24 júlí 2007

lesiglápiles

Ókei þannig að helgin var bara fín. Ég kíkti í alls tvö partí, nokkrar heimsóknir, sirka sextán bjórdósir, ópalflösku og viskípela (þó ekki einn) og grillhúsið. Það var gott að komast út. Í kvöld vann ég sex tíma og ég geri það sama á morgun, frá klukkan sex til tólf. Svo byrja ég aftur á vöktunum mínum á föstudaginn.

Rætt í vinnunni í dag. ,,Á stöðinni": Nýr íslenskur sjónvarpsþáttur þarsem ég og útimaðurinn minn erum annaðhvort með spjallþátt að hætti Bandaríkjamanna (ég sit í stólnum mínum og segi brandara við kúnna á meðan útimaðurinn spilar á hörpu útí glugga) EÐA gamanþáttur þarsem fólk er drepið á hrottafenginn hátt hægri vinstri, ekki afþví það er fyndið heldur afþví það er ekki lengur fyndið að vera fyndinn.

Myndasögur:

Ég er ennþá að reyna að komast í meira Daredevil dót. Næsta Frank Miller safnið er í töskunni, nokkrar sögur þar sem ég man vel eftir. Ég gáði í möppuna sem ég keypti í Perlunni um daginn en þar er enginn Djöfsi, bara Kóngulóarmaðurinn og Leynistríðið og smávegis.. Frábær Fjögur (?). Og núna sæki ég blöðin sem Brubaker hefur skrifað, en hann tók við af Bendis þarna um árið.

Las fimmtu Punisher bókina hans Ennis, í röðinni sem hann hefur gefið út í MAX-línunni hjá Marvel. Hún kom mér á óvart. Las þá fyrstu líka og nú langar mig að lesa restina. Það að Dillon skuli vera fjarri góðu gamni er náttúrulega stór plús, en ég hugsa að Refsarinn njóti sín einfaldlega betur þegar hann er bannaður innan sextán. Hvað sem veldur þá þykir mér það góð tilbreyting að geta lesið Ennis og haft gaman af því.

Nú hef ég lesið allar Ástríks-bækurnar sem safnið hefur í hillunum. Þetta er mikil klassík lengst af, en það er hálfneyðarlegt að horfa uppá Uderzo reyna að skrifa einsog Goscinny þegar sá síðari er fallinn frá. Sérstaklega þarsem hann kann hreinlega ekki að smíða heilstætt plott. Asterix and the Actress, Asterix and Obelix All at Sea og Asterix and the Flying Carpet eru allar hræðilegar. En Goscinny var greinilega með á nótunum allt þangað til hann dó: Næstseinasta Ástríks-bókin sem hann skrifaði, Obelix and Co., er klárlega með þeim bestu.

Lélegt samt hvað bókasafnið á lítið til af þessum bókum á íslensku.

Gerði aðra tilraun til að lesa Kid Eternity, því maður kallar sig jú aðdáanda Morrisons. En ég bara get þetta ekki. Teikningarnar virka ofhlaðnar og útí bláinn og ekkert á þessum fyrstu síðum fær mig til að vilja halda áfram að lesa. Það er einsog einhver hafi pantað frá Morrison bók sem leit út einsog Arkham Asylum og Morrison hafi verið þreyttur og blankur þann mánuðinn. Og hatað myndasögur, og fólkið sem les myndasögur.

En maður reynir aftur seinna. Skrýtið hvað hann á til að misstíga sig illa þegar hann misstígur sig á annað borð. Flestallt fíla ég en þessi bók, Kill Your Boyfriend og St. Swithin's Day eru ekki bara slæmar heldur virkilega slæmar.

Og hvað meir. Tvær bækur eftir Jason, Tell Me Something og The Left Bank Gang, sú fyrri frá '04 og sú síðari kom út á síðasta ári. Báðar fínar, The Left Bank Gang e.t.v. skemmtilegri því hugmyndin er svo léttrugluð: Hemingway, Pound, Fitzgerald og Joyce eru allir myndasöguhöfundar í París og þeir ákveða að fremja bankarán. Hvorug nær samt í skottið á Why Are You Doing This?, en maður getur sosum ekki ætlast til þess.

Sú heitir á frummálinu Jag vill visa dig något. Skrýtið.

Sjónvarp:

John From Cincinnati er furðulegasta dót í sjónvarpinu akkúrat núna. Síðasti þáttur sprengdi huga minn. Ég gapti ráðvilltum augum á skjáinn og sagði ,,ha" aftur og aftur, og það er ein af þessum góðu tilfinningum þiðvitið. Ég þurfti að horfa á fyrsta þáttinn þrisvar sinnum áður en ég náði öllu því sem var að gerast og hann var frekar einfaldur miðað við það sem kom í kjölfarið. En svo lengi sem manni er skemmt í annað eða þriðja eða fjórða skiptið sem maður horfir á sjónvarpsþátt þá er ekkert að því nema síður sé. Gó Milch.

Og Entourage sparkar boltanum í góða netið - ekki vonda netið - hverja vikuna á fætur annarri. Mishart, að vísu. Nú er svo komið að ég man ekki lengur hvernig fyrstu þættirnir voru nákvæmlega.. mig grunar að þetta sé ekki alveg sama partíið, en þetta virkar.

Og hvað haldiði að maður hafi ekki fengið fyrstu tvo þættina af Dexter, annarri þáttaröð. Þeir verða svo ekki sýndir í sjónvarpi fyrren í október eða einhvern andskotann. Fyrsti þátturinn grúvar. Sei sei já.

Annars er sumar. Maður horfir mest lítið á sjónvarp.

Ég kippti með mér bókinni The Prestige, þeirri sem myndin er gerð eftir. Mig langar að vita hvort uppljóstrunin sem var í raun og veru engin uppljóstrun í myndinni sé jafn mikil uppljóstrun í bókinni. Mér fannst hún persónulega vera of augljós og nógu óviðkomandi stóra plottinu til að vera uppljóstrun, og fannst þannig ekkert svo lélegt að maður skyldi fatta hvað var á seyði. En kannske er farið öðrum höndum um þetta í bókinni.

Helvíti er leiðinlegt að skrifa um hluti án þess að skrifa um þá. Ég ætti náttúrulega ekki að víla því fyrir mér þarsem lesendahópurinn minn er ég og þú og einn sameiginlegur vinur okkar. Bah.

Og hvað. Nei ég er ekki ennþá búinn að hlusta á nýja Interpolinn. En ég er búinn að fá síðustu einkunnina mína og það var tía. Nú bíð ég eftir peningunum mínum.

(Já og tvennt sem mig dreymdi nýlega: Ég var að lesa nýju Eddie Campbell bókina, sem ég man ekki hvað átti að heita, og mér fannst hún það besta sem hann hafði gert nokkurntíman. Vonandi rætist það að einhverju leyti.. Og ég hafði dánlódað gagnvirkri kvikmynd eftir Woody Allen sem var mjög óþægileg og breyttist í hvert skipti sem maður horfði á hana. Afhverju var hún óþægileg? Ég man það ekki. Helts draumar.)

-b.

Engin ummæli: