31 júlí 2007

Þetta kemur ekki oft fyrir

Eiginlega bara aldrei. Á kvöldvakt um daginn kom kona að kaupa bensín og spurði mig um leið hvort ég væri að lesa eitthvað skemmtilegt. Það vildi svo til að ég var að renna í síðustu metrana af The Prestige, svo ég sagði já. Þeir hefðu gert bíómynd uppúr þessari bók þarna um árið, tveir galdramenn að battla. Hún sagðist ekki hafa séð hana en bað um að fá að lesa aftan á kápuna. Ég sagði að bókin væri fín, talsvert frábrugðin myndinni, en mér hefði líka þótt hún fín.

Lengra var samtalið ekki. En það er gaman að fá einstaka sinnum inn fólk sem maður getur gert sér í hugarlund að geri eitthvað annað en að keyra og kaupa bensín til að geta keyrt. Lesið bækur. Horft á bíómyndir - eða ekki, í þessu tilfelli.

Ég var að lesa Ástrík um daginn, man ekki hvaða bók nákvæmlega. Ég legg hana frá mér oná afgreiðsluborðið þegar næsti kúnni labbar innum dyrnar. Þetta er stór og mikill gaur sem kemur þarna soldið, en segir ósköp fátt. Honum virtist samt lítast vel á það að ég skyldi lesa Ástrík. ,,Hann lemur aldrei neinn að óþörfu" sagði hann. Ég jánkaði því, sagðist finnast þetta stórskemmtilegar bækur. Eftir því sem ég las fleiri fór ég samt að spyrja sjálfan mig hvort hann hefði verið að lesa sömu bækur og ég. Ástríkur ræðst oft á fólk að óþörfu. Hann er ekki jafn slæmur og Steinríkur, en þegar Rómverjar eða Sjóræningjar eiga í hlut þá þarf hann enga átyllu til að berja þá í spað.

Fólk er samt áhugasamara ef maður er að lesa skáldskap, að því mér sýnist. Myndasögur eru eitthvað sjíbídjúbú. 'Bensínafgreiðslumaður að lesa fagurbókmenntir'.. kannske finnst fólki sú hugmynd skemmtilegri en 'Búðarlokan með súpermannblaðið'.

En maður er ekkert að ýta þessu að fólki. Kannske ég ætti að gera það samt. Það væri óneitanlega meira spennandi samtal en

,,Jæja, segirðu ekki allt gott?"
,,Ég, jú ég segi alltaf allt gott."
,,Já, það er heldur ekki hægt annað.."
,,Nei einmitt"
,,..þegar veðrið er svona fínt."
,,Já, þetta er ágætt svona."
,,Já smá væta, fyrir gróðurinn."
,,Já það er alveg nauðsynlegt."

sem er einmitt það sem gerist þegar útimaðurinn minn þekkir, kannast við, eða telur sér trú um að hann þekki einhvern sem kemur að borðinu hjá okkur. Já eða bara ef það er temmilega föngulegur kvenmaður.** Þá þarf nauðsynlega að eiga sér stað einhverskonar samtal. Ég held ég sé ekkert sérstaklega andfélagslegur að eðlisfari, mér finnst bara óþarfi að búa til eitthvað plat-samband á milli kúnna og afgreiðslumanns, einsog þessi stutta stund sem líður á milli okkar skipti einhverju máli. Að mínu mati er nóg að vera kurteis og snarpur, og hjálpa fólki að finna það sem það leitar að. Punktur.

Það gildir svo annað með fólk sem kemur oft og reglulega, kannske daglega, og er greinilega að sækjast eftir því að tala við okkur. Hefur jafnvel eitthvað að segja (!).

En það er kannske það sem er að fara svona í mig frekar en annað, að fólk rembist við að tala um eitthvað þegar það hefur andskotann ekkert að segja. Ég tuða nú og rausa um ekkert utaní fólki sem ég þekki, en mér finnst ekki við hæfi að gera það við fólk sem ég þekki ekki neitt.

Dæmi: Það kemur kona á bíl og vill láta fyll'ann. Hún er flugfreyja - maður sér það á gallanum sem hún er í. Hann er merktur flugfélaginu vinstra megin á brjóstinu, einsog ég er merktur stöðinni. Bíllinn er fylltur, hún borgar, þakkar fyrir sig og keyrir í burtu. Útimaðurinn snýr sér að mér og segir: ,,Hún er að vinna hjá Flugfélaginu, þessi."

Hvað á ég að segja við því? Erum við að fara að tala um flugfreyjur almennt, flugsamgöngur, einkennisbúninga? Nei, þarna þurfti bara einhver að segja einhverjum öðrum það sem allir viðkomandi sáu hjálparlaust tíu sekúndum áður. ,,Já." Segi ég. Flugfreyjan berst ekki aftur í tal, þessi bensíndrekkandi starfsmaður Flugfélagsins.

Tuttugu sinnum á dag skal maður heyra greint frá einhverju sem var í fréttunum kvöldið áður, eða þá um morguninn. Teitur rekinn frá KR. Hlustið nú öll, hér er frétt sem auðvelt er að endurtaka og enginn þarf beint að hugsa um. Hafið eftir mér: ,,Já já, þeir eru bara búnir að reka hann. Já svona er þetta."

Og línan danglar í hausnum á manni, úr Clerks: ,,This job would be great if it weren't for the fucking customers," en hún er bara hálfrétt. Og þarmeð höfum við komist að því hvernig ég vil hafa veröldina í kringum mig: Galtóma, kurteisa og góðan daginn við sjálfan mig. Blarg.

-b.

**Það skiptir voða litlu á hvaða aldri viðkomandi kvenmaður er. Þegar það er farið að detta niðrum 15 árin þá hættir manni reyndar að lítast á blikuna.

6 ummæli:

Gunnar sagði...

Mér finnst það ærin ástæða til að berja einhvern ef viðkomandi er sjóræningi eða Rómverji.

Björninn sagði...

Gaulverjum finnst það líka. Og þeir eru kommúnistar. Ertu að láta í veðri vaka að þú sért kommúnisti?

Gunnar sagði...

Hmm. Ég var að þýða skrár í ævisögu Maós. En sú bók er and-kommúnísk.

Sumir segja að ég sé kommu-isti, þar eð ég skemmti mér stundum við lestur prófarka.

Svo bý ég ekki langt frá Bæjarhreppnum.

En hét hann ekki Ráðríkur, bæjarstjóri Gaulverja? Það er kannski í takt við hinn sögulega kommúnisma, en síður þann teóretíska.

Björninn sagði...

Jújú, en það er nú frekar írónísk nafngift. Hann hefur sjaldnast hemil á eigin skjaldberum, hvað þá annað. Yfirleitt ákveða Ástríkur og/eða Seiðríkur eitthvað og síðan leggur Ráðríkur blessun sína yfir, einsog það skipti einhverju máli.

Annars eru ensku þýðingarnar á nöfnunum á tíðum frábrugðnar því sem við þekkjum. Þar kallast Ráðríkur t.a.m. Vitalstatistix. Þýðingarnar á nöfnum hafnarbæjanna á Korsíku er tildæmis æðisleg (í Asterix in Corsica. Þau enda öll á -um, en þar eru meðal annars Quaderatdemonstrandum, austur og vestur.

Það virkar náttúrulega ekki að segja frá því, en þegar kortið blasir við manni þá er ekki hægt annað en að fílaða. Og fílaða vel.

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvort það er bensínstöðin, það gæti verið eitthvað tengt því að lesa "betri" bókmenntir yfirleitt. Einhver vatt sér til dæmis að mér á JFK-flugvelli þegar ég var að lesa Sherlock Holmes og svipað kom fyrir á einhverjum öðrum flugvelli þegar ég var að pæla í Seneca. Fáum hefði dottið í hug að spyrja mig um eitthvað eftir Dean Koontz eða Stephen King, eða FHM-tímaritið.

Björninn sagði...

Jú það er góður punktur..