10 júlí 2008

Efemía ephemera ef-að-þú-mátt-vera-að

Í fyrradag fór skjárinn á símanum mínum að detta út, hann byrjaði á að bráðna útí hvítt, reyndi svo að hífa textann upp aftur en hékk þess í stað í einhverskonar limbói þarsem upplýsingarnar mínar dúkkuðu uppúr tóminu en hurfu jafnóðum aftur. Þetta gerðist akkúrat á því augnabliki sem ég var að fletta í símaskránni til að lesa í hinn símann. Það reddaðist að vísu fyrir rest.

En skjárinn hélt áfram að detta út og inn. Náttúrulega orðinn tveggja og hálfs árs, næstum.. Þetta eru einhverskonar elliglöp. En ég þarf sem betur fer ekki að setja hann á hjúkrunarheimili og klæða hann í sparifötin þegar það er stórafmæli í fjölskyldunni; ég slekk bara á líkamanum og set hann uppí hillu, plokka úr honum gráu sellurnar og kem þeim fyrir í nýju boddíi.

Ég keypti mér þá nýjan síma í gær, hann heitir E51. Ég kalla hana Efemíu. Svo tengdist ég þráðlausa netinu heima, kenndi henni að tengjast gmailnum mínum gegnum imap og sendi þessa mynd á blogger, þessa hér fyrir neðan. Ég hafði ekkert spennandi myndefni neitt þannig að ég sendi bara mynd af sjálfum mér, þungt hugsi.

Enn sem komið er hef ég bara talað við eina einustu manneskju í gegnum þetta nýja græ, en það er Freyja systir hans Egils. Þau kíktu í heimsókn í gær, systkinin, ásamt gaurnum hennar Freyju og fjórða manni, að skoða íbúðina okkar. Ég var semsagt þegar búinn að setja hana í samband við eigandann, þau eru að spá í að taka við íbúðinni þegar að því kemur.. mér skilst að eigandinn sé mjög feginn því að þurfa ekki að auglýsta íbúðina aftur o.s.frv. Og það er gott að koma góðu fólki að.

Ég var samt orðinn svo óskup vanur því að eiga heima þarna. Dem.

-b.

Engin ummæli: