14 september 2024

Best ársins 2023

Eins og svo oft áður þá byrjaði ég að skrifa þennan árlega pistil í kringum áramótin og hvarf svo frá honum. Ég hef svo ekki haft fyrir því að opna þennan miðil þangaðtil núna um miðjan september.

Ég veit ekki hverju ég myndi bæta við, kannske einhverju um það sem gerðist hjá mér eða fyrir mig persónulega á árinu 2023 en nú er eiginlega of langt um liðið. Ég tók áfanga í forritun hjá NTV og hafði gagn og gaman af, honum var faktískt ekki lokið þegar ég stofnaði þessa færslu í upphafi árs 2024. En ég var þá þegar búinn með lokaverkefnið. Þetta nám er ekki ódýrt svo ég sá fyrir mér að taka pásu áður en ég héldi áfram í aðra önn, svo blessað stéttarfélagið fengi að pústa aðeins og hlaupa svo aftur undir bagga með mér. Það er ennþá planið en á meðan hef ég haldið áfram að læra uppá eigin spýtur, fer samt ekki frekar út í það hér.

Og hvað er svo að frétta á bilinu janúar til september 2024? Það kemur þessum pistli ekki við. Nú smelli ég á "birta" án þess að breyta eða bæta við það sem ég var kominn með um daginn:

Kvikmyndir

Ég legg ekki meira á þig en það, lesandi góður, að ég gerði lista á letterboxd fyrir þær kvikmyndir sem ég sá hið fyrsta sinni á árinu. Hann er hér. Þetta eru efstu myndirnar á þeim lista:

Bækur

Aftur las ég samasem ekki neitt sem tjáir að nefna.

Ég hafði gaman af fyrstu bókunum í Slough House seríunni: Slow Horses, Dead Lions, Real Tigers og Spook Street eftir Mick Herron.

Heat 2 var líka skemmtileg, ekki eitthvað sem ég myndi mæla með við nokkurn sem hefur ekki séð Heat.

Og 11/22/63 var svakalega spennandi og læsileg bók sem skildi ekkert mikið eftir sig. Skál af hunangsristuðu morgunkorni.

Ég las tvær myndasögur sem ég myndi mæla með: Beneath the Dead Oak Tree eftir Emily Carroll, og The Department of Truth eftir Tynion og Simmonds. 

Tónlist

Ég kom gamla plötuspilaranum í gang og tók nokkrar plötur á bókasafninu, sem ég komst fljótt í vanskil með. Kind of Blue var ákveðin uppgötvun. 

En megnið af tónlistinni streymir úr Spotify, hér er topp 10 listinn fyrir árið:

Aftur á móti var mest spilaða bandið Public Service Broadcasting, sem kemst ekki inn á þennan lista. Platan Bright Magic er ennþá í spilun hérna megin. 

-b.

Engin ummæli: