14 september 2024

Staðir sem eru ekki þarna lengur

Við feðgar vöknuðum rétt fyrir sjö og keyrðum austur á Selfoss. Fólkið var að fara í réttir og sonurinn með. Planið hjá mér var að kíkja í sundlaugina áður en ég keyrði heim, en hún er lokuð eins og hún leggur sig vegna bilunar í klórblöndunarbúnaði, held ég? Svo ég keyrði í Laugaskarð.

Sjálf sundlaugin þar er stór, 50 metra laug, og gjarnan of heit fyrir minn smekk -- þeir þurfa sennilega ekki að spara heita vatnið að neinu ráði. Hún var algerlega mannlaus og stillt þegar ég kom, og þokkalega köld í þetta skiptið, þarna í efri endanum. En þegar ég rak hausinn oní heyrði ég undarlegan nið, sem hækkaði svo og ágerðist eftir því sem ég synti út. Í hinum endanum, sem er svo óskaplega djúpur, var hávaðinn orðinn óþægilegur. Í bringusundinu var hvíld á meðan hausinn kom uppúr kafi en svo skall þessi suðandi gnýr á eyrunum aftur í næstu stroku. Í skriðsundinu voru engin grið.

Þegar ég kom uppúr spurði ég í afgreiðslunni hvað þetta væri, hún sagði mér að þetta væri gufan að hita upp lagnirnar. Þetta hefði ágerst fyrir sirka fjórum árum síðan. Ég kom síðast hingað í júní minnir mig, og hef komið nokkrum sinnum upp á síðkastið, hef aldrei tekið eftir þessu áður. Má vera að það sé misjafnt eftir tíma dags, eða maður taki minna eftir þessu ef það er margt í lauginni.

Áhugavert ha.

Eftir laugina keyrði ég upp að garðyrkjuskólanum, sem ég get ekki séð að sé þarna lengur. Það eru skilti við veginn sem vísa á gróðurhús og bananahús, og svo aðalbygginguna. Það eru framkvæmdir í gangi við aðalbygginguna, verið að einangra eða einhvern fjandann. En ekki sála á staðnum. Byggingin er breytt síðan ég man eftir henni, en ég átta mig ekki á því hvort hefur verið bætt við eða tekið frá.

Garðarnir sem voru í brekkunni fyrir neðan eru horfnir. Skemman eða hvað það var, sem stóð hinumegin við slóðann þar fyrir neðan, hún er líka farin. Ég er iðulega kominn þarna áður en ég tek eftir því, á planið við aðalbygginguna, í fatahengið þar sem guli síminn var, eða eldhúsið þar sem var hægt að klifra út um gluggann við aðalinnganginn, í hitakompuna í miðju gróðurhúsinu, skálann með borðtennisborðinu, sjónvarpsstofuna þar fyrir ofan, "tjörnina" þar sem var hægt að klifra meðfram bakkanum yfir í beðið, rúllustigann efst í byggingunni og stofuna þar fyrir innan, út um aðrar hvorar dyrnar vestan megin og yfir í garðana, eða aftur fyrir of yfir brúna og þar í hæðina upp að fjalli. Ég man að ég gekk niður með gróðurhúsunum og einhverskonar stíg eða slóða niður að sundlauginni, fór þarna frekar oft (miðað við allt og allt) en ég man það ekki núna. Og sömu leið í skólann og til baka náttúrulega.

Það er búið að múra upp í það sem var aðalinngangur að barnaskólanum. Vegurinn sem lá á milli hans og árinnar er farinn. Bókasafnið efst á hinni hæðinni er komið í verslunarkjarnann hérna nálægt.

Mér finnst ég hafa talað um þetta hérna áður.

Já ég sit núna á kaffihúsi sem liggur saman með mathöllinni, sem stendur hinumegin við götuna frá Hótelinu. Hótelið er ekki ósvipað því sem ég man. En barinn sem ég held alveg örugglega að hafi heitað Casino, hann er farinn. Ég hef ekki farið inn.

Tívolíið og Eden eru svo farin að maður tekur ekki eftir þeim lengur. Nú býr fólk þarna bara í nýjum húsum. Í gamla hverfinu eru húsin ennþá, misvel upp gerð. Lóðin fyrir framan "Kastalann" stendur finnst mér hálfan meter fyrir ofan götuna. Gangstéttarnar eru í rusli.

Í þessu kaffihúsi er hægt að kaupa omnom súkkulaði, föt og fylgihluti frá Kormáki og Skildi eða 66N, alla drykki og snakkpoka sem til eru á Íslandi, trölladúkkur á la Pilkington, kerti sem líta út eins og krepptur hnefi með löngutöng út í loft, bílfarma af hönnunarvöru. Og grænt te, ég fékk mér grænt te. Mathöllinn hérna við hliðina lítur út eins og hinar mathallirnar. Það er nú gróður hérna og notalegt að setjast niður. Körfustóll úr alvöru lifandi efni. Bundinn saman.

Á afgreiðsluborðinu get ég bókað mitt næsta ævintýri. Það er röð af einhverskonar sandjeppum fyrir utan.

Ég er að hugsa um að fara hérna hinumegin við götuna á Ölverk og sjá hvort það sé eitthvað fyrir mig að borða þar. Og svo aftur hinumegin við götuna á hótelið og vita hvort þau eiga kaffi handa mér. Ég get ekki ímyndað mér að ég eigi eftir að þekkja staf þegar ég kem þar inn, en það eru sennilega tuttugu og tvö ár síðan, kominn tími til.

-b.

Best ársins 2023

Eins og svo oft áður þá byrjaði ég að skrifa þennan árlega pistil í kringum áramótin og hvarf svo frá honum. Ég hef svo ekki haft fyrir því að opna þennan miðil þangaðtil núna um miðjan september.

Ég veit ekki hverju ég myndi bæta við, kannske einhverju um það sem gerðist hjá mér eða fyrir mig persónulega á árinu 2023 en nú er eiginlega of langt um liðið. Ég tók áfanga í forritun hjá NTV og hafði gagn og gaman af, honum var faktískt ekki lokið þegar ég stofnaði þessa færslu í upphafi árs 2024. En ég var þá þegar búinn með lokaverkefnið. Þetta nám er ekki ódýrt svo ég sá fyrir mér að taka pásu áður en ég héldi áfram í aðra önn, svo blessað stéttarfélagið fengi að pústa aðeins og hlaupa svo aftur undir bagga með mér. Það er ennþá planið en á meðan hef ég haldið áfram að læra uppá eigin spýtur, fer samt ekki frekar út í það hér.

Og hvað er svo að frétta á bilinu janúar til september 2024? Það kemur þessum pistli ekki við. Nú smelli ég á "birta" án þess að breyta eða bæta við það sem ég var kominn með um daginn:

Kvikmyndir

Ég legg ekki meira á þig en það, lesandi góður, að ég gerði lista á letterboxd fyrir þær kvikmyndir sem ég sá hið fyrsta sinni á árinu. Hann er hér. Þetta eru efstu myndirnar á þeim lista:

Bækur

Aftur las ég samasem ekki neitt sem tjáir að nefna.

Ég hafði gaman af fyrstu bókunum í Slough House seríunni: Slow Horses, Dead Lions, Real Tigers og Spook Street eftir Mick Herron.

Heat 2 var líka skemmtileg, ekki eitthvað sem ég myndi mæla með við nokkurn sem hefur ekki séð Heat.

Og 11/22/63 var svakalega spennandi og læsileg bók sem skildi ekkert mikið eftir sig. Skál af hunangsristuðu morgunkorni.

Ég las tvær myndasögur sem ég myndi mæla með: Beneath the Dead Oak Tree eftir Emily Carroll, og The Department of Truth eftir Tynion og Simmonds. 

Tónlist

Ég kom gamla plötuspilaranum í gang og tók nokkrar plötur á bókasafninu, sem ég komst fljótt í vanskil með. Kind of Blue var ákveðin uppgötvun. 

En megnið af tónlistinni streymir úr Spotify, hér er topp 10 listinn fyrir árið:

Aftur á móti var mest spilaða bandið Public Service Broadcasting, sem kemst ekki inn á þennan lista. Platan Bright Magic er ennþá í spilun hérna megin. 

-b.