Jæjarinn. Heyrðu. Ég sit þá í vinnunni og það er ýmislegt sem ég þarf að gera þar, svo eru hérna ritgerðir í poka sem ég á eftir að fara yfir. En eitthvað sem ég ætla ekki að útlista hér leiðir til þess að ég logga mig inn á þessa síðu, og þá getur maður sosum sagt nokkur orð.
Ég fór austur um helgina og á sunnudeginum rann upp fyrir mér ljós varðandi hexadecimal kerfið, sem ég komst svo að raun um núna áðan að var rangt. Það er að segja, ljósið var rangt, það var ekki ljós. Heldur eitthvað annað, býst ég við? Kannske spor. Það sem ég hélt að væri ljós var í raun spor. Gengur það?
Ég fór allavega austur á Selfoss um helgina, borðaði með fjölskyldunni á Heiðarveginum og fékk svo skutl alla leið til hans Daníels í Sóltúninu, þarsem við tveir, Hallur, Víðir og Rúnar spiluðum Battlestar Galactica framá nótt. Þetta var gott spil, það komu upp hinar og þessar aðstæður sem við höfum ekki lent í áður.. Pegasus viðbótin er dálítið farin að kitla mig. Leitt að það virðist sem flugmennirnir geti einhvernvegin aldrei skilað sínu, þeir eru nýkomnir út á vélunum sínum og eru þá annaðhvort skotnir niður eða fleygt inná BSG aftur þegar skipið stekkur.
Kannske er það ekkert svo ólíkt öðrum klössum, það eru allir fatlaðir á einhvern máta.
Ég fór að skoða þessa viðbót á netinu, svona einsog ég mátti, og allskonar dót sem fólk útí bæ hefur verið að búa til. það eru held ég 7 nýjar persónur sem bætast við í Pegasus, en Gaeta er ekki þar á meðal, þannig að það eru allir að búa til Gaeta..
En nóg um það.
Síðan spiluðum við Heilaspuna, sem var fínn. Alveg spil til að eiga í hillu, ekki svo langt og svona.
Hann Yngvi frændi er í fríi þessa dagana svo við Finnur skiptum kvöldvöktunum á milli okkar. Ég leyfði mér að mæta á hádegi í dag þarsem ég verð til hálfátta. Ég verð líka til hálfátta á morgun. Ekkert alltof mikill tími til að gera eitthvað annað.
Og svo er alveg komið veður til að hjóla í vinnuna. Þarf að prófa það sem fyrst. Sem fyrst, sem fyrst.
By Night in Chile sýnist mér vera fín bók. Er sirka hálfnaður með hana, las upphátt slatta í gær, sem var mjög viðeigandi fannst mér, þarsem hún er skrifuð einsog raus úr rekkju. Ég hef verið að hlusta á Shutter Island á hljóðbók en mér hálfleiðist hún. Enda búinn að sjá myndina og veit þessvegna hvernig hún endar. Það er málið með þessa þrillera.. Ég var hinsvegar að komast í fínasta lestur á Moby Dick og ég held það sé næst á dagskrá. Um að gera að renna yfir þessa helvítis doðranta.
Bakið er svona og svona. Ég fer til sjúkraþjálfarans aftur á miðvikudaginn. Blarg.
Kettirnir voru geldir á föstudaginn. Þeir voru vankaðir, svo vöknuðu þeir aftur, mér sýnist þeir ekkert hafa kippt sér upp við þetta.. Það kom mér á óvart að þeir á spítalanum gerðu tvo skurði á hvorn sekk, einn fyrir hvort eista (býst ég við). Hefði ekki verið nær að spara hnífinn og toga þau bæði í gegnum einn og sama skurðinn? Eru pungsekkir katta búnir skilrúmum?
Við Nanna höfum verið að horfa á síðustu seríu af X-Files og það er með ólíkindum hvað þessum andskotum tókst að rústa þessa fínu fínu þætti. Áttunda þáttaröð var nú léleg en sú níunda er hrikaleg. ,,Aðalpersónurnar" eru óspennandi, Scully hefur ekkert að gera, og er orðin 'taugaveikluð móðir'-fígúra, og þættirnir velta sér uppúr vísúal hryllingi frekar en að reyna að ná fram einhverskonar stemningu. Þetta er bara illa skrifað drasl.
En við horfum á það samt vegna þess að ég vil vita hvað gerist.
Chris Carter vildi víst klára geimveru-innrásar-plottið í bíómynd, sem myndi koma út skömmu eftir að þættirnir kláruðust. En svo var eitthvað vesen með peninga þannig að myndinni seinkaði, og þá hættu þeir við að klára geimverurnar, gerðu bara þátt um stofnfrumuhysteríu í staðinn. Það var X-Files: I Want to Believe myndin. Og svo vilja þeir gera enn eina mynd, og binda þá endahnút á fyrrgreint plott, en þá eru náttúrulega ekki til neinir peningar vegna þess að X-Files: I Want to Believe var ömurleg og það vildi enginn sjá hana.
Þetta eru asnar, Guðjón.
-b.