08 september 2009

Af vísi (eða: Hvað er málið með þessar löggur, þrítugasti og áttundi hluti)

Tveir útlendingar, sem búsettir eru hér á landi, klifruðu í nótt upp vinnupallana á Hallgrímskirkju í Reykjavík og fóru inn í klukknaportið. Þar fóru þeir að hringja kirkjuklukkunum með því að slá í þær með verkfærum, sem þar eru á vegum verktakans, sem vinnur að viðgerð á turninum. Lögreglu var tilkynnt um málið laust upp úr klukkan tvö og þar sem mennirnir vildu ekki koma niður, þurftu lögregluþjónar að klifra upp vinnupallana, við hættulegar aðstæður, og sækja mennina. Þeim var sleppt, enda liggja ekki sektir við svona athæfi.

Athæfið er ekki sakhæft, en lögregluþjónarnir þurftu samt að klifra uppá vinnupallana viðhættulegar aðstæður?

Maður spyr sig hvort þetta orðalag komi frá lögreglunni eða fréttaritara Vísis. Það er náttúrulega gaman að fíla sig sem hetju í háska, jafnvel þótt engin sé ástæða til, og þá er um að gera að fólk viti af hættunni, hugrekkinu, nauðinni.

...

Eða hvað, er það hluti af þjónustu við borgarbúa að draga drukkna Pólverja niður af klukkuturni þarsem þeir halda vöku fyrir Þingholtunum? Eflaust væri ég á þeirri skoðun, ætti ég heima þar. Og ég ímynda mér að fréttin gefi litlausa, kornótta, einvíða mynd af útkallinu einsog það birtist í nótt.. Hversvegna er samt það fyrsta sem mér dettur í hug, þegar ég les svona fréttir, að löggan sé á villigötum?

Er ég gamli maðurinn sem var eltur af hundi sem barn, og heldur nú á lofti öllu illu um hunda, sönnu eða lognu?

Þetta er ekki beint krísa. En maður verður að hugsa útí það afhverju maður hugsar það sem maður hugsar.

Annars veit maður ekki fyrren maður er farinn að sparka í hunda og rausa um allsherjarreglu í sjónvarpi.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú ert bara lögguhatari og anarkisti

-V-

Björninn sagði...

Takk maður.

Bé.