08 október 2009

Haninn og hneggið

Ritstjóri Morgunblaðsins gerir grín að bloggurum, sem rífast og skammast yfir engu en hafa sem betur fer engin alvöru áhrif á almenna umræðu eða lífið í landinu. Það er semsé fyrri helmingur pistilsins. Seinni helmingurinn er þessi klisjuhlaðna grein um skemmtikrafta sem öllum er sama um, sem er svo banal og bitlaus að hún gæti eins hafa runnið úr máðu lyklaborði Stefáns Friðriks Stefánssonar, erkimyndar hins skoðanalausa bloggara. Sjá:

Spaugstofumenn sjónvarpsins eru snillingsmenni sem létta mönnum lund vikulega á vetrum, þegar þörfin er mest, líka þeim sem helst verða fyrir barðinu á þeim. Ómar Ragnarsson er sem skemmtikraftur óborganlegur og úthaldið, þrekið og „nefið“ fyrir hinu spaugilega engu líkt. Laddi á sjötugsaldri er afburðaeintak og það er rétt hjá „Magnúsi“ að það er náttúrlega bilun að hann skuli ekki fyrir löngu orðinn heimsfrægur. Söngfuglinn Ragnar Bjarnason er nýorðinn 75 ára og hefur í meira en hálfa öld átt hvert það bein þjóðarlíkamans, sem getur dillað sér. Það er ótrúlegt hverju sá maður kemur í verk með hangandi hendi. Þessir menn eru eingöngu valdir af handahófi úr hópi gleðigjafanna góðu. En síðastur skal nefndur maður, sem Morgunblaðið sagði frá á dögunum að væri að koma heim aftur með nýtt hjarta, Jóhannes eftirherma Kristjánsson. Öll sætin á sagaklass hefðu ekki dugað fyrir þær persónur sem sá maður getur brugðið sér í. Við þökkum gleðigjöfunum, nefndum og ónefndum, og teljum við hæfi að segja að við fögnum hjartanlega heimkomu Jóhannesar Kristjánssonar og allra hans fjölmörgu fylginauta.

- Leiðari Moggans, sunnudaginn 4. október sl.

Það er líklega ekkert öruggara fyrir gamlan og þreyttan álitsgjafa en að mæla með grínistum, sem eru sjálfir orðnir svo gamlir og þreyttir að enginn nennir að mæla gegn þeim lengur. En það er eitthvað pínu sorglegt við að sjá þennan sama gamla mann farinn að herma eftir páfagaukunum sínum, inná milli þess sem hann æpir og skammast yfir því hvað þeir hafa hátt.

-b.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég verð nú að segja að Davíð Oddsson er mun liprari (og þannig séð læsilegri og skemmtilegri að lesa) í leiðurum sínum (jæja, ég hef nú bara séð þennan eina,) en allir ritstjórar Fréttablaðsins til samans. Greinar Jóns Kaldals og Þorsteins Pálssonar finnst mér afspyrnu leiðinlegar, og skil ekki hvernig fólk nennir að lesa þær, hvað þá að vitna í þær.
Páll Sigurðsson