26 október 2006

Saga í sex orðum

Ég man eftir þessari örsögu hans Hemingways, ,,For sale: baby shoes, never worn." Man samt ekki hvar ég las hana.. ég keypti a.m.k. ekki bókina. Wired hafði samband við slatta af fólki og fékk það til að skrifa sögu í sex orðum. Nokkrar góðar:
Computer, did we bring batteries? Computer?
  - Eileen Gunn

Gown removed carelessly. Head, less so.
  - Joss Whedon

Machine. Unexpectedly, I’d invented a time
  - Alan Moore

With bloody hands, I say good-bye.
  - Frank Miller

Epitaph: Foolish humans, never escaped Earth.
  - Vernor Vinge

He read his obituary with confusion.
  - Steven Meretzky

Dinosaurs return. Want their oil back.
  - David Brin

whorl. Help! I'm caught in a time
  - Darren Aronofsky and Ari Handel

Rained, rained, rained, and never stopped.
  - Howard Waldrop

The baby’s blood type? Human, mostly.
  - Orson Scott Card

Ég þekki ekki helminginn af þessu liði, en það er gaman að sjá hvað myndasöguhetjurnar skrifuðu. Og að Moore og Aronofsky skulu hafa skilað inn sömu hugmyndinni, svona þannig séð.

Tónninn í þessum sögum er líka mjög misjafn. Sagan hans Hemingways er augljóslega smáauglýsing, og hefur þannig ríka ástæðu til að vera stuttorð: Á þeim vettvangi borgar maður fast verð per orð. Það að skórnir séu ónotaðir bendir til þess að barnið hafi dáið áður en það náði aldri til að passa í þá, eða jafnvel áður en það fæddist. Það er augljóslega ekki inní myndinni að geyma skóna, ef ske kynni að annað barn fæddist inní fjölskylduna í framtíðinni; kannske dóu móðirin og barnið bæði í barnsförum.

Væntanlega eru þessir skór eitthvað sem foreldrið / foreldrarnir vilja losna við, til að vera ekki minnt á barnið sem er ekki lengur til staðar. En í stað þess að skórnir séu gefnir eða þeim hent eru þeir auglýstir til sölu, sem bendir til þess að efnahagurinn sé bágur á heimilinu.

Maður spyr sig samt hvort það svari kostnaði að kaupa smáauglýsingu í dagblaði.. Ef ekki, hver er þá ástæðan fyrir sölunni?

Sagan segir a.m.k. miklu meira en hún virðist gera við fyrstu sýn. Ég veit hinsvegar ekki hversvegna þetta gæti ekki flokkast undir ljóð.. Það er ekkert narratív í gangi, engin greinileg rödd fyrir utan stuttyrði auglýsingarinnar. En hvað um það.

Slatti af þessum sögum eru bara brandarar. Sem er auðvitað gott og blessað. Brevity is the soul of wit sagði skáldið (þó ég muni ekki hvernig HH þýddi). ,,Rained, rained" virkar einsog færsla í dagbók fyrir mig, en lýkur um leið sögu heimsins. Það hætti bara bókstaflega aldrei að rigna, endir.

Og hverju rigndi? Var þetta rigning einsog við höfum vanist eða eitthvað.. hræðilegra? Kannske rigndi eldi og brennisteini þartil heimurinn gaf sig. Kannske rigndi mold oná líkkistuna þartil sögumaður gaf upp öndina.

Mér finnst hún allavega með þeim betri þarna.

Risaeðlurnar eru fyrirsögn í dagblaði.. sem tengist þannig í Hemingway-söguna; í prentmiðlum er plássið jafn mikilvægt allstaðar. Því stærri sem þú vilt að orðin séu því styttri verður setningin að vera.

Einn eyðir 1/6 í sviðslýsingu: Epitaph, eða eftirmæli, grafskrift. Endalok mannkynsins veiða ekki meira en fimm orða athugasemd uppúr alheimssamfélaginu.. Maður gæti haldið því fram að Adams hafi neglt það betur með ,,Mostly harmless."

Línan hans Wheadons er gróteskur brandari, en hvar gæti þetta verið skrifað? Dagblaðsfyrirsögn myndi ekki skipta sér af kjólnum, en einhverjum hlutaðkomandi þykir þetta markvert atriði. Mér dettur helst í hug minnisbók rannsóknarlögreglumanns. Athyglisvert líka að þarna er ekki um að ræða kjól einsog í ,,dress," heldur er þetta ,,gown." Ég er ekki með það á hreinu hvort til er séríslenskt orð yfir það, en ein algeng týpa er brúðarkjóll. Brúður, myrt og afhausuð áður en hún hafði færi á að ganga frá kjólnum sínum? Það er sena.

Tíma-brandararnir þeirra Moores og Aronofskys gera sér mat úr því að fyrir hinum vestræna manni líður tíminn frá hægri til vinstri, og byrjar aldrei í miðjunni. Það væri hægt að blaðra um það til mikillar lengdar, en línurnar sjálfar bjóða ekki uppá mikið annað en augljóst formalískt metafiksjón. Stærsti munurinn á þessum sögum er sá að Moore byrjar á ,,Machine," með stóru M-i, á meðan Aronofsky og co. byrjar á ,,whorl," með litlu w-i. Það er hefð fyrir því í enskum brag að byrja línur á stórum staf, en ef setningunni er einfaldlega haldið áfram hringinn og hún kláruð í fyrsta orði línunnar, þá ætti það að vera með litlum staf. Eða hvað?

Þetta er gaman.

Og það er fullt af öðrum örsögum þarna.. slatti af drasli og lélegum bröndurum, en sumt af þessu er sniðugt og skemmtilegt til umfjöllunar og nokkuð djúpt þó það sé ekki háfleygt.

-b.

Engin ummæli: