06 apríl 2009

Ferðasagan - ferðin út og fyrsti dagurinn

Fyrsti hluti ferðasögunnar.

Afþví Hlynur sagði mér að drífa í þessu.

Ferðin út og fyrsti dagurinn

Fyrsti bjórinn á leiðinni var á flugstöðinni, ég man ekki hvort það var víking eða carlsberg. Þá hafði ég fengið mér bita, keypt rakvél handa Víði og einnota myndavél, klukkan var eitthvað að verða átta fimmtudaginn 19. mars.



Við kláruðum bjórinn og héldum af stað útað hliði sirka korter yfir átta, en vélin átti að fara í loftið klukkan hálf. Þegar við erum komnir nokkra leið inní ganginn erum við kallaðir upp og beðnir um að koma vinsamlegast að hliði nr. sjö tafarlaust. Við greikkum sporið, þegar við komum þangað er tékkað á vegabréfunum okkar og ein indæl flugfreyja segir að fyrst við tékkuðum okkur inn á netinu og tékkuðum ekki inn neinn farangur þá sé ,,auðveldara að skilja okkur eftir". Kannske áttum við að þakka henni óskup mikið fyrir að nenna yfirhöfuð að kalla okkur upp en ég hugsaði allavega ekki útí það, við vorum greinilega allrasíðastir uppí vél. Hún lagði af stað stuttu síðar.

Áhorfið á leiðinni út voru tveir Arrested Development þættir og slatti af I, Robot. Nýja kerfið í Flugleiðavélunum er fínt, þeir mega alveg eiga það.

Ég man eftir að hafa horft útum gluggann endrum og eins og séð skip niðri á sjónum eða land, skorið niður í sneiðar. Eftir því sem nær dró London varð byggðin þéttari og þéttari. En kannske voru það bara síðustu tíu mínúturnar.

Á Heathrow man ég eftir einni auglýsingu á veggnum, einu þili sem baðst afsökunar á framkvæmdum og einni sjoppu sem seldi nammi og ilmvötn. Annars gengum við bara í gegnum allskonar svæði og yfir allskonar gólf og stoppuðum loks í neðanjarðarlestarstöðinni. Leiðbeiningarnar voru ekkert sérstaklega skýrar, fannst okkur, og það var eitt verk útaf fyrir sig að finna sjálfsala sem ansaði þörfum okkar. Á endanum keyptum við sitthvorn miðann aðra leiðina niðrí miðbæ og komum uppúr jörðinni á Charing Cross.

Davíð geymdi töskuna sína á lestarstöðinni en ég gerði það ekki. Í fyrsta lagi er ekki hægt að loka henni almennilega og í öðru lagi var ég með hitt og þetta sem ég hélt að mig gæti vantað á röltinu. Planið var nefnilega að skoða okkur um þartil Ýmir lenti í London, sem væri eitthvað rúmlega ellefu (minnir mig). Þarna var klukkan rétt að verða tvö. Ég hefði samt betur hent töskuandskotanum í geymslu, þarsem ég var orðinn frekar þreyttur á að bera helvítið þegar dagurinn var úti. En jæja.



Frá Charing Cross gengum við í suður og stoppuðum á einhverjum bar. Þar var Guinness (ekki sá síðasti), svo Fosters (vissulega sá síðasti), skoðuðum kortin okkar og ákváðum að snúa við og ganga í norður. Við gengum norður götuna sem lá í norður og komum loks að Forbidden Planet, sem virtist í fyrstu bara selja dótakalla og glingur en svo kom í ljós að neðri hæðin var pakkfull af myndasögum. Nú hefði verið gott að hafa tóma tösku, en ég bölvaði því ekki svo mjög, ég tímdi ekki að eyða miklu þarna fyrstu klukkutímana. Keypti American Flagg safn, v.1; Watchmench; og áritað eintak af The Amazing Remarkable Monsieur Leotard. Sem síðar kom í ljós að var ekki áritað heldur með límmiða í sem var áritaður. Næsti bær við samt.

Þaðan gengum við lengra í norður og stoppuðum í GOSH, sem er líka myndasögusjoppa. Við keyptum ekkert þar en þetta var kósí búð. Mér sýndist ég sjá dóttur Eddie Campbells að vinna þar, og síðar kom í ljós að það var rétt ályktað. Mér þótti það heldur undarlegt. Þaðan gengum við á Museum Tavern, þarsem ég drakk volgan bitter og við átum kjúklingavængi. Við héngum þar í nokkra bjóra og gengum svo á annan bar. Þá var klukkan orðin rúmlega fimm og fólk að koma úr vinnu. Einn bjór í gluggakistunni.



Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist næst en eitthvað segir mér að við höfum farið á annan bar. Við höfðum samt ákveðið að finna steikhús að nafni Metcalf og borða þar kvöldmat. Við gengum einhverja götu austur þangaðtil við vorum komnir allt of langt, snerum þá í suður, svo suðvestur og loks norðvestur. Það var ekkert laust á Metcalf en afgreiðsludaman vingjarnlega bauð okkur að setjast á barinn og hún myndi láta okkur vita.

Barinn var herbergi útfrá matsalnum (það sem ég sá af matsalnum var eiginlega bara langur gangur meðfram barnum, en það glitti í eitthvað aðeins meira þarna innst inni) þarsem fólk sat við drykkju. Bjórinn var generískur og drakkst úr vatnsglasi.

Ef ég man rétt þá fengum við borð áður en bjórinn var úti, og pöntuðum sæmilega stóra steik.

Á meðan maturinn var á leiðinni gerðum við það sem við höfðum gert á öllum þessum börum allt fram að því, í gegnum allnokkra bjóra, sem var að tala um daginn og veginn. Smámunalegustu atvik voru ekki beint krufin til mergjar, heldur kreist úr túpum augans og smurð oná brauð; athugasemdir um London og lífið í kringum Lundúnaferðina voru klippt uppúr matjurtargarði vænlegrar hugsunar og stráð yfir þetta sama brauð, sem var að lokum vakúmpakkað og stillt upp - sneið fyrir sneið - í samræðukjörborðum vitundar okkar, þarsem klasar augnablika ráfuðu um og tíndu oní sig passlega bita.

Steikin var mikið fín. Með henni fylgdu franskar og piparrótarrjómi, og örugglega sósa..



Ég man að gatan hét einhverju huggulegu nafni en ég hef ekki hugmynd um hvað síðasti barinn hét. Hann var á næsta horni. Þar var hægt að fá Hobgoblin á krana og leika píluspil. Mér fannst við bíða einhver lifandis ósköp eftir því að komast að en ég minnist þess samt ekki að mér hafi leiðst. Við tókum einn tvo leiki og þurftum síðan að hysja okkur af stað, renna suður á Charing Cross að sækja töskuna hans Davíðs og hitta Ými síðan á King's Cross Liverpool Street. Eða ég held það hafi verið King's Cross. Þar reyndum við að komast í síðustu lest til Sidcup en höfðum ekki erindi sem erfiði. Við tókum aðra lest í staðinn, sem fór eitthvað áleiðis. Þaðan gætum við síðan tekið leigara.



Stöðin sem við stoppuðum á var fábrotin og dimm. Líklega var það Það var Ýmir sem sá á næsta strætóstoppi að þangað kæmi næturstrætó allra síðasti strætó dagsins, sem færi alla leið til Sidcup Station. Eftir einhverja bið komum við okkur fyrir á annarri hæð strætósins og horfðum á mannlausar göturnar renna undir dekkin.

Víðir gaf okkur leiðbeiningar í gegnum síma og kom svo á móti okkur þegar við beygðum inní götuna hans, Grenville Road. Hann var dökkhærður með dálítið hár, en rakvélin var komin til að redda því. Íbúðin þeirra var á þriðju hæð sem sá niður þvergötu og það var enginn þrýstingur á sturtunni (en við komumst sosum ekki að því fyrren daginn eftir). Ég hlammaði mér niður á röð af sófapullum á stofugólfinu og sofnaði, en Davíð og Ýmir deildu rúminu hennar Tinnu. Ég svaf ósköp vel.

Hvaða ógnir leynast handan við bresk horn,
og bíða þess að merja hetjurnar okkar í svaðið?

Verður þeim tekið sem útsendurum IceSave ofanúr norðurfrosti
og hengdir á hásinunum úr rjáfrum Westminister..

..eða ná þeir að bræða hjörtu heimamanna með kjarnyrtum söng
og skála við Tjallana í Ern bru?

Fylgist með á næstu dögum.


-b.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst eins og þetta hafi gerst fyrir nokkrum vikum.. Lestarstöðin sem þið hittuð mig á heitir Liverpoolstreet og jú, það var ég sem sá næturstrætóinn. Við náðum þeim seinasta sem gekk þennan daginn.
Kúl ferðasaga.
-Ýmir.

Björninn sagði...

Glæsó, þetta hefur verið leiðrétt.

Já þetta virkar dálítið langt í burtu, en á hinn bóginn er tíminn líka ósköp fljótur að líða.. við þyrftum að fara að plana þýsku bjórferðina fyrr en síðar.

Nafnlaus sagði...

heiheihei, ég bað um mjólk, en ég fékk heitt kakó með rjóma.

Frábær ferðasaga Bjössi. Líkaði sérstaklega vel við söguna af því þegar þið voruð að borða steikina. Mér leið eins og ég væri að borða hana með ykkur.

Hlynur

Björninn sagði...

Tekk Hlynur. Og nú líður mér einsog þú hafir verið þarna með okkur. Verst hvað það er þröngt, þú þyrftir eiginlega að færa þig á hornið þarna við hliðina á Davíð.. þúveist, svo serverurnar komist framhjá.