17 júlí 2008

Fjólan eftir Eyjólf Guðmundsson, bónda


Hingað kom ungur maður sem ég spurði ekki að nafni, en hann var auðheyrilega bandarískur. Hann vildi fá að vita hvort við ættum ljóðabók sem forfaðir hans hefði gefið út, sýndi mér mynd af honum og hvaðeina. Og viti menn, hún var til í þéttiskápunum bakatil. Hann fékk að ljósrita hana hjá mér, blessaður.

Þetta er lítið og nett kver, 13x10cm og utaná stendur:

FJÓLAN

Ljóðmæli
eftir

EYJÓLF GUÐMUNDSSON

Fyrrum bónda á Geitafelli á Vatnsnesi
Í Húnavatnssýslu
Núverandi í Spanish Fork Utah
U. S. A.

_________

Eyrarbakka
1913



Höfundurinn er sumsé Eyjólfur Guðmundsson 1829-1913.

Að ljósritun lokinni þakkaði hann fyrir, sagðist nú bara þurfa að læra íslensku. Ég hefði e.t.v. getað snarað einni tveimur línum fyrir hann en hann virtist vera á hraðferð. En hér er fólk sem les íslensku, hví ekki að upprita nokkrar hundrað ára gamlar vísur?

.....

Skáldið talar um sjálfan sig.

Fæddur ellefta október, átján hundruð tutt-
ugu og níu, samvizkan mig nú sárt því sker,
sóað hef æfidögum frýju.

.....

Staka um Mormóna.

Mormónanna ályktun,
um sín kraftaverkin merk,
á því hefi eg altaf grun,
aldrei hafi verið sterk.

.....

Iðrunarvísa
fyrir burtför mína frá Íslandi, sem eg mun ætíð
eftir líta.


Vangæslan af flýtir flótna,
hvað á sannast mér það granni:
hugsnildanna í djúpi drotnar,
drottinn bannar engum manni.

.....

Stökur.

Utah ríki, eg komst í og fékk ríkdóm skerðað,
lifi á snýkjum upp frá því, illa líkar mér það.

Margir góðir Mormónar, mun eg ljóða hér og þar,
það áhlóð mitt þankafar, þeirra ófróðu kenningar.

.....

Um Runólf prest.

Trúar iðinn verk vinnur,
viður riðinn lútherskur,
nóg atriði nú hefur
nettmennið hann Runólfur.

Nú þess rara mælskumanns,
meðfylgjara tónandans,
og held bara' að orðsnild hans
um álfur fari víða lands.

Trúarlestur lofsverður
listaperstur sá verður,
og vill mestan árangur,
á því sést hver meðlimur.

Ritninguna rækir hann,
rétt um grunar sannleikann,
þar í unun finna fann,
fær umbun í himnarann.

.....

..já, þessi síðasta flýtur með eingöngu vegna þess að hann talar um himnarann.

Titlarnir eru nettir og lýsandi. ,,Stök vísa", ,,Stakar vísur", ,,Vísur ýmislegs efnis", ,,Stökur", ,,Vísur", ,,Sitt af hverju", ,,Sundurlausar vísur", ,,Sama efni" (kemur strax á eftir vísu sem nefnist ,,Um hjúskap minn"), ,,Sitt af hverju", ,,Um sitthvað" (kemur tvisvar fyrir), ,,Vísur til manns er skrifar illa í blöðin" og ,,Kveðið um sjálfan mig" -- sem er ekki sú sama og ,,Skáldið talar um sjálfan sig".

Sosum ekkert frekar um það að segja.. Mér þótti bara gaman að þessu.

-b.

Engin ummæli: