17 september 2020

Pan and scan

Ég var að horfa á I'm Thinking of Ending Things í gær. Hún er gerð í hlutföllunum 4:3, sem maður sér ekki oft, en hentar henni ágætlega.

Það minnti mig á senu í Magnolia, sem sló mig svo ég vankaðist þegar ég sé myndina fyrst. 

Ef ég man rétt þá leigði ég Magnolia og Storytelling á VHS skömmu eftir að ég útskrifaðist úr FSu? Ég hafði tognað hressilega á ökklanum og lá í rúminu á jarðhæðinni á Heiðarveginum. Ég nappaði annaðhvort vídjótækinu á heimilinu eða fékk lánað með spólunum, og tengdi gamla sjónvarpið hans Óskars, á að giska 12 tommur, og kom því fyrir í rúminu með mér.

Ég er sennilega að rugla saman minningum, en það gerðist einhvernveginn svona.

Ekki besta umhverfið til að upplifa Magnolia; Storytelling hinsvegar, já já.

En ég er a.m.k. viss um að ég sá Magnolia fyrst í pan-and-scan útgáfu á VHS vegna þess að þessi sena sat í mér lengi vel, og ég var ennþá nógu glær til að halda að hún ætti að vera svona:


Það eru óskaplega mörg dæmi til um það hvernig pan-and-scan flutningurinn skemmir myndina, en þessi sena er dæmi um faglega uppgjöf gagnvart viðfangsefninu. Það vill auðvitað enginn horfa á alla myndina svona, en einsog stundum gerist með þýðingar þá fann maður eitthvað stórkostlegt þarna sem tapast í frummálinu.

Ég man annað svipað dæmi úr Pulp Fiction, en finn það ekki á Youtube. Það er þegar Jules skýtur Flock of Seagulls gaurinn. Í upprunalegu útgáfunni hreyfist ramminn ekki, en í pan-and-scan útgáfunni sem ég sá á VHS færist fókusinn snögglega til vinstri, ramminn fylgir handahreyfingu Jules þar sem hann miðar og skýtur, og truflar þá ekki bara vesalings Brett heldur áhorfandann sömuleiðis. 

Senan er ekki betri í þessari útgáfu en ég myndi ekki segja að hún væri verri heldur.

Nú er ég að reyna að muna hvaða mynd þetta var, sem ég sá ásamt Storytelling, ef ekki Magnolia. Láttu mig vita ef þér dettur eitthvað í hug.

I'm Thinking of Ending Things er fín, bílferðirnar stórkostlegar, heimsóknin mátulega ónotaleg. Hún hefur meiri áhuga á að viðhalda spennu heldur en að.. hvað á maður að segja.. springa út? En það er ekki ljóst fyrir mér hvað liggur undir þegar persónurnar virðast svo augljóslega vera einhverskonar tilbúningur, dúkkulísur eða endurvarpanir. Ég er enn á því að Kaufman komi betur út þegar hann vinnur með öðrum leikstjóra en sjálfum sér -- þar á meðal í Anomalisa, þar sem hann er þó annar af tveimur.

En hann er að reyna eitthvað.

Það er sól í höfninni, ég reyni að hugsa ekki um hausverkinn sem ég vaknaði inní, Danmörk var að skella í lás, ég ætla að dansa í kvöld.

-b.

27 apríl 2020

Destroyed by Hippie Powers

Ég opnaði blogger, sá þennan titil efstan í röðinni og mundi ekki eftir að hafa vistað draft. Kíkti hingað inn til að sjá hvað ég skrifaði, þá var síðan tóm. Sem kemur ekki beint á óvart. En þá er kannske allt eins gott að skrifa eitthvað og sjá hvað gerist.

Ég hef kannske haft einhverja löngun til að skrifa um Car Seat Headrest, sbr. titilinn. Twin Fantasy (face to face) og Teens of Denial hafa verið í spilun hjá mér undanfarið, aðeins dottið niður í banninu reyndar.

Ansi margt sem hefur dottið niður í banninu, ég hef ekki verið að lesa neitt af viti til dæmis. Aftur á móti hef ég grisjað úr bókahillunum, svo færðum við hillurnar allar saman, það kemur ágætlega út. Það eru fleiri bækur í þessum hillum sem mig langar til að henda (en ekki nógu mikið til að henda þeim) heldur en bækur sem ég veit að mig langar til að kaupa.

Ég er búinn að vera heima síðan um miðjan mars held ég. Fékk kvef og kinnholubólgu eftir Danmerkurferðina og var heima nokkra daga, vann heima nokkra daga í viðbót, fór í vinnuna á föstudegi áður en safnið lokaði og já, síðan hefur safnið verið lokað. Vinna heima. Við fórum í sóttkví reyndar strax í kjölfarið. Síðan voraði.

Heimavinnustöðin er við borðstofuborðið og ég horfi á traffíkina oní dal.

Ég tók upp á því að afrita bunka af DVD diskum til að eiga á tölvunni. Þetta leiddi til þess að ég horfði þrisvar sinnum í beit á Zodiac. Við horfðum saman á Memento, Nanna hafði aldrei séð hana áður. Og Deadwood, af því mig langaði að renna í gegnum það aftur áður en ég horfði á myndina.

Hvað fór eiginlega úrskeiðis í þessari blessuðu Deadwood mynd? Einsog svo margt annað sem "snýr aftur" eftir að hafa verið elskað í tætlur þá gleymir myndin að fjalla um eitthvað. Það eru allir bara mættir aftur, sýna sig á skjánum og segja nokkur orð. Meira að segja í Deadwood, þar sem mesti hitinn kom frá persónunum, samskiptum milli þeirra og hvernig þær tala hver við aðra (og við sjálfa sig) þá voru þættirnir aldrei svona skotnir í sjálfum sér. Og þeir standa ennþá fyrir sínu, ég hafði mjög gaman af því að horfa á þættina aftur. Kvikmyndin er einhverskonar vaxmynd, mótuð eftir minni.

Við höfum verið að horfa á Patriot, fyrsta þáttaröð er með því skemmtilegra sem ég hef lengi séð. Kláruðum hana í gær og fórum strax í fyrsta þátt annarrar raðar og það hefur eitthvað hræðilegt gerst í millitíðinni. Framhaldið tekur frá okkur ætluðu endalokin, allt þetta sem hefði getað gerst eftir að klippt er á síðasta þáttinn þar á undan. Ekki bara með því að halda áfram þar sem frá var horfið en breyta því hvað persónurnar vilja, heldur bætir það við senum sem eiga að hafa gerst utan ramma daginn áður, en þær skjóta endalok sögunnar sem fyrri þáttaröðin er, algerlega í kaf. Ég er að tala um gæjann í lestinni, sem hefði aldrei verið þar og hefði aldrei verið beðinn um að vera þar af aðalpersónunni sem við skildum við í fyrstu þáttaröð. En svo líður ár í framleiðslutíma, við snúum aftur á sama stað í sögunni og allt er breytt.

Það er þetta með að snúa aftur, og ég veit að ég hef of upptekinn af þessu. Í ferðinni til Kaupmannahafnar fór ég aftur þangað sem ég bjó fyrir 13 árum síðan. Það er allt gerbreytt, það er allt eins. Ég þekki sjálfan mig þar en ég þekki engan. Það að snúa aftur hefur í raun ekkert að gera með það sem var áður heldur það sem er ennþá, þann hluta af sjálfum manni sem er ennþá þarna á þessum stað. Tengingin við fortíðina dugar ekki til að gefa heimsókninni merkingu, heimsóknin þarf að vera eitthvað í sjálfri sér. Þannig verður hún hluti af manni sjálfum í nútíðinni, einsog eldri minningarnar eru nú þegar.

Ég er að hugsa upphátt.

Síðasta heila daginn í Kaupmannahöfn núna um daginn vaknaði ég frekar seint, fór á Warpigs í hádegismat. Gekk svo meðfram höfninni, og í gegnum verslunarmiðstöðina þar sem við Ýmir sáum Borat!, alla leið að bókasafninu, sá oná kollinn á Nick Cave, gekk að styttunni þar sem ég tók myndina af Agli og gamla manninum fyrir 20 árum síðan. Fór svo oní metróið og lestina heim á hótel, sofnaði snemma.

-b.

12 janúar 2020

Best ársins 2019

Tónlist


highasakite: Uranium Heart

Árið 2018 var fyrir Silent Treatment og Camp Echo, og svo kom Uranium Heart út á þessu ári. Mér finnst það gerast sjaldan að hljómsveit sem ég er að hlusta á akkúrat þá stundina gefur út plötu sem mér finnst góð, eða standast samanburð við fyrra stöffið. En það gerðist með Uranium Heart (og Giants of All Sizes reyndar líka), hún var það eina sem ég hlustaði á lengi vel. Textarnir eru ennþá naívir á stundum en það er hluti af pakkanum, og það sem greip mig við þau upphaflega, hernaðarbröltið er annað sem ég tengi ekki alveg við. En það er góð stemning í þessari plötu, í þessu bandi langar mig að segja. Ég dvel þar um stund.

Topparnir langar mig að segja að séu Uranium Heart, Mexico og Egomaniac?

Elbow: Live at Jordrell Bank og Giants of All Sizes

Live at Jodrell Bank kom upp í playlistanum í ár, Elbow er þessi hljómsveit sem ég rekst alltaf á aftur og aftur, einsog við séum á sitthvorri gönguleiðinni en fylgjumst að hluta og hluta úr leið. Sennilega á það við um fleiri góðar hljómsveitir, fleiri góðar plötur.

En ég rifjaði amk. upp í ár, þegar ég fór aftur að hlusta á Elbow, að Danni kynnti mig fyrir þeim með því að spila Asleep in the Back. Þetta hlýtur að hafa verið skömmu eftir að platan kom út, en ég þekkti bara hana og varla það. Lögin Any Day Now, Red og Powder Blue. Ég datt niður á A Cast of Thousands skömmu eftir að hún kom út, sótti hana sennilega í gegnum Soulseek, gamla Thinkpad vélin á svarta skrifborðinu við gluggann á Eggertsgötunni.

Og svo fyrir nokkrum árum, ég var nýbúinn að sækja Spotify og The Takeoff and Landing of Everything var nýkomin út, datt í hana. Ég missti af Little Fictions og er ekkert voða skotinn í henni, en útgáfan af Leaders of the Free World sem þeir spila á Live.. benti mér á þá plötu, og svo kom Giants of All Sizes út og greip mig mjög vel. Dexter & Sinister, Empires, My Trouble og Weightless væri kappnóg en The Delayed 3.15 og White Noise, White Heat eru þarna líka.

Það er góður hljómur í þeim, nokkur slagur í nýju plötunni og Garvey er bara svona gæi sem er gott að hlusta á. Hann er með þetta þíng.

Phoebie Bridgers: Stranger in the Alps

Fyrsta lagið sem ég heyrði var Funeral, og öngullinn var meðvitundin og mögulega húmorinn sem hún hefur fyrir því hvað hún er óskaplega svartsýn og niðurdregin. Hún minnti mig á Morrisey, „seems so unfair / I want to cry“ og svo framvegis.

En platan fer í fleiri áttir og er á heildina litið mjög sterk, hrífandi, kasúal ljóðræn og hún syngur fallega. Motion Sickness, Scott Street og You Missed My Heart eru toppar en annars dalar hún hvergi nema kannske í Killer.

IDLES: Joy as an Act of Resistance

Fyrsta lagið sem ég heyrði var Danny Nedelko, setti það á repeat í smá stund og renndi svo í gegnum plötuna. Og hún er þétt. Byrjar á sterkustu lögunum, Colossus, Never Fight a Man With a Perm og Danny Nedelko -- I'm Scum er líka gott. Ég missi aðeins þráðinn í Love Song en Samaritans og Television toga mann aftur af stað.

Tónlistin er einmitt svona mosh pit fuel, enda upptökur af tónleikum með þeim mjög skemmtilegar. Textarnir eru mestmegnis mjög beint áfram, hálfpartinn naívt woke, og þeir eru meðvitaðir um það. Það er sennilega misjafnt hvort maður hefur smekk fyrir því: mér finnst hljóma mjög undarlega að kippa „these boots were made for walking“-línunum smávægilega breyttum inní Man With a Perm, og eins það að taka „baby shoes, never worn“ línuna, aftur dálítið breytta, beint inní June. En seinna lagið fjallar jú um fósturmissi, það eru hráar tilfinningar þarna á bakvið, ég fæ ekki á tilfinninguna að höfundurinn setji sig í stellingar heldur að þess hálfpartinn klisjukennda tilvitnun sé bara eitt af því sem hann grípi í. En ég skil vel að þetta fari yfir strikið eða virki öðruvísi á aðra.

Nick Cave: Ghosteen

Og talandi um missi, Ghosteen er furðuleg og/eða undursamleg plata, einsog skipulegt taugaáfall eða bara áfall. Í stað þess að flytja texta og spila lög með bandinu er einsog Cave rauli yfir hægfljótandi hljóðvíddum, svífandi úr einu í annað í endalausu núi. Plötuumslagið er paradís, textarnir hverfast um missi, söknuð, ást og von um endurfundi, mér finnst hálpartinn einsog ég ætti ekki að vera að hlusta á þetta stundum. En hún er grípandi. Ég get ekki greint lögin svo greitt í sundur, heldur er platan í heild veröld út af fyrir sig, það er helst að einstaka ljóðlínur leggist á minnið, einstaka tilfinning sem geislar úr því sem Cave syngur.

Ég hef ekki verið svona sleginn af Cave síðan Abbatoir Blues / The Lyre of Orpheus, sem var líka tvöföld plata en náttúrulega allt annars eðlis.

Önnur tónlist

Eitt af því sem kom mér á óvart þegar ég renndi í gegnum 2019 wrapped -- af því ég fæ alla mína tónlist á Spotify -- var hvað það var mikið af Isola með Kent, sænsku útgáfunni. Ég man alveg eftir því að hafa tekið tímabil með þeim, en gjáin hefur verið dýpri en hún var breið. Aðrar "eldri" plötur sem ég datt oní á árinu voru Random Access Memories, Build a Rocket Boys, Camp Echo, Almost Killed Me, One Life Stand, To Pimp a Butterfly og Run the Jewels.

Bækur


Af þeim bókum sem ég var að lesa áramótin 2018-19 kláraði ég eina, það var 2666. Ég var að lesa hana í annað skiptið, það var skemmtilegt, eiginlega stórskemmtilegt. Þrátt fyrir að ég hafi pásað aðeins í þriðja hluta. Ég er ekki eins sannfærður og ég var áður, um að Bolano hafi örugglega klárað bókina áður en hann dó.

Ég greip Íslandsklukkuna í sumarfríinu og hún er stórkostleg. Halldór Laxness átti eiginlega restina af árinu hjá mér.

Ég las Heimsljós strax í kjölfarið og hafði gaman af en hún er ekki eins beitt og Íslandsklukkan. Ég skrifaði eitthvað pínulítið um hana hérna á síðunni.

En ég var að spjalla við ömmu mína um Heimsljós og hún minntist á dagbækur Magnúsar Hj. Magnússonar, sem hefðu verið útgefnar að hluta fyrir einhverju síðan. Það var Kraftbirtingarhljómur guðdómsins sem Sigurður Gylfi Magnússon ritstýrði, þar birtir hann hluta úr dagbókum Magnúsar, sjálfsævisöguna og nokkur bréf. Og skrifar nokkuð ítarlegan inngang þar sem hann togar þetta allt saman. Dagbækurnar eru skemmtileg heimild, og skemmtileg lesning fyrir einhvern sem hefur áhuga á karlinum. Ég hafði mestan áhuga á fangelsisárinu 1910 en það er líka langur kafli um þjóðtrú og fasta liði í daglegu lífi í sjálfsævisögunni, sem var sennilega hápunkturinn í bókinni?

Þriðja Laxness bókin var svo Brekkukotsannáll en ég hef óskaplega lítið um hana að segja.

Og svo las ég HKL ástarsaga eftir Pétur Gunnarsson. Þar segir hann frá sínum eigin kynnum af Halldóri, og leggur út frá bréfum Halldórs og vina hans til að segja frá unglingnum, kaþólikkanum og ameríkufaranum. Góð mynd af listamanninum sem ungum fávita.

Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson las ég í sumarfríi fyrir norðan, mestanpart þar sem ég sat á Húsavík öl einn miðvikudag. Hún fjallar um bækur á alla mögulega kanta, og hún talar um fróðleik á bókum og utan bóka, hvernig maður tekur við veröldinni af foreldrum sínum og hvernig við skilum henni áfram. Víðtækri þekkingu er í meira mæli dreift á internetinu en sögumaður er hallari undir rómantík bókasafnsins, og sækir í sértækari frásagnir: þjóðlegan fróðleik, sem úir og grúir af í bókasafni sem hann veit hann ætti að senda á haugana.

Án þess að þurfa að vita neitt um höfundinn eða hans fjölskyldu þá hittir sögumaður á mjög sannfærandi tón í allri umræðu um bækur sem gripi, sem list, sem fagurfræði, sem þekkingarkistu, sem .. leiðarhnoðu? Er það eitthvað? Það er stundum talað um að bækur séu eins og fólk, sem mér finnst hæpið vegna þess að ég myndi ekki vilja henda fólki á haugana. Og það er eitthvað sem þarf stundum að gera við bækur. Sögumaður hefur heilbrigðara viðhorf en það, sem þýðir fyrir mitt leyti að hann hefur svipað viðhorf og ég. Eða það er allavega það sem ég les úr þessum texta. Mér finnst gaman að fylgja honum eftir í bókasafninu, að grípa niður hér og þar og láta bækurnar leiða sig eitthvert í huganum. Svoleiðis ráf um bókasafn leiðir óhjákvæmilega til endurminninga, um samskipti feðranna og um bókasafn sögumannsins í gegnum tíðina.

Í stuttu máli ein af þessum bókum sem ég myndi mæla með við hvern þann sem les bækur, en aðra ekki. Besta bókin sem ég las á árinu sem er ekki eftir HKL. Eða kannske sú besta sem heitir ekki Íslandsklukkan.

To Die in Spring eftir Ralf Rothmann. Ég sá kápuna og vissi strax að ég þyrfti að lesa þessa bók. Auðvitað fjallar um hún seinna stríð! Allstaðar seinna stríð.

Við fylgjum ungum þýskum mjólkurbónda-lærlingi sem er kvaddur í herinn ásamt uppsópinu í sinni sveit, undir lok stríðsins. Honum er ljóst að stríðið er þegar tapað, öllum virðist það nokkuð ljóst. En vélin rennur áfram af eigin þunga og enginn vill segja það sem liggur í augum uppi, og vera skotinn fyrir vikið. Um leið leitar hann að gröf föður síns, sem virðist hafa fallið í stríðinu, en það að leita að einni tiltekinni gröf í öllum þessum dauða og geðveiki sem umkringir hann er svo fjarstæðukennt að það er það eina sem meikar nokkurt sens.

Það er ekkert epískt við þessa frásögn, hún er einmanaleg, ofbeldisfull, köld og stutt. Hún er römmuð inn af frásögn sonar hermannsins, sem fær ekki að heyra söguna úr stríðinu og hefur að því er virðist engin tækifæri til að díla við fortíðina einsog hún snertir hans eigin fjölskyldu; þegar það virðist tímabært að leita er allt grafið undir snjó. Það er þessi hluti sögunnar sem hefur hana upp fyrir annað svipað. Ég spyr mig alltaf og endalaust af hverju er ég að lesa um seinna stríð? Af hverju er þessi höfundur að skrifa um seinna stríð? Og Rothmann svarar.

Myndasögur


Ég skrifaði eitthvað aðeins um þær á goodreads, ég tengi á umfjallanirnar þar sem þær eru til, annars hef ég litlu að bæta við.

The Photographer eftir Emmanuel Guibert ofl. Sennilega besta myndasagan sem ég las á árinu. Og hún er nokkuð gömul, meira að segja nokkur ár síðan ég keypti hana, en ég greip hana loksins niður úr hillu og gerði aðra atlögu að henni. Stórkostleg bók.

The Squirrel Machine eftir Hans Rickheit. Svarthvítt high-kontrast líkamshryllingur og bio-mekaník, hálfgert virtuoso júnit, mæli hrikalega með.

ODY-C, bók 2: Sons of the Wolf eftir Matt Fraction ofl. Höfuð og herðar yfir fyrri bókina, en losar sig líka aðeins úr Ódysseifskviðu-endursögninni. Mátulegt metafiksjón en Fraction kann líka að skrifa manneskjur, og teikningarnar eru víraðar, útúrþessu, fallegar.

Edena eftir Moebius. Ég las fyrstu bók af þremur (held ég) í íslenskri þýðingu og mæli eiginlega ekki með restinni, sem ég las í enskri þýðingu. Rétt einsog með Inkal þá virðist Moebius missa sig í rugl nýaldarheimspeki þegar hann veit ekki hvað á að gerast næst, en allra fyrstu kaflarnir eru rosalega flott stöff.

Shipwreck eftir Warren Ellis ofl. Þessi bók byrjar einsog hryllingssaga en hún sveigir fljótlega af yfir í meira normal sæfæ, Ellis heldur samt vel á spöðunum og hann er ennþá sá af gamla Breska teyminu sem er að gera nokkuð af viti þessa dagana.

Sæúlfurinn eftir Riff Rebs. Kom einsog þruma úr heiðskíru lofti, ég las hana í einum rykk, sjúklega flott bók sem hæfir þessari lánuðu sögu mjög vel. Froskur ætlar að gefa út aðra bók í sama stíl eftir þennan höfund á næstunni og það þykir mér mjög vel.

My Friend Dahmer eftir Derf Backderf. Dálítið erfið bók. Höfundur og sögumaður virðist gera út á það að hafa þekkt Dahmer en virðist samt ekki hafa þekkt Dahmer neitt sérstaklega vel. Hann gefur merki um að hafa eða hafa haft einhverja samúð með Dahmer, en það er ekki að sjá af því sem hann skrifar. Umfram allt kemur fram mynd af þessum upprennandi fjöldamorðingja sem einangruðum, geðveikum unglingi sem gat ekki leitað sér hjálpar, og að sögumaður og vinir hans hafi viðhaldið þessari einangrun.

Það er náttúrulega snúið að áfellast fólk fyrir eitthvað sem það gerði í barnæsku, og vissi ekki betur. En Backderf býður upp á þannig lagað með því að skrifa um það sem gerðist, og hann virðist ekki hafa neina meðvitund um það hvernig hann sjálfur kemur fram í þessari sögu. Burtséð frá því öllu saman þá er sagan áhugaverð og Backderf hefur greinilega unnið heilmikla rannsóknarvinnu umfram sínar eigin minningar og þessháttar. Af hverju sný ég umfjöllun um bókina yfir í það hvort eitthvað sé einhverjum að kenna? Ja, það snýr að því hvernig framsetning sögumannsins á efninu snýr á skjön, og fer í taugarnar á mér. En þrátt fyrir það er bókin vel þess virði að lesa. (Það var gerð kvikmynd eftir bókinni, ég byrjaði að horfa á hana en hún greip mig ekki.)

Og mér finnst ég verði að minnast á Neomomicon og Providence eftir Alan Moore ofl.

Ég rakst á þriðju Providence bókina í bókasafninu í Kringlunni, tók hana og líkaði ágætlega. Hætti svo að lesa af því mig langaði að lesa byrjun sögunnar fyrst, og komst að því að safnið átti hvorki Neonomicon né Providence 1 og 2. Nú eru Providence bækurnar víst uppseldar fyrir löngu síðan og fyrst bækurnar voru ófáanlegar sótti ég þær á netið.

Neonomicon er áhugavert Lovecraft remix, góð grunnhugmynd hjá Moore og vissulega óhugnaleg. Myndmálið virkar dálítið flatt á mig, einsog Providence. En bókin líður helst fyrir virkilega óþægilega nauðgunarsenu sem kemur um miðbik sögunnar, og hvernig sagan vinnur úr henni.

Ég skrifaði hálfgerða langloku um Providence á Goodreads, og þessi gaur fjallar um bækurnar á skýran og sannfærandi hátt. Ég tel það ekki gegn bókunum að snúa Lovecraft á haus að einhverju leyti, aðalvandamálið er að sjálf sagan eins og Moore gerir hana úr garði er ekki nógu góð, og heimsmyndin sem hann teiknar upp að lokum ekki eins áhugaverð og sú sem Lovecraft og félagar skildu eftir.

Sjónvarp


Wormwood ehr heimildamynd í sex þáttum með löngum leiknum köflum. Þessir leiknu kaflar eru fallega og haganlega gerðir með alvöru leikurum, eins og maður sé að horfa á sannsögulega kvikmynd. En á milli koma viðtöl við alvöru fólk, og aðrar heimildir á borð við upptökur, ljósmyndir, texta úr skýrslum oþh., einsog maður býst við að sjá í heimildaþætti. Áhrifin eru sérstök af því það er á vissan hátt verið að selja manni eina útgáfu af sögunni sem um ræðir, á miklu ákveðnari hátt en í hefðbundinni heimildamynd. Framleiðendurnir leyfa sér að sýna alvöru persónur (leiknar af leikurum) gera hluti sem þeir hafa ekki 100% vissu fyrir að hafi gerst. -- Og á hinn bóginn gæti þetta virkað öfugt: manni gæti sýnst að einmitt vegna þess að senurnar eru leiknar af þekktum leikurum, og áferðin "ekta bíó", þá sé þetta alltsaman meira plat?

Sagan fjallar um sjálfsmorð eða mögulega morð á vísindamanninum Frank Olson sem vann fyrir Bandaríkjaher á sjötta áratugnum. Hann hrapaði niður úr glugganum á hótelherberginu sínu árið 1953. Sonur hans hefur haft málið á heilanum (eðlilega) alla tíð síðan, og myndin flettir ofan af þessu máli lið fyrir lið, eins langt og verður komist. Endalokin eru sérstaklega merkileg, þar sem þættirnir svo gott sem fullyrða um hvað hafi raunverulega komið fyrir vesalings manninn. Skýringin sem þeir gefa er kannske ekki ótrúleg en allt önnur en maður hefði búist við í upphafi, og harmleikurinn fyrir soninn lendir einhvernveginn á manni með skelli.

Ég hugsaði ekki um það á meðan ég var að horfa, en nú átti ég blóðföður sem lést af slysförum. Aðstæðurnar voru allt aðrar á alla mögulega máta en spurningin sem maður situr uppi með, ef maður vill horfa í þá átt, er hvað hafi komið fyrir. Það er eitthvað sem gerist áður, það er eitthvað sem gerist á punktinum og kannske voru vitni og kannske ekki, og svo gerist framhaldið sem maður getur kannske mögulega fengið einhverja vitneskju um frá þeim sem komu að því. Það er hægt að búa til einhverja sögu sem passar inní eyðurnar og rekst ekki utan í það sem maður þó einhvernveginn veit að hljóti að hafa verið. En það getur verið ómögulegt að vita eitthvað fyrir víst, og þegar spurningarnar í kringum málið eru eins flóknar og í þessu Wormwood máli, og ná til alls þessa fólks og þessara stofnanna sem maður vill helst ekki koma nálægt, þá get ég ekki ímyndað mér hvernig það er að lifa með þeim, reka þær áfram, vaka og sofa um þær. Þessir furðulegu þættir fanga þetta einstaklega vel.

The Vietnam War er um það bil 16 klukkustunda löng heimildamynd, í 10 þáttum, um Víetnamstríðið. Þetta er bilað stöff. Þeir rekja forsöguna frá franska nýlenduveldinu til heimsstyrjaldanna og uppgangi kommúnismans, og hvernig Bandaríkin mjaka sér inní þessar fáránlegu aðstæður; pólitíkina í landinu, uppskiptinguna, spillinguna, geðveikina í hverju horni, alla leiðtogana sem héldu um taumana í Norður- og Suður-Víetnam, og alla forseta Bandaríkjanna sem héldu þessu gangandi. Leynimakkið, fangana sem voru teknir, aðferðirnar sem báðar hliðar beittu; endalokin, áhrifin sem stríðið hafði í framhaldi. Ég veit ekki af hverju ég er að telja upp einhver einstök atriði, það er of mikið til að reyna að tæpa á í stuttu máli, manni er eiginlega drekkt í þessari sögu.

Mest af þessu er frá sjónarhóli Bandaríkjanna og það er heilmikið farið í "ástandið heima" og hvernig stríðið klauf þjóðfélagið í tvennt, sem er auðvitað mjög áhugavert. Þættirnir sýna líka mörg viðtöl við Víetnama, úr báðum fylkingum, og fara út í áhrif stríðsins á þeim tíma og í framhaldi í Víetnam en ekki í eins miklum mæli og fyrir Bandaríkin. Sem kemur ekki á óvart. En ég áttaði mig á því þegar ég var að horfa að ég hef sennilega aldrei séð viðtal við Viet-Cong hermann áður. Það var allskonar fólk í allskonar stöðum að segja frá sinni viðkomu og sinni upplifun, sem ég hef aldrei séð áður. Eftir á að hyggja kemur þetta heldur ekki á óvart -- ég hef ekki verið að leita neitt þessháttar uppi. Maður sér poppkúltúr frá Bandaríkjunum og þar er Víetnamstríðið þessi ákveðna stærð sem tekur sitt pláss í samvitundinni, og á einhverjum tímapunkti hættir maður að taka inn nýjar upplýsingar eftir þessum leiðum og dregur mörk utan um þennan hlut sem er Víetnamstríðið. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir einhvern sem hefur einhverskonar persónulega tengingu við þessa atburði, en hefur svipaða þekkingu og ég hafði (sem mér þykir ekki ósennilegt að gæti komið fyrir), að horfa á þetta.

Það er eitt sem ég hjó eftir í þessari frásögn, og það kom upp aftur og aftur. Viðbrögðin "heima fyrir" voru sjúklega niðurdrepandi. Jafnvel á lokametrunum, þegar allir sem vildu vita vissu hvað stríðið var mikil vitleysa og hafði verið frá upphafi, þá var stuðningur við áframhaldandi stríðsrekstur, og við sitjandi forseta Bandaríkjanna, ennþá hár. Alltof hár. Manni gæti hætt við að hugsa sem svo að í dag hafi vitleysingarnir tekið völdin á sumum vígstöðvum, og að hérna fyrir nokkrum árum síðan hafi mótmælahreyfingar og pólitískur þrýstingur haft meiri áhrif á svona lagað, en það fer fjarri.

Þeir taka viðtöl við fólk sem var aktíft í hreyfingum mótmælenda gegn stríðinu, og þau lýsa þróuninni og tíðarandanum og breyttum áherslum og einstökum atburðum og árangrinum í gegnum árin, en aldrei fékk ég á tilfinninguna að mótmælendurnir eða friðarhreyfingin hefði áorkað nokkrum einasta hlut. Ekki þannig að þau hafi gert illa eða verið fölsk í sínum boðskap eða ódugandi fólk eða neitt þessháttar, það skein bara svo í gegnum alla þróun þessarar sögu að þeirra rödd skipti ekki máli þar sem hún hefði þurft að skipta máli. Það er ekki fyrr en fyrrverandi eða aktífir hermenn, sem eru komnir heim frá Víetnam, bætast í hóp þeirra sem mótmæla stríðinu, að nálin fer eitthvað að hreyfast hvað varðar álit almennings á því sem er í gangi. Og þeir hafa samt sem áður engin áhrif á aðgerðir þeirra sem stýra þessu stríði. Rökin sem stýra því hvernig stríðinu er hagað hafa ekkert að gera með mannlega tilveru. Það er kannske það sem er mest niðurdrepandi fyrir það sem mætti kalla lærdóminn af sögunni, að það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að neinn hafi lært nokkurn skapaðan hlut af þessu, eða myndi breyta öðruvísi á nokkurn hátt, nema þá þeir sem voru á staðnum, á jörðinni, í þessum absúrd aðstæðum. Og það er ekki einusinni víst með þá. Filman sem liggur oná öllu sem viðkemur bandarískum almenningi í þessari sögu er þessi dýrkun á hernum og hermönnunum, sama hvað þeir fást við, og það er einhvernveginn sá grunnpunktur sem eitrar alla túlkun á atburðum í kjölfarið.

Chernobyl er síðan leikin eftirmynd af annarskonar hamförum. Upplifunin af því að horfa á sjálfa sprenginguna og eftirleikinn einsog þeir sýna það, fannst mér nánast einsog ég væri að horfa á hryllingsmynd. Það er sena þar sem starfsmenn í kjarnorkuverinu ganga fram á syllu og horfa ofan í opið vítið á kjarnaofninum þar sem hann brennir veröldina á einhvern yfirskilvitlegan hátt og það var í mínum huga enginn munur á því og að fylgjast með vesælum aukapersónum ráfa oní kjallara í opið fangið á fjöldamorðingja eða þessháttar. Það er eitthvað banvænt, illskiljanlegt og óhreyfanlegt sem bíður allra sem nálgast það, og við áhorfendur vitum það en persónurnar vita það ekki, og það er ennþá hrikalegra fyrir vikið að þetta hafi meira og minna gerst í alvörunni nokkurnveginn svona.

Þetta er saga af mistökum og mistökum á mistök ofan, sem færist svo yfir í frásögn af ofurmannlegu þrekvirki við að þrífa upp skítinn og taka til í kjölfarið. Meira að segja réttarhöldin undir lokin þótti mér áhugaverð og skemmtilega upp sett. Sagan fjallar kannske ekki síður um lygar, og það er tekið mjög ákveðið fram á mörgum punktum í þáttunum, að lygar hafa afleiðingar. Það er auðvitað verið að bregðast við pólitískri stöðu í hinum enskumælandi heimi þessa dagana. En þættirnir reyna líka að sýna manni við hverskonar aðstæður lygar verða að sjálfsögðum hlut, eða nauðsynlegum hlut. Þetta er eitthvað sem er miklu erfiðara að túlka á skjánum heldur en afmörkuð atvik, fúsk, hetjuskap og sorg og þessháttar. Ég er ekki viss um að það hafi tekist nógu vel hjá þeim. En aftur, ég er ekki viss um að það sé hreinlega hægt innan þessa miðils.

Watchmen var miklu betra stöff en ég hefði þorað að vona. Ég hafði ekki fylgst með neinum fréttum af framleiðslu þáttanna, greip þá bara þegar þeir komu í sýningar. Mér fannst þeir nálgast sögu bókarinnar á hárréttann máta, með því að láta hana meira og minna í friði en snúa svo upp á hitt og þetta þegar við hittum persónurnar aftur öllum þessum árum síðar. Ég kann líka að meta hvernig þáttaröðin býður ekki upp á, eða biður ekki um, framhald. Sumt virkaði betur en annað einsog gengur, en mér fannst þættirnir alltaf skora eða geiga á sínum eigin forsendurm, en ekki í því hvernig þeir höndluðu efni eða stíla bókarinnar o.s.frv.

Það er kannske ekki sérlega frjótt að einblína á tengsl þáttanna og bókarinnar sem þeir byggja eða byggja ekki á, en miðað við söguna á bakvið þá getur maður eiginlega ekki annað. Eða get ég eiginlega ekki annað. Mér fannst sjálf sagan sem þættirnir segja mátulega stutt, þeir gefa sér hellings tíma til að segja sögur einstakra persóna sem tengjast rauntíma-fléttunni óbeint en fylla upp í stemninguna og tilfinningu fyrir veröld þáttanna. Og eru góðar sögur út af fyrir sig.

Ég ætlaði að tala um aðra þáttaröð af Mindhunter af því það var eitthvað í henni sem mér þótti áhugavert, mér fannst flott að þættirnir skyldu skipta um gír og reyna eitthvað annað og öðruvísi en það er sem var í gangi í fyrstu þáttaröðinni. En það er eitthvað sem smellur ekki alveg, tvístrunin á persónunum er meira truflandi en hún þyrfti að vera, morðmálið heima fyrir fannst mér undarlega þungur biti, og einstakir bútar einsog Manson-viðtölin fannst mér ekki passa inní heildarmyndina þegar stóra morðmálið fyrir sunnan tók eins mikið pláss og það gerði -- sem mér fannst út af fyrir sig spennandi. Þannig að sennilega er þetta ekki best ársins, en kemst nálægt því.

Ég held ég hafi líka horft á The Jinx í ár, sem var furðulegt og grípandi stöff. Svipað og með OJ Simpson heimildaþættina að því leyti að það er verið að leiða í ljós einhvern sannleik sem allir virðast vita en enginn má segja upphátt. Að því leyti rímar það líka við söguna um Víetnamstríðið og að sumu leyti Wormwood.

Kvikmyndir


A Message from the King

Revenant

The Big Short

Vice

American Factory

Annihilation

Hlaðvarp


Ég hef voðalega lítið að segja um hlaðvörp þetta árið.

Harmontown leið undir lok og ég sé eftir því.

Ég hlustaði á hlaðvörp sem HBO gaf út fyrir Chernobyl og Watchmen, mér þótti þau vel heppnaðir fylgifiskar fyrir þættina.

Ég man ekki hvort ég hef áður minnst á Threedom, ég hafði mjög gaman af þeim á árinu.

Og Hollywood Handbook er ennþá uppáhalds, þeir áttu marga góða spretti á árinu en ah, ég nenni ekki að vera að telja upp eitthvað sérstakt.

Ég hef alltaf gaman af Drive to Work Podcast og The West Wing Weekly og In Our Time.

Í fyrra minntist ég á Unspooled, sem fór svo mikið í taugarnar á mér í ár með Godfather þáttunum sínum að ég henti þeim í hafsauga og missti allt álit á Paul Scheer. Ekki að það hafi verið hrikalegur missir.

Það var talsverð vinna lögð í framleiðslu á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins á árinu, en það lagðist eiginlega alveg af eftir að gamli kynningarstjórinn okkar hætti og sá sem hafði tekið við skipulagi og umsjón þáttanna hætti skömmu seinna. Mér þótti gaman að taka þátt í þessu og hefði viljað gera það áfram, en ég geng ekki svo langt að reyna að taka við rekstrinum sjálfur, ég hef nóg annað að gera. Því er verr.