Bækur
Ég er að reiða mig á Goodreads, eða öllu heldur, ég er að reiða mig á sjálfan mig í fortíðinni og hversu klár ég var að skrá nýtt les í þann banka. Það er ekki svo margt að finna þar, verð ég að segja. En hérna eru tvær:
Red Riding: 1983 eftir David Peace
Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur
Og Zero Fail eftir Carol Leonnig, sem ég hef ekki klárað, en ég gleypti í mig fyrsta hlutann sem fjallar um mannleg og kerfislæg mistök sem leiddu til eða skulum við segja gáfu færi á morðinu á Kennedy.
Og svo nefni ég Ráðgátubækurnar eftir Martin Widmark og Helena Willis, sem ég hef verið að lesa með syni mínum, og eru frábærar.
Myndasögur
Fatale eftir Brubaker og Sean Phillips, nær ekki alveg að standa við allt sem hún lofar þegar upp er staðið, en engu að síður stórskemmtileg myndasaga.
Slaughterhouse-Five, í aðlögun Ryan North og Albert Monteys, best heppnaða aðlögun á þessum miðli eða öðrum í lengri tíma.
Tónlist
Hér eru 12 mest spiluðu lögin mín á spotify á árinu, og ég hlusta nær eingöngu á tónlist í gegnum spotify:
Sko.
Auto Rock er þarna vegna þess að ég gat ekki hætt að horfa á eða hugsa um Miami Vice (2005) á tímabili. Og ég setti bara á Auto Rock og hlustaði svo á Mr. Beast í gegn einusinni enn.
Þar af leiðandi kynntist ég þessari æðislegu plötu aðeins betur, sem er bara jákvætt, plata ársins 2021.
Númer 6 er fyrsta lagið á El Pintor, sem ég hélt áfram að hlusta á í ár, hún er ennþá geðveik. En númer 2 er fyrsta lagið á Marauder, sem er hreint ekki eins góð. Ég vildi eiginlega bara hlusta á If You Really Love Nothing og fara svo í eitthvað annað.
Interpol ennþá í topp 10 árið 2021, ja svei.
Genghis Khan með Miike Snow, þetta kom upp í einhverju mixi, ég fór úr því að heyra í að hlusta, og hló af gleði. Þetta er dásamlegt stöff. Platan er skemmtileg í heild sinni, hún heitir iii. En þetta lag er bara einstakt.
Ég horfði náttúrulega á myndbandið í kjölfarið (það eru ennþá búin til tónlistarmyndbönd). Það er ansi skemmtilegt, en geldur þess að vera það fyrsta í röðinni sem er framleitt af þessari plötu. Í næsta myndbandi, fyrir My Trigger ef ég man rétt, er fleiru til kostað og það lúkkar einfaldlega betur, en lagið er ekki eins grípandi og hugmyndin á bakvið myndbandið ekki eins töff.
Jæja, Not með Big Thief var ennþá í uppáhaldslúppunni í ár, mér finnst gaman að söngla með gítarsólóinu í bílnum.
Og Waltz #2 er eitt af þessum lögum sem ég veit að ég hef heyrt oft áður en allt í einu small eitthvað og ég fékk svo ekki nóg af því. Hrikalega sárt og fallegt lag, og svo er það vals.
Hin lögin á listanum eru öll æði en þau eru svona ofarlega vegna þess að ég hlustaði á þau aftur og aftur á meðan ég lærði að spila þau á ukuleleið. Lakeside View Apartments Suite er erfiðast þeirra en hvað er skemmtilegast? Auðvitað Please Please Please Let Me Get What I Want, sem var líka á lista síðasta árs. Guðdómlegar tvær mínútur og svo er það líka vals.
Annað sem náði ekki á topp tólf:
Every Day is Like Sunday, Morrisey aftur
Definition með Black Star er sjúklega flott
I Was Dancing in the Lesbian Bar með Jonathan Richman er naív gleði, einsog í stemningu yfirhöfuð er það sem heillar einmitt það sem gufar upp ef maður reynir að ná því niður á punktalista.
Og svo plöturnar Rock Action með Mogwai, Grace með Jeff Buckley og Transatlanticism með Death Cab. Ég þekkti þær allar vel frá fyrri kynnum en við hittumst ansi reglulega í ár. Grace var sú sem kom mér kannske helst á óvart, ég renndi henni í gegn þarsem við fjölskyldan keyrðum heim úr sumarfríinu fyrir norðan og lög einsog Lover, You Should Have Come Over gripu mig alveg uppá nýtt, eða á alveg nýjan hátt.
Og ! Ég nefni líka lagið Call Your Girlfriend með Robyn, sem ég hef sennilega heyrt áður en hlustaði fyrst á um daginn, og hún hefur þetta skandinavíska beint áfram á einfaldri ensku sem ég dýrka svo vel. Ekki alveg eins blátt áfram einn tveir og Dancing on My Own en nær langt þangað.
Kvikmyndir
Miami Vice, augljóslega.
Ég hef verið að hlusta á hlaðvarpið Blank Check, og elsku drengirnir tóku fyrir Michael Mann. Sem rak mig í að horfa aftur á einhverja aðra mynd en Heat -- sem ég sá þó held ég þrisvar á árinu.
Ég hef áður lýst því yfir að mér þætti Public Enemies slöpp, og að Miami Vice gengi ekki upp, já og að Collateral liti skringlega út.
Og jú, Collateral lítur dálítið skringilega út ef maður býst við að fá að horfa á filmu, en hún er líka gullfalleg. Tom Cruise er grátt goð með köld augu og Jamie Foxx er fínn býst ég við og vissuð þið að Mark Ruffalo er í þessari mynd?
En semsagt, það er ekki einsog ég hafi ekki gert fleiri en eina atlögu að Miami Vice áður, hún hefur bara aldrei gripið mig fyrr en núna. Í þetta skiptið gekk eitthvað saman í höfðinu á mér, við Miami Vice ýttum úr vör og brunuðum saman til Havana. Ég horfði sennilega fimm sinnum á hana á árinu, og kíkti reglulega á upphafið eða endinn ein og sér, sjá Auto Rock með Mogwai hér fyrir ofan.
Ég horfði líka aftur á Public Enemies btw og hún er ennþá slöpp.
En ég horfði loksins á Thief, sem er óskiljanlega fyrsta* kvikmyndin hans Michael Mann, og hún er ótrúlegt stöff. Ég lími bara úr því sem ég skrifaði á letterboxd:
Það sem Thief lætur kjurt eru fléttur og krúsidúllur í plottinu. Allt er frekar beint áfram. Meira að segja svikin í lokin gerast hægt og örugglega.
Ránin eru spennandi einfaldlega vegna þess að þau eru forboðin og niðurstaðan óviss en Mann sýnir okkur menn að störfum: undirbúningur, æfðar hreyfingar, öryggisbúnaður, þung verkfæri, endurtekning, neistaflug og svo langþráð sígópása.
The Last of the Mohicans sá ég svo loksins, í huga mínum var hún hliðarspor hjá Mann vegna þess að mér finnst hún aðallega eiga heima í svarthvítri bíódagskrá í Mogganum, kvikmynd sem fullorðna fólkið kannske fór að sjá. En hún er náttúrulega stórkostleg. Hér einsog annarstaðar er Mann svo óhræddur við að gera spennandi atburðarás flókna; veröldin er heillandi og hættuleg vegna þess að hún er ekki einföld. Maður þarf að ganga þessa vegalengd. Maður þarf að tala máli sínu. Maður þarf að semja um grið. Síðasta korterið eða svo er alveg með því besta sem ég hef séð.
Mann-lotan var stórskemmtileg, en ég tók líka snúning með Paul Verhoeven. Við Davíð fórum á Benedetta í Bíó Paradís og ég hafði mikið gaman af. Ég horfi svo á Elle, sem er að spila á franska kvikmyndahefð sem ég er ekki kunnugur, en hún er sterk og vel leikin saga um fjölskyldu og ofbeldi.
Ég horfði líka aftur á Robocop og Total Recall og Basic Instinct og þær voru allar þess virði. Sérstaklega Robocop. Og Total Recall. Horfði ekki aftur á Starship Troopers, af hverju ætli það hafi verið.
Og
Ég sá Near Dark í fyrsta skipti og það var vel. Þessi kafli á sveitabarnum! Þessi trukkur! Þessi blóðgjöf!
Og The Final Programme, sem ég ætla að mæla með hér, hún er hvort í senn sveitó og snargalin, scifi nasista Inkal síkadelíu sixtís Bretland, og þessir kragar!
Og De Palma, heimildamynd ársins (sem kom út 2015), ég hefði getað horft á hana endalaust, bara gefa manninum meira að éta, eða kalla til næsta seventís leikstjóra úr þessum eðla hópi.
Í framhaldi af henni horfði ég aftur á allar Mission Impossible myndirnar (nema nr. 2 sem var jafn leiðinleg og mig minnti svo ég slökkti). Og fyrsta myndin stendur ennþá algerlega fyrir sínu, númer þrjú var betri en mig minnti, hinar bara fínar.
Hin heimildamynd ársins er Long Shot, sem kann að vera ennþá á Netflix. Hún er einskonar töfrabragð: hún dregur upp mynd af ólíklegri hollywood sakamálavörn sem bjargar saklausum gaur, en andlagið er doði og rasismi í sakamálakerfinu og kerfinu með stóru K-i. Ég ætla ekki að skemma myndina fyrir neinum af því það er frábært hvernig sagan birtist smátt og smátt, en hugmyndin sem svífur yfir hafnaboltavellinum er hversu margir myndu sitja hérna ef ekki væri fyrir allt þetta helvítis rugl?
There Will Be Blood og The Master og Schindler's List voru enduráhorf ársins fyrir utan allt það sem þegar er nefnt.
Sjónvarp
Við Nanna fórum beint úr TNG yfir í DS9, heltumst reyndar úr okkar eigin lest í hálfri síðustu seríunni, en höfðum mjög gaman af heilt yfir. Arftaki Dax kemur þarna inn einsog olíubrák í síðasta kaflanum, vesalings konan, og það plús helvítið hann Vic sló okkur held ég bara út. En við horfðum á einn þátt í gær, hann fjallaði um ást og vinskap og geimverur, brilljant star trek, hvernig er það ekki sjónvarp ársins.
Að öðru leyti hef ég voða lítið horft á sjónvarp í ár, hausinn hefur frekar viljað horfa á bíómyndir.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli