20 mars 2012

Ég var búinn að gleyma þér

Ekki lengi. En samt alveg. Ekki bara smá.

Að gleyma smá. Speisað!

En ég er semsagt búinn að vera slappur og orkulaus í nærri mánuð, sennilega mest líklegast útaf vírus sem Nanna var með á undan mér. Ég hef ekkert getað reynt á mig án þess að gefast strax upp.

Kollegi minn í vinnunni spurði mig hvernig þetta lýsti sér, ég sagði að þetta væri alls ekki einsog að verða þreyttur eftir átak, heldur einsog að vera ekki alveg vaknaður. Þarna þegar maður er að fara á fætur og er ekki kominn með kraft í útlimina ennþá, vaknaður af svefni. Tilfinningin er ekki svo sterk, en hún er meira í ætt við það en annað. Máttleysi.

Og svo heldur maður að maður sé bara ekki búinn að borða nóg, en svo verður maður enn þreyttari af því að borða.. Sem er furðulegt útaf fyrir sig. Að meltingin geri mann örendan.

Eitthvert skiptið var ég að tala við Hall í síma og hann spurði mig hvað væri að gerast, ég sagðist vera með kvef, og hann stoppaði mig af. Nei nei nei nei, sagði hann, við erum ekki orðnir gamlir karlar sem hringjast á og tala um það hvað þeir eru veikir. Þannig að við fórum að tala um annað.

Nú sit ég fyrir framan internetið og tala um það í staðinn. Röflið vill út!

Á morgun fer ég í viðtal hjá Víðsjá til að tala um myndasögusamkeppnina.

Í gær var ég í vondu skapi og fór að fara í gegnum gamla pappíra og drasl, sortera, henda, geyma. Það væri færsla útaf fyrir sig, eða nokkrar. Þar á meðal var dagblað sem ég mundi ekki eftir, eða skildi ekki afhverju ég hafði viljað geyma. Aftarlega í því fann ég mynd af okkur Agli og Ými á Halló Akureyri 1999. Við erum ungir. Rosalega ungir.

Á netinu finn ég 'blaðaklippu' frá því þegar ég var aðeins eldri, að ausa vatni yfir busa. Er ég með augnskugga?

-b.

Engin ummæli: