Ég varð fertugur á árinu, sem var ágætt. Kominn tími til!
Ég gifti mig sömuleiðis. Þetta tvennt rann saman í eina veislu.
Ég grenntist líka helling á árinu eftir að hafa tekið upp ketó mataræði. Ég var ánægður með það. Ég hef verið minna ánægður með það að vera næstum hættur að drekka bjór. En ég hef líka tekið nokkur skipulögð hliðarspor og þá haft virkilega gaman af því að þjóra, fátt eru svo með öllu illt.
Ég byrjaði aftur að drekka kaffi. Það er óskaplega gott stöff. Ég bíð þess að það byrji aftur að fara illa í kerfið, hefur ekki gerst enn, sjö níu þrettán.
Ég hjólaði minna á árinu en oft áður, en ég hélt áfram að synda (sem ég byrjaði á haustið 2021) og það virðist fara óskaplega vel í bakið á mér, svo ég hef verið góður í skrokknum heilt yfir. Sömuleiðis mjög ánægður með það.
Fyrir langa löngu þegar ég skrifaði reglulega á þessa síðu, þá hefðu þessi atriði ratað í einhverja hversdagslegri færslu eða röð af þeim. En nú nefni ég bara þetta helsta einu sinni á ári. Og þá helst í gegnum poppkúltúr.
Ég hef líka haldið áfram að spila Magic The Gathering, fer reglulega á föstudögum í Nexus til að drafta. Það er óskaplega skemmtilegt, meira að segja þegar settið er ekkert sérstakt. En í ár var Kamigawa: Neon Dynasty frábært, Dominaria United engu verra. Streets of New Capenna þarf ég aldrei að koma nálægt aftur, en það var alveg hægt að spila það. Ég ber þetta núna saman við Phyrexia: All Will Be One, sem er í gangi núna, og er bara hreinlega leiðinleg upplifun. Það var one-off draft af Dominaria Remastered um daginn, það var mjög skemmtilegt. Það var sennilega eftir áramót..? Þannig að upp og ofan árið 2022, árið í ár byrjar ekki eins vel.
Kvikmyndir
Ég sá heilar 5 nýjar kvikmyndir á árinu, þ.e.a.s. sem komu út árið 2022. Færum bilið aftur til 2021 og þá eru þær samt innan við 10. Ekkert að því, það er svona sem þetta á að vera. Af þessum 5 sem ég nefndi fyrst þá er The Batman sennilega skást.
Í nýlegri kantinum þá var ég verulega hrifinn af Pig og The Tragedy of MacBeth.
Ég lauk Verhoeven lotunni með Flesh+Blood og Soldier of Orange og ég myndi mæla með fyrri myndinni sérstaklega, hún er snar.
The Deer Hunter var ákveðin uppgötvun fyrir mig. Stórkostleg kvikmynd, og ég hef aldrei verið jafn meðvitaður um að sjónvarpið mitt væri að klippa utan af rammanum eins og hér, jafnvel þótt ég hefði ekki kannað málið fyrirfram.
Margin Call og Sorry to Bother You spila framverði í antíkapítalistabíóinu en leika kannske ekkert sérlega vel saman ég veit það ekki.
Og Spider-Man 2 er frábær, leitt að fyrri myndin skuli hafa verið svona hrikalega slöpp bíóferð að ég sá þetta framhald aldrei fyrr en nú.
Í enduráhorfslistanum var það sennilega Ali sem kom mér mest á óvart.
Bækur
On Writing eftir Stephen King er sennilega eina bókin sem ég las frá upphafi til enda á árinu, sem ég myndi mæla með sérstaklega. Ég tíni engar sérstakar ástæður til, kíktu bara í fyrstu síðurnar lesandi góður og láttu hann draga þig inn.
Ég byrjaði að lesa Termination Shock eftir Neal Stephenson, hætti og hef ekki haldið áfram. Í framhaldinu fann ég Anathem á skiptibókamarkaði og las hana alla, hafði mjög gaman af. Það hefur verið í þriðja skipti. Myndi ég mæla með hanni? Já og nei. Ég myndi mæla með henni fyrir mig aftur einhverntíma seinna, ef það meikar sens. Kannske held ég áfram með Termination Shock seinna líka.
Ég held að Fall, or Dodge in Hell hafi minnkað bragðið fyrir Stephenson talsvert, kannske var það Seveneves, Dodo og Fall, einn tveir þrír, sem gerði það. Hann þarf að taka sig aðeins á og mér sýndist það ekki vera raunin í nýju bókinni.
Og ég las bókina Slow Horses eftir Mick Herron. Það eru sjónvarpsþættir í gangi á Apple+ (sem ég á eftir að sjá) og Paul F. Tompkins mælti með bæði þeim og bókunum sem þeir byggja á. Þessi fyrsta bók í flokknum er fín, eiginlega ekkert meira en það, en ég er sérlega veikur fyrir breskum spæjarasögum og er þegar kominn vel inní aðra bókina, sem grípur mig reyndar mun fastar en þessi hér.
Myndasögur
Ó mæ, hér er ekkert að ske.
Tvær seríur sem ég las á árinu (eða byrjaði á, ég veit ekki hvort það koma fleiri á hvorum staðnum).
The Goddamned eftir Jason Aaron, R.M. Guéra og Giulia Brusco er meistaraverk. Fyrri bókin er stórfín og sú seinni er ennþá betri, ég vona innilega að það komi meira en þótt það verði ekki þá er ég sáttur við að hafa fengið að lesa þessar tvær.
Og That Texas Blood eftir Chris Condon og Jacob Phillips, líka tvær fyrstu bækurnar. Mjög flott suðurríkja-noir með settlegum súpernatjúralisma.
Tónlist
Jæja eins og vanalega hef ég trassað að loka þessari færslu þar til í lok febrúar, og nú er hvergi hægt að nálgast spotify yfirlitið lengur. Þannig að ég hef engar tölur, ræðum þetta á almennum nótum, það er kannske bara ágætt.
Ég lét gera við gamla magnarann hennar ömmu á árinu, ég hef enn enga leið til að spila nokkuð annað en útvarpið en mér þykir ósköp þægilegt að kveikja á því sérstaklega um helgar. Stundum er tónlist í útvarpinu. Um daginn var safnplata frá níunda áratugnum á Vínyll vikunnar og það vakti mikla lukku heima. En það var víst eftir áramót, þannig að vinsamlegast ekki hafa lesið þessa efnisgrein.
Public Service Broadcasting átti sennilega hug minn mestan árið 2022. Lagið Go poppaði upp á einhverju Spotify mixi, og í framhaldi hlustaði ég á plötuna The Race for Space aftur og aftur. Hún er frábær. Inform - Educate - Entertain er líka góð, bandið samt greinilega að finna grúvið ennþá, og konseptið við Race for Space gerir það að verkum að hún situr fastar í minni. Ég hlustaði á plötuna Every Valley nokkrum sinnum og hún greip mig ekki sérstaklega. En Bright Magic er furðuverk, konsept plata um Berlín sem ég átti dálítið erfitt með að komast inní en núna er hún sennilega uppáháldið mitt af plötunum þeirra.
Hittararnir eru samt augljóslega af IEE og TRFS. Go, Gagarin, The Other Side, Spitfire, Night Mail, Everest. Endalaus gleði.
Við fjölskyldan vörðum einni viku í sumarbústað við Stykkishólm í sumarfríinu. Á leiðinni heim spilaði ég Glass Houses með Billy Joel í heild sinni og það var dásamlegt. Una frænka átti þessa plötu í denn og ég spilaði hana trekk í trekk þegar ég var litlu eldri en Úlli er núna. Þannig að Joel datt í róteringu hjá mér og í einu góðu fimmtugsafmæli tók ég The Downeaster Alexa í karókí, sem var gott geim.
Sjónvarp
hefur verið liður í þessum lista. En árin eru bæði snögg og endalaus, ég veit ekki hvað gerðist hvenær. Ég hafði gaman af Midnight Mass. Stephen-King-ískt smábæjar-vampíru-drama sem fer bæði mjög hefðbundnar og frekar óvenjulegar leiðir.
Já og við horfðum á Bosch frá upphafi til enda, það eru skemmtilegir lögguþættir. Bara svona mátulega góðir, mátulega alvarlegir, mátulega júniform. Stórgóðir sem slíkir.
Bosch er á Amazon Prime, þannig að þegar þeim lauk þá undum við okkur beint í Columbo, sem er frábært stöff.
Og svo var það The Sandman. Þeir byrjuðu frekar illa en unnu á. Síðustu þættirnir eru hreinlega góðir. Hinar og þessar persónur eru ekki lengur hvítir karlar, sem er gott og blessað. Ein af þeim er Constantine, sem hefði vel getað virkað sem kvenkyns, en gerir það svo engan veginn í þessum þáttum. Hér er Constantine quippy og töff, ljósrit af "sterku stelpu"-karakternum sem er fyrst og síðast hæðin og tótallí alltof kúl fyrir þennan sjónvarpsþátt sem hún er lent í.
Constantine Moores og Gaimans er lágstéttargaldramaður, barinn og lifaður en með nógu mikla kúnst bakvið augun til að koma sér í vandræði. Hann er náttúrulega einn af þeim karakterum sem hafa haldið áfram lengi eftir Sandman og tekið einhverjum breytingum. En hann þjónar ákveðnu hlutiverki í bókunum sem er engan veginn til staðar í þessum þáttum.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli