18 apríl 2009

Ferðasagan - þriðji og fjórði dagur

Ég byrjaði óvart á fjórða degi og langaði þá bara að klára þetta, enda ósköp lítið að segja af honum. Hann er óeftirtektarverður lokahnykkur á góðri sveiflu. Áfram með smjör.

Nú færist ég alltaf lengra og lengra frá þessu, minningarnar dofna hægt en örugglega. Þá er ágætt að hafa myndir.. Ég kláraði fyrstu filmuna að kvöldi annars dags og keypti ekki aðra fyrren við vorum komnir niðrí miðborg, en átti samt eitthvað pláss inná símanum. Næstu efnisgreinar eru sóttar úr þynnku sem átti sér stað fyrir tæpum mánuði síðan, og ég styðst við gemsamyndir. Þetta verður gaman.

Þetta var í annað skiptið sem við vöknuðum í Sidcup og í minningunni rennur sá morgun saman við þann fyrsta. Ég veit að Víðir var á staðnum í þetta skiptið (daginn áður var hann farinn í skólann þegar við vöknuðum) en hann var þar líka að morgni fjórða dags. Þennan morgun sat hann á stól og las eitthvað, býst ég við? jólakortið sem ég hafði komið með handa honum.



Davíð og Ýmir lágu í rúminu sælir og glaðir. Þegar ég tók mynd settist Davíð upp af slíkum krafti að ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Ég efast ekki um að hann hafi skammað okkur aftur fyrir að vakna snemma, en þessi mynd er tekin á slaginu tíu:



Planið var óljóst. Við höfðum rætt um það að fara á Watchmen í IMAX en ég held að planið hafi verið að gera það á fjórða degi. Eða kannske ætluðum við að sjá til. Víðir þurfti að fara niður í skóla að sækja bækur og við þurftum að fá okkur að éta. Örlögin réðu svo að við sameinuðum hvortveggja í eina ævintýralega ferð niður brekkuna og upp aftur.

Fyrst borðuðum við smákökur sem Tinna hafði bakað. Ég fékk mér örlítið kaffi.

Við gengum sömu leið og við höfðum áður farið niður að lestarstöð, framhjá barnum sem við fórum ekki inná kvöldið áður, inní búð að kaupa vatn og gegnum garð þarsem trén voru. Við hittum tvær stelpur á leiðinni sem Víðir kannaðist við, önnur þeirra var með blautar hendur. Við litum á hvorn annan. Svo hittum við gaur sem bauð okkur í grillveislu. Framan við innganginn að Rose Bruford's var þessi gaur oní stéttinni:



Við innganginn þurftum við að skrifa nöfnin okkar á blað og fá barmmerki sem á stóð ,,visitor". Bæði förstneim og sörneim, svo það færi nú ekki á milli mála að við værum ekki hryðjuverkamenn. Við gengum strax útum aðrar dyr og komum inní einhverskonar garð. Til vinstri var hópur af fólki að setja upp einhverskonar míní-sýningu og aðrir að fylgjast með. Eftir því sem við gengum lengra inn og að ,,torginu" færðu þau sig úr skotinu og lengra inní garðinn hægra megin við okkur með hrópum og ýktum hreyfingum. Það var enn ekki komið hádegi en ég held að þau hafi verið að gíra sig hægt og rólega upp í einhverskonar Bakkanal sem myndi ná hámarki í grillveislunni þá um kvöldið. Sauðdrukknir menn að slást með gerivilimum á brunastiganum og blóðþyrstar Bakkæjur að rífa vegfarendur í ræmur, Dyonísus glottandi á húsþakinu með kórónuna í annarri hönd og Bakkardí Breezer í hinni.. Meira um þessa grillveislu síðar.

Víðir skildi okkur eftir í smá stund á meðan hann fór og sótti bækur á bókasafnið. Við töluðum um áfengi og ég tók leiðinleg myndbönd. Davíð var með viskí í töskunni sinni og ég benti á George Bush sem hékk á handriðinu þarna fyrir ofan.



Á leiðinni heim gengum við framhjá veitingastaðnum Sophie's Choice og þótti það vægast sagt athyglisvert nafn. Við vorum svangir en við vildum ekki deyja sjáðu til. Og á svona veitingastað er pöntunarferlið svohljóðandi: Þú og tveir vinir þínir setjist við eitt af borðunum. Þú velur einhvern rétt af matseðlinum og um leið velurðu annan af vinum þínum til að senda í útrýmingarbúðir nasista. Þið tveir sem sitjið eftir fáið réttinn sem þú valdir á tveir-fyrir-einn tilboði. Gúdd tæms.

Í staðinn stoppuðum við á delíi þarsem ung og fögur stúlka afgreiddi samlokur sem gömul smurbrauðsdama framleiddi bakvið hvítar dyr. Ég fékk mér samloku með kjúklingi og eitthvað held ég. Við röltum aftur upp brekkuna og átum heima hjá Víði. Davíð skildi viskíið sitt eftir og ég setti mitt viskí í töskuna mína.

Niður brekkuna. Lest til London. Piccadilly Circus? Keypti aðra einnota myndavél.

Við stoppuðum fyrst á HMV og skoðuðum DVD og svona. Ég keypti Garth Marenghi's Darkplace, Spaced, Batman Begins og The Dark Knight. Svo gengum við á Leicester Square og fengum okkur bjór á efri hæð barsins Crooked Surgeon.



Það var rúbbíleikur í gangi sem við horfðum á svona í og með, England-Skotland. Ég man að Hallur hringdi og sagði mér að Gunnar bróðir hans væri að uppnefna bílinn minn. Við röbbuðum um eitthvað, tókum vídjó og ég tók mynd af myndavélunum okkar (en það vantaði 180° vélina hans Davíðs, hún var líklega eftir heima):



Davíð langaði að fara í bókabúð og skoða einhvern hlut, okkur skildist að það væri Waterstone's á Oxford Street þannig að við gengum þangað. Við fundum hattabúð þarsem ég keypti hatt, ritfangabúð þarsem ég keypti tvær moleskine bækur (svarta og rauða), við stoppuðum á Starbucks þarsem ég fékk te í glas og við breyttum breska kaffinu hans Davíðs í írskt kaffi. Með viskíi.

Ég man ekki hvaða húsnúmer átti að vera á þessari bókabúð en við föttuðum alltíeinu að við höfðum gengið framhjá henni, gengum tilbaka og þá var búið að loka henni. Jæja. Gengum aðeins lengra og stoppuðum á The Tottenham. Þar var næsti rúbbíleikur í gangi, Írland-Wales. Við drukkum allskonar bjór. Einn grænan, sem hét Sign of Spring:



Þegar við höfðum setið þarna í einhvern tíma og Írland hafði unnið Wales í spennandi leik fórum við að tala um grillveisluna. Víði langaði í barbíkjú og að henda draslinu heim og svona, en við nenntum ekki lestarferðinni og langaði að borða niðrí borg. Við fórum niður einhverja þvergötu og fundum þar víetnamskan stað eða eitthvað, en það var biluð röð á hann.

Við gengum aðeins lengra og stoppuðum á steikhúsi. Eða það hét allavega steikhús. Minnir mig. En í minningunni er eitthvað austurlenskt við staðinn? Maturinn var sæmilegur, allsekkert góður en ekki slæmur. Og við biðum heillengi eftir honum. Þegar reikningurinn kom notuðum við einhverja seðla og allt klinkið sem við fundum til, en þá vantaði enn fimm pund eða eitthvað. En sko, þjónustugjaldið var reiknað inní alltsaman, þannig að við ákváðum að við hefðum beðið of lengi og að þjónustan hefði verið undir meðallagi. Og gengum út hröðum skrefum.

Við vorum komnir nokkra metra í burtu þegar Víðir fattaði að hann hafði gleymt hattinum sínum inni á staðnum. Hann fór og sótti hann og var umsvifalaust gripinn og látinn borga það sem uppá vantaði. Hann sagði okkur söguna af því.



Hinumegin við götuna var staður þarsem hægt var að spila pool en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var öll meðferð áfengis bönnuð á staðnum.

Nú held ég að við höfum tekið lest til Camden?

Við lentum allavega inni á rokkabillíbar sem hýsti bæði Lou Diamond Phillips og nýnasista. Ég er með mynd af þeim fyrrnefndu en ég ætla að láta þessa duga:



Þaðan fórum við á einhvern mínídansstað. Hann var bleikur og blár. Þetta var líklega lummulegasti staðurinn sem við heimsóttum í þessari Lundúnaferð: Hann var lítill og þröngur, tónlistin ömurleg og bjórinn kjánalega dýr. Í dyrunum voru tveir gaurar sem vildu leita í töskunni minni og svona, ég leyfði þeim það og mundi ekki eftir viskípelanum fyrren annar þeirra hafði tekið hann af mér. Ég sagðist hafa gleymt að ég væri með hann og hvort ég gæti ekki fengið að bakka aðeins og geyma hann einhverstaðar. Gaurinn sagðist mundi geyma hann fyrir mig, ekkert mál.

Við vorum ekki lengi þarna inni, aðalatriðið var held ég að drepa tíma þartil við gætum farið og hitt vini hans Víðis einhverstaðar nálægt og farið á klúbb. Ég fékk viskípelann minn aftur á leiðinni út og ákvað að fela hann vandlega næst þegar við færum inn einhverstaðar.

Nú verður að segjast einsog er að ég man voða lítið af framhaldinu. Ég tók mynd af strákunum þegar við hittum þá:



en ég man ekki eftir því. Á einhverjum tímapunkti vorum við komnir fremst í röðina og þar voru tveir gaurar sem vildu leita á mér. Nú hafði ég falið pelann einhverstaðar (miðað við ástandið á heilanum þá stundina tel ég líklegasta staðinn hafa verið í innanávasanum á frakkanum mínum) en hann fann hann undireins. Hann rétti félaga sínum pelann og sá kom honum fyrir þarna aftanvið sig og svo leituðu þeir báðir vandlega á mér. Ég stóð, þuklaður, og sá hvar Víðir (sem hafði komist inn rétt á undan og var við búrið að kaupa miða) teygði sig í pelann. Ég var með hann inná buxnastrengnum það sem eftir lifði og drakk og drakk..

Staðurinn var stór. Ég var á stöðugri ferð minnir mig.. Það var eitt stórt dansgólf, annað minna á hæðinni fyrir ofan, setustofa við hliðina á því. Þaðan lá gangur eitthvert áfram og niður stiga og eitthvað vesen og þar komst maður út í port að reykja. Það var bar á neðri hæðinni. Á einhverjum tímapunkti hætti ég að þvælast hingað og þangað og fór með strákunum niður á dansgólf. Þetta gæti hafa verið um það leyti sem ég kláraði úr / týndi pelanum. Ég tók þessa mynd af Víði að dansa.



Mér skilst að ég hafi líka týnt myndavélinni og að vingjarnlegur svartur maður hafi fundið hana og gengið um dansgólfið og spurt fólk hvort það hefði týnt svona grip. Var það Davíð eða Ýmir sem greip hana? Það var allavega ekki ég.

Dansi dans. Þá gerist lítið.

Daginn eftir vakna ég. Ég ímynda mér að upplitið á manni hafi verið heldur lágt þarna undir restina, hér er mynd af Davíð:



Í fyrsta skipti fannst mér sem ég hefði ekki sofið nógu vel. Pullurnar voru farnar að renna til á gólfinu, ég skildi reyndar ekki hversvegna þær hefðu ekki gert það allan tímann en það var greinilegt að þetta tímabundna flet var að flosna í sundur. Við vorum svangir. Við vorum að fara heim seinnipartinn. Ég hafði ekki verið vakandi lengi þegar ég fékk að heyra söguna af heimferðinni, eða lokapunktinum á þeirri ferð a.m.k.

Víðir hafði fundið einhvern gaur til að skutla okkur heim. Þetta var ekki leigubílstjóri þannig séð, en hann tók 50 pund fyrir að keyra okkur til Sidcup. Þegar við erum komnir úr bílnum, einhvernvegin í helvíti, missi ég gleraugun mín á jörðina og gaurinn keyrir yfir þau á leiðinni burt. Þau voru ónýt. Þau voru skraut. Þau eru í bílnum mínum núna held ég, ég er enn ekki búinn að fá önnur.

Jæja.

Ég varð furðulega lítið fúll útí sjálfan mig fyrir að hafa eyðilagt þessi blessuðu gleraugu. Hefði ég t.a.m. týnt myndavélinni hefði ég líklega skammast meira útí sjálfan mig en fyrir þetta með gleraugun. Lógíkin var einhvernvegin svona: Ég var sauðdrukkinn, hefði ekki átt að vera með gleraugun á nefinu hvorteðer. Ókei. En ég missti þau hvergi niðrí bæ, beyglaði þau ekki á einhverjum bar, heldur komst ég með þau heim. Hefði melurinn sem keyrði bílinn ekki kramið þau þá væri enn í fínu lagi með þau. Þannig að ég var svona nokkurnveginn stikkfrí.

Ekkert sérstaklega sannfærandi kannske, en ég var held ég ennþá dálítið fullur. Á fjórða degi var ekki hægt að tala um smellandi þynnku heldur einhverskonar aflíðandi halla ofaní skurðinn. Ég tók þessa mynd af gestgjöfum okkar (stelpunum þ.e.a.s.):



Og nú sé ég að smákökurnar voru bakaðar að morgni fjórða dags, ekki þess þriðja einsog ég hélt fram áður.

Við tókum okkur saman og gengum upp brekkuna á KFC. Gengum svo aftur heim. Á leiðinni kætti ég strákana með leikrænum tilþrifum og dramatískum upplestri úr hugskoti mínu. Þeir hvöttu mig áfram en þegar við lentum aftur í íbúðinni ákvað ég að láta gott heita. Maturinn var grunsamlega líkur því sem maður á að venjast hér heima. Ég lagðist í rúm og við hlustuðum á QI þátt. Þynnkan í herberginu var áþreifanleg.'

Ég tók síðustu myndina á aðra filmuna:



Stuttu síðar pökkuðum við Davíð og Ýmir saman og röltum niður brekkuna í hinsta skipti, keyptum passa og biðum eftir lestinni. Við lentum á Charing Cross held ég, settum töskurnar okkar Davíðs í geymslu og gengum yfir King's Cross (eða eitthvað torg allavega). Ég keypti þriðju myndavélina, einn minjagrip eða svo og svo stoppuðum við á Leicester Arms. Síðasti Guinnessinn í Lundúnum þar, og nokkrar flögur. Ýmir var að fara með fyrri vél þannig að hann kvaddi, ég hef ekki séð hann síðan. Við Davíð dokuðum við og röltum loks uppá Oxford street að leita að bókabúðinni.

Við fundum tvær. Ég man ekki hvort Davíð keypti nokkuð en ég eyddi síðustu 20 pundunum í veskinu mínu í Watching the Watchmen. Hún var á tilboði. Meira drasl til að bera heim.

Á leiðinni aftur á Charing Cross lentum við í smá metró-veseni sem ég fer ekki útí. Það var mér að kenna og tók ekki svo langan tíma. Sóttum töskurnar, fórum í lestina niður á flugvöll, Piccadilly Line.

Á leiðinni las ég spjald á veggnum þarsem maður var vinsamlegast beðinn um að gá frá hvaða flugstöð maður ætlaði að fljúga. Þær væru nefnilega 5 talsins á Heathrow og það skipti máli hvar maður ætlaði að stoppa. Víðir reddaði þessu fyrir okkur, ég hringdi og hann gáði á netið. Tekk Víðir.

Allt flugvalladæmið var ekki í frásögur færandi. Borðaði einhvern mat. Keypti eitthvað drasl. Rölti að hliðinu. Horfði á Master and Commander á leiðinni heim en gat ekki sofnað. Líkaminn í uppreisn. Keypti flösku af sama viskíi og ég hafði haft innanklæða nóttina áður. Nanna og Ingibjörg sóttu okkur á flugvöllinn. Ég fékk að borða og drekka. Svo sofnaði ég.

-b.

Það verður ekki af sögumanni okkar tekið
að hann metur persónur sínar ekki mikils
og áheyrendur enn minna.

Hvar eru ævintýrin sem hinir öldnu segja frá,
ránsferðir, skáldabrennur, bardagar, lystisnekkjur,
allt þetta sem við viljum heyra?

Gallið í hálsinum og bruninn niður mænuna,
þetta vantar, heimurinn er grár
og sögurnar líka.

Fylgist ekki með í næsta þætti.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég var að lesa jólakortið sem þú komst með til mín

Björninn sagði...

Hei alveg rétt. Víðir.