06 ágúst 2007

Versló núll sjö

Kannske er alltof auðvelt að byrja bara að tala um hvað gerðist þessa helgi, án þess að fara útí það hversu mikil pressa er á fólki að njóta hennar. Þetta er eitthvað sem hangir í loftinu, sérstaklega þegar maður veltist um í grasbala á útihátið, en litlu minna niðrí miðbæ. Nú skal vera gaman. Svipað og um áramótin, gamlárskvöldið á að renna saman við nýársmorgun í taumlausri gleði þarsem fólk þykist vera að endurskapa viðteknar hugmyndir um fyllerí. Og svo er helmingurinn á bömmer því það var ekki nógu gaman, að hluta til vegna þess að maður var of meðvitaður um að það ætti að vera meira fjör í gangi en raunin er.

Nei samt, áramótin eru alveg kafli útaf fyrir sig. Verslunarmannahelgi er dreift á nokkra daga, það virðist eiginlega skipta meira máli að drekka nóg heldur en að hafa mest gaman í heimi. En það gekk að minnsta kosti upp í mínu tilfelli. Jei.

Nokkrir bjórar á miðvikudaginn eftir vinnu. Ég hitti Davíð á Austurvelli og við gerðum rosalega uppgötvun í Ríkinu á Austurstræti. Svo fórum við heim að glápa á vídjó: Color Me Kubrick. La la.

Sullað í bjór með Davíð og Víði og Agli á fimmtudaginn. Við kíktum niðrí bæ, en vorum ekki lengi.

Hallur kom í bæinn á laugardaginn og kíkti með okkur Davíð á Planet Terror. Fylleríisbíó, sem ég hef ekki gert í háa herrans tíð. Æðislega gaman.. þessi mynd er púra bíó. Við hlógum og kölluðum og vorum með almenn læti. Fólkið sem sat við hliðina á okkur færði sig í hléinu. Svo fórum við á Dillon og Kaffibarinn og Ellefuna, ég hitti Huldu en man ekki hvað okkur fór á milli. Hún var með húðflúr.

Við Hallur eyddum laugardeginum í seigfljótandi þynnku, lágum einsog hrúgur af blautum handklæðum, hlustuðum á dauðametal og horfðum á Mr. Show fram til klukkan að verða sjö. Kíktum þá í mat til Inga Bjarnar þarsem við drukkum hvítvín og bjór og fórum svo niðrí bæ. Ellefan, Kaffibarinn, Kofinn, Café París. Tiltölulega snemma heim.

Sunnudagsþynnkan var mild en ákveðin. Hún gjörði mér kunnugt, svo ekki yrði um villst, að hún væri ekki á förum. Hún situr hérna við hliðina á mér núna og hæðist að mér: Ha ha, þú hreyfir þig undarlega og þér líður skringilega í hálsinum og þú ert þreyttur jafnvel þótt þú hafir sofið í tíu tíma. Ég var samt kallaður til vinnu í gær, sunnudag, því Mikael þurfti að díla við eitthvað vesen. Ég fór þangað eftir að við Hallur höfðum kíkt í heimsókn til Inga í vinnuna og tékkað á lokaðri ísbúð. Það var nákvæmlega ekkert að gera. Ég sat og las 100 Bullets og Give Me Liberty og var allur þembdur og ómögulegur. Gummi Torfi kom í heimsókn, óvart held ég. Hann var á leiðinni í fjölþjóðapartí, sagðist bara eiga doktorsritgerðina eftir. Alltaf í Amríku.

Annars held ég að ég noti frídaginn í að gera mikið fátt. Borða kannske. Horfa á sjónvarp. Ætla að tékka á míníseríu að nafni The Company, taka inn einn Entourage og svo er að síga á seinni hlutann í John From Cincinnati. Setja í þvottavél. Hugsa um stríð og óendanleika.

-b.

Engin ummæli: