11 febrúar 2008

Hringadróttinssaga byrjuð

Ég er byrjaður á Hringadróttinssögu, hún er að komast í gang. Það eru sirka tíu ár síðan ég byrjaði að lesa hana síðast.. ég held ég hafi gert þrjár atlögur, síðast komst ég inní miðja aðra bók. En eitt sem ég var (náttúrulega) búinn að gleyma er umræðan um tilurð sögunnar í byrjun bókarinnar. Að þessi saga, líkt og Hobbitinn, sé fengin úr ,,Rauðu bókinni". ,,Rauða bókin" er ekki til lengur, en það voru gerð mörg afrit og þessi saga er afrituð úr nákvæmustu afrituninni sem gerð var. Þannig að skv. inngangnum er þessi saga afrit af afriti af skrásetningu á munnlegri heimild. - Eða, ef ,,Rauða bókin" var skrifuð af Bilbó og Fróða - einsog mér skilst að komi síðar fram - þá er bókin að minnsta kosti afrit af afriti.

Þetta er náttúrulega vel þekkt minni, að ræða það sérstaklega hvernig textinn kemst í hendur lesenda. Mig minnir að það sé brugðið á leik með þetta í Don Kíkóta, þarsem textinn á að vera spænsk þýðing á arabískri þýðingu á spænsku sögunni um Don Kíkóta. Til grundvallar þessu er spurning um sannleiksgildi og hluttekningu: Höfundarnafnið er hefðbundin trygging fyrir sannleiksgildi sögunnar, en við upphaf bókarinnar er höfundurinn ókunnur. Við þetta bætist að sagan hefur verið afrituð af álfi og þareftir af ókunnum þriðja manni - sem maður gæti ætlað að sé Tolkien sjálfur.

Bókin reynir hinsvegar að tryggja sig gegn ásökunum um óáreiðanlegan sögumann með umfjöllun sinni um hobbita, í formálanum. Bókmenntir þeirra samanstanda af löngum, leiðinlegum frásögnum af hinu og þessu í lífi gamalla hobbitaætta, með ættartölum og -tengslum og þessháttar rausi. Skv. sögumanni er krafa þeirra ekki sú að sagan sé spennandi eða skemmtileg, heldur að hún sé sönn og helst að þeir hafi heyrt hana áður. Tilgangurinn með því að heyra eða lesa sögur er semsagt sá að staðfesta sannleika sem þeir hafa þegar meðtekið, og öll tilfinningaleg viðbrögð framar því koma málinu svo að segja ekki við.

Lesandinn hlýtur þá að ætla, eftir að höfundar ,,Rauðu bókarinnar" hafa verið kunngjörðir, að hann hafi sagt satt og rétt frá - það er það sem hobbitarnir vilja skrifa um og heyra. Nú vill bara svo til að sagt er frá stríðum og ævintýrum en ekki uppskerubresti og ættartengslum.

Hinsvegar segir líka í formálanum hvernig Bilbó laug um það hvernig hann fann hringinn, og að í afritum ,,Rauðu bókarinnar" sé að finna ýmist lygasögu Bilbós og sönnu söguna sem hann játaði síðar fyrir Gandálfi. Þar sem sannleikurinn hafði komið í ljós ritaði Fróði hann samviskusamlega ásamt öllu öðru sem viðkom sögunni, en lét fyrri sögu Bilbós óhreyfða. Það er tvennt í þessu, held ég. Annarsvegar það að lyginni er haldið fram sem heimild, eingöngu vegna þess að hún var áður gerð fræg í sögu Bilbós. Hún er orðin hluti af sögunni og seinni ritarar reyna ekki endilega að stroka hana út. Hinsvegar það að eina lygasagan sem Bilbó segir, og eftirrennarar hans láta óhreyfða, snýst um það hvernig hringurinn kemst í hendur hans.

Ég veit ekki alveg hvað það þýðir.

En þetta ber alltsaman hingað: Upprunalegu höfundar Rauðu bókarinnar, hvaðan allar sögurnar eru teknar, eru tvær af örfáum persónum sögunnar sem þurfa að bera hringinn í lengri tíma og hljóta að láta spillast að einhverju leyti - og þeir eru að skrifa sögur sem snúast meira og minna um hringinn þeirra. Og síðan eru þessar sögur endurritaðar og endurritanirnar þýddar. Á hinn bóginn spyr maður hvaða helvítis máli það skipti, maður er sosum ekki að leita að neinum Sannleika með stóru S-i í bókum um risaerni og draugaher. En er þetta eitthvað sem liggur til grundvallar textanum, í innri lógík sögunnar?

Ætli það. Ég fæ það á tilfinninguna að svona grundvallar-fantasíubókmenntir láti svona (póst-)módernískar pælingar um sannleika framhjá sér fara. Módernískar pælingar snúast um hvort heimurinn sé einsog maður skilur hann og póstmódernískar um það hvort heimurinn sé sá sami og maður þekkti hann í gær eða síðan maður blikkaði síðast augum. Það er hinsvegar grundvallaratriði fyrir fantasíuna að maður skilji heiminn sem hún setur fram og að maður kaupi hann. Um leið og þú gefur persónunum leið inní hversdagslega Reykjavík þá ertu farinn að skrifa eitthvað annað en fantasíu.

Þetta er eitthvað sem fór dálítið í taugarnar á mér við allra fyrstu Discworld-bókina, og ég hef varla verið einn á báti vegna þess að flugvélaratriðið í henni hefur ekki verið endurtekið í bókunum, svo ég viti til.

En já. Þetta er semsagt raus sem ég gleymdi að klára hérna á föstudaginn eða eitthvað.. og ég er að reyna að binda það saman einhvernvegin en ég nenni því eiginlega ekki lengur. Þetta var upphaflega smá pæling um tilurð Hringadróttinssögu, samkvæmt Hringadróttinssögu. Ég veit ekki hvað ég á að segja um það frekar.

-b.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef grun um að þekking T. á norrænum fræðum og þau áhrifa sem norræni sagnaarfurinn hafði á hann sé nærtæk skýring hvað þetta endurritunarferli varðar. Lýsing þín á því sem segir í innganginum gæti allt eins verið lýsing á tilurðarsögu Íslendingasagnanna: "Þannig að skv. inngangnum er þessi saga afrit af afriti af skrásetningu á munnlegri heimild." Raunar stendur afritun Íslendingasagnanna enn yfir, eins og Njálumyndasögurnar eru nærtækt dæmi um.
Jæja þetta var nú bara svona smá punktur.

Kv,
Ingi

Björninn sagði...

Jú það er hárrétt.. og í raun dálítið gaman að sjá hvernig Tolkien tekur það og skellir framaná (eða utanum) sögu sem engum gæti dottið í hug að sé söguleg heimild - annað en segja má um Íslendingasögurnar.

Og nú er ég reyndar neyðarlega illa lesinn í Íslendingasögunum, en a.m.k. í Njálu og Laxdælu er hvergi minnst á sögu handritsins eða söguna sjálfa yfirhöfuð, fyrir utan ,,lúkum vér/ég þar ___ sögu." Þannig að til að færa textann í stílinn ætti hann frekar að sleppa öllu tali um tilurð handritsins.. En ef meiningin með fantasíunni er að skapa veröld, og forsaga ævintýrisins er útskýrð með sögum innan sögunnar þá liggur kannske nær að koma uppruna prím-textans frá hvað það varðar.

Ég er kannske að gera mér of mikinn mat úr þessu, en aðalatriðið fannst mér vera að upprunalega handritið hafi týnst. Og það var eiginlega rangt hjá mér að segja að Rauða bókin hafi verið eftir munnlegri heimild, ef Bilbó og Fróði skrifuðu hana sjálfir, en þá er þessi týnda bók alger frumheimild, orð þeirra manna sem sögðu söguna fyrstir allra. Í heild, að minnsta kosti.

Björninn sagði...

** Varðandi Ísl. sögurnar og ,,söguna": Mér finnst reyndar alltaf gaman þegar einhver karakter fær nokkrar línur um líf sitt frá því þegar hann segir skilið við atburðarásina, og svo kemur: ,,og er hann úr sögunni." Kemur okkur ekki við lengur. Þar er dálítil vísun í tilbúning sögunnar, en samt svo lúmsk.

Nafnlaus sagði...

Hárrétt að í Íslendingasögunum er að því er ég best veit aldrei getið um sjálft ritunarferlið, en þar sem sögutíminn er í talsverðri fjarlægð frá ritunartímanum er lesandanum ljóst að hinn ritaði texti byggir á munnlegum heimildum. Gísli Sigurðsson sérfræðingur á Árnastofnun gaf nýverið út bók sem fjallar um tengsl munnlegrar hefðar og ritunar sagnanna, bókin heitir Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar: tilgáta um aðferð. En það er kannski annar handleggur.

Það sem ég vildi sagt hafa er það að ef ég man rétt þá var hugmynd Tolkiens með skrifum sínum sú að skapa mýtólógíu handa bretum eða englendingum öllu heldur, þar sem hin forna mýtólógía Englendinga hafði að mestu glatast (ef frá er talinn sá hluti hennar sem varðveittist í norrænum handritum). Svo ef við göngum út frá þessu þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að hann velji sér svipað skrásetningarferli fyrir þessa mýtólógíu.

Og jafnvel þótt Rauða bókin hafi ekki verið eftir munnlegum heimildum þá á hún það sameiginlegt með Íslendingasögunum að upprunalega handrit frásagnarinnar er glatað og það eina sem við styðjumst við erum endurritanir á endurritanir ofan.

Hinsvegar er auðvitað rangt að bera Hringadróttinssögu svona mikið við Íslendingasögurnar eins og ég geri því þær eru auðvitað ekki goðsagnaheimur.

-Ingi

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Eitt stutt og banal(t?) frá mér:
Flugvélaatriðið í Discworld fór lítið í taugarnar á mér.

Björninn sagði...

Mér fannst það leim. Öll bókin framað því gerist í þessum ákveðna Discworld heimi, og hann eyðir miklu púðri í að gera þennan heim skemmtilegan og spes. Og svo kemur þetta atriði þarsem það er einsog aðalpersónan vakni úr dái eða eitthvað, líkt og allt sem áður kom hafi verið draumur eða ofsjónir eða.. eitthvað. En hann gerir ekkert með þetta heimsrof, allt snýr tilbaka og svo er aldrei minnst á þetta aftur - að því er ég best veit. Þetta er eitthvað skrýtið og kúnstugt til þess eins að vera skrýtið og kúnstugt.

Það er leim.

En ég tek það aftur fram að ég hef bara lesið fyrstu fjórar fimm bækurnar í flokknum, það má vera að hann byggi á þessu síðar. En þá er svo langt um liðið að mér finnst það frekar hæpið.