26 júní 2009

Hann stendur ekkjá mér

Muniði eftir senunni í Invisibles þegar þau eru á dænernum þarna útí sveit, á leiðinni að sækja eyðnis-bólusetningalyfið, og einhver (Mason?) er að tala um að tíminn hafi verið að hraða á sér undanfarin ár? Þetta tengdist því að heimsendir var ákveðinn árið 2012 og maður sá fyrir sér línu sem sveigðist ögn niðurávið (eða uppávið?) þegar kom að endalokunum, einsog lopi sem liggur útfrá hnykli og byrjar að hringa sig utanum hnykilinn áður en hann snertir massann sjálfan. Þannig hraði tíminn á sér áður en hann hverfur í gegnum eyðu í 3. víddinni.. eða eitthvað.

Já þannig eru semsagt vinnuvikurnar. Stundum. Eða alltaf, þegar þær eru búnar.

Viðkvæðið í Skaftahlíðinni var það að nú væri strax kominn þriðjudagur. Þarmeð var vikan svo gott sem búin, bara formsatriði að ljúka henni af.

Var vísindaskáldskapur æsku minnar endurvarp hversdagsvinnuviku höfundarins? Þess sem gleypti dóp og talaði um geimverur og skrifaði sig inní skáldskapinn til að lækna fallið lunga og giftast draumadísinni?

Og svarið kemur: En ekki hvað?

Einsog anarikismi sem gengur of langt í þá áttina og kemur síðan tilbaka úr hinni, og þá í jakkafötum eða samfestingi Hitlersöldrunar (einsog King Mob aftur) þá er ekkert fantasískara, ekkert brjálaðra og gersamlega útí hött einsog hversdagurinn sé hann grannt skoðaður. Patrick Swayze vaknar í svitakófi í lok Donnie Darko: dreymdi hann það sem við héldum fyrst - að einhver hefði flett ofan af honum á meðan hann svaf í framtíðinni - eða var það tilhugsunin sem lagðist yfir hann þegar heimurinn datt aftur í liðinn, að veröldin væri ekki lína, að hún væri ekki einusinni lína sem bítur í skottið á sér (eða baugur, til að giftast útúr vökunóttum), og ekki heldur kúla (einsog Invisibles aftur) heldur ský í fjórðu víddinni. Ekki einsog við sjáum það heldur einsog það hugsar um sjálft sig.

Þá er hringurinn misskilningur. Línan endar ekki einsog á borðbrún og hún bítur ekki í skottið á sér, hún er ljóseind á lengd og hún brennir í gegnum sjálfa sig í takt við skýið sem dregur andann. Gufan dregst saman þegar kólnar, haustið í líkamanum, mér verður stundum kalt á höndunum orðið.

Setjum sviga utanum þetta í bili.

Ég er að flytja í enn eina íbúðina í haust, bráðum get ég farið að setja bækur í kassa. Ég fer í sumarfrí fyrsta ágúst og get farið að færa á milli í rólegheitunum. Nú held ég að sumir kassarnir haldist lokaðir, ég komi þeim fyrir þarsem lítið ber á, velji frekar í hillurnar það sem ég vil hafa uppi við vegg. Er þetta annað sem gerist? Einsog maður taki ákvörðunina ekki sjálfur heldur að hún birtist manni alltíeinu þegar maður kemur fyrir hornið.

Ekki eitthvað ákveðið horn, sem búið er að vara mann við og setja upp skilti og þessháttar. Bara eitt af þessum götuhornum sem maður tekur ekki eftir fyrren maður gengur á einhvern og man það uppfrá því.

Engin línulegheit, ekkert drama. Eða er það mín skynjun, rosa móðins? Er það annað sem gerist?

Við erum að fara að grilla hjá Hlyni á eftir, það er búið að vera sól með köflum í dag sýnist mér, veðurspáin fyrir kvöldið segir heiðskírt og 15 stig.

Ég er enn að lesa The Confusion, fæ hugmyndir fyrir ritgerðina af og til en er ekki byrjaður að lesa neitt af viti, við Nanna vorum að byrja á 2. þáttaröð af The Wire. Ég kem til með að skrópa í ræktinni í dag og þyrfti þessvegna að gera eitthvað um helgina í staðinn. En ég er að vinna?

Vinnuvikan er semsagt ekki alveg búin, hún verður eina viku í viðbót.

-b.

Engin ummæli: