur, náði strákunum þegar þeir voru að fara að skrá sig inn. Við dembdum í okkur einum bjór og fórum í sturtu, þaðan í gufu. Á dagskránni var semsagt að fara í rúmlega 60gráðu heita gufu í korter og þaðan beint í kar fullt af ísköldum sjó (eða söltu vatni). Helst í kaf. Ég átti ekki von á að ég kæmist lengra en rétt með tærnar oní, en hafði það af.. ég veit ekki í hversu margar sekúndur ég hélt út en náði að minnsta kosti þessum tíu fimmtán sem miðað var við.
Undarleg tilfinning, að halda niðrí í sér andanum og þurfa um leið að halda fyrir nefið vegna þess að líkaminn bregst við kuldanum með því að taka andköf, eða reynir það a.m.k. Þetta gerðum við tvisvar, og fórum svo á barinn við hliðina. Þennan við hliðina á gufunni á ég við. Svo í einhverja aðra gufu, þaðan í boltaleik oní lauginni og á leiðinni uppí búningsklefa eftir leikinn.. já, ég veit ekki alveg hvort ég má segja hvað gerðist en það reddaðist allt og við vorum enn kátir. Víðir hitti okkur í búningsklefanum og við pöntuðum bíl á Vitabar.
Þar hafði Hafsteinn aldrei borðað, en mamma hans var að vinna þar svo við fengum bjór og hambó og svona, fórum svo í karókí á Frakkastíg, þaðan í partí í Samtúni. Áfengið okkar kláraðist og okkur var ekki boðið úr flöskum hússins, eða kannske var ekki tóm til þess vegna þess að við vorum beðnir um að yfirgefa pleisið eftir að Víðir stóð uppá stofuborði og fékk viftuna í hausinn. Við stigum útfyrir og réðum ráðum okkar, Hafsteinn sagðist þurfa að skreppa aftur í húsið og kom svo ekki aftur. Við röltum niður í bæ og ég kvaddi strákana fyrir utan Celtic.
Það tók mig óeðlilega langan tíma að komast heim.
Ég var að vinna á sunnudaginn líka, nett þunnur en aðallega ósofinn. Ég skreið í rúmið einhverntíman á bilinu átta og níu um kvöldið og svaf til ellefu daginn eftir. Eða í gær. Tók mér semsagt frí á mánudegi, fór í skólann og sótti strætókortið mitt, notaði það til að komast uppí Laugar og sækja bílinn minn, dólaði framá kvöld og kíkti svo með Davíð í ræktina í Laugum (enn og aftur). Nú á semsagt að byrja á því aftur. Guði sé lof.
Bamm daramm.
En það er kominn nýr gaur hingað í safnið á móti okkur Finni, og hann tekur aðeins fleiri tíma en Ólafur gerði, þannig að núna er ég bara niðri á fyrstu hæð fimmtudagsmorgna og föstudagskvöld, og fjórðu hverja helgi. Vinnuhlutfallið er þannig komið uppí 80/20 (eða niður í 80/20, eftir því hvernig á er litið).
Hvað annað? Spooks: Code 9 og NewUniversal (eftir Ellis) byrja bæði hrikalega illa, og á nákvæmlega sömu línu einhvernvegin: Einhver hrikalegur heimsviðburður verður til þess að slatti af unglingum verður að hetjum. Hversvegna fara unglingar í heimsenda-poppkúltúr svona mikið í taugarnar á mér? Ég entist a.m.k. ekki út fyrsta þáttinn/heftið. Dexter er að byrja aftur (jei), Entourage er byrjaður aftur (jei?). Ég er með þrjár bækur hérna á borðinu mínu sem mig langar til að lesa eða ætla að lesa: Ultimate X-Men, vol. 1 eftir Mark Millar, sem virðist vera tóm froða; I Shall Destroy All the Civilized Planets! eftir Fletcher Hanks, sem er forvitnileg; og The Strongest Man in the World eftir Louis Cyr og Nicholas Debon, sem ég veit ekkert um.
Mig hálflangar í X-Box bara til að geta spilað Bionic Commando.
Og endurreisn bókmenntavefsins gengur vel.
Mikið er tíminn annars fljótur að líða. Hafiði tekið eftir þessu?
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli