Íbúar bandaríkjanna
Einn þriðji hluti íbúa Bandaríkja Norður-Ameríku eru útlendingar, þ.e.a.s. fólk, sem fætt er utan Bandaríkjanna eða eru synir og dætur foreldra fæddra erlendis.
Í síðasta manntali Bandaríkjanna er þetta fólk nefnt ,,erlent hvítt kyn". Af þessu erlenda hvíta kyni eru nú yfir 38 miljónir í Bandaríkjunum. Þar af eru
6 800 000 Þjóðverjar (þ.e. þýzkfæddir menn eða börn þýzkfæddra foreldra, annars foreldris eða beggja).
4 500 000 Ítalir.
4 300 000 Englendingar, Skotar, Walesbúar og Ulstermenn.
3 300 000 Pólverjar.
3 300 000 Kanadabúar.
3 100 000 Norðurlandabúar.
3 000 000 Írar.
2 600 000 Rússar.
1 300 000 Tékkar.
900 000 Austurríkismenn.
500 000 Ungverjar.
Auk þess eru í Bandaríkjunum tugir þúsunda af Hollendingum, Frökkum, Jugóslövum, Lítháum, Grikkjum, Spánverjum, Portúgalsmönnum, Rúmenum, Svisslendingum, Finnum, Mexicóbúum, Cubamönnum, Filippseyingum, Japönum, Armeníumönnum, Tyrkjum og Sýrlendingum.
New York er sú borg Bandaríkjanna, sem hefur flesta íbúa af erlendum uppruna. Af öllum íbúum borgarinnar, sem eru 7 miljónir, eru hvorki meira né minna en 5 miljónir af hinu ,,erlenda hvíta kyni".
Í Bandaríkjunum eru einnig 12 miljónir negra, afkomendur þræla þeirra, sem fluttir voru inn til Ameríku á nýlendutímunum. Þrælarnir voru fluttir inn til Suður-ríkjanna og notaðir til vinnu á bómullar-, tóbaks-, hrís- og sykur-plantekrum Bandaríkjanna. Mikið af landbúnaði Bandaríkjanna átti á þessu tímabili vöxt sinn og viðgang að þakka þrælahaldi þessu, sem lét framleiðendum vinnukraftinn í té með tiltölulega mjög litlum tilkostnaði.
- ,,Raddir", Eimreiðin, 3. hefti, júlí-september 1940. [Í þessum bálki birtir EIMREIÐIN meðal annars stuttar og gagnorðar umsagnir og bréf frá lesendum sínum, um efni þau, er hún flytur, eða annað á dagskrá þjóðarinnar.]
2 ummæli:
áhugavert, í þeim miðlum sem maður hefur frá brandaraýkjunum( orðaleikur eða meira svona stafaleikur ) þá verður maður mun meira var við að fólk tali um ítalskar rætur eða írskar heldur en að fólk telji sig af þýskum ættum. Kannski að skýringin sé að þetta er að öllum líkindum gyðingar sem telji sig af gyðingaættum fremur en af þýskum og jafnvel að hatur á þjóðverjum í kring og eftir WW2 hafi haft það í för með sér að fólk breytti eftirnöfnum og leyndi ætterni sínu.
er þetta semsagt síðan 1940 ?
Viðir
1940 já. Mér fannst þetta einmitt merkilegt með Þjóðverjana, en það voru nú ekki síður gyðingar á meðal Pólverja, Austurríkismanna og Ungverja?
Skilgreiningin á ,,útlendingum" hefur líka verið aðeins víðari; annarrar kynslóðar innflytjandi er ennþá útlendingur, og talinn sem slíkur.
Skrifa ummæli